Hugur og hönd - 01.06.1973, Page 4
Hagieiksmenn í HúnajDÍngi
Spjallað við Kristófer Pétursson
Einhverntíma heyrði ég haft eftir þér, að þú hefðir
aldrei kunnað að selja. En mig langar til að spyrja þig:
Varðst þú ekki sá smiður, sem raun gaf vitni, einmitt af
því, að þú kunnir að selja við hæfi þinnar samtíðar?
— Jú, það er alveg satt. Ég kunni ekki að selja. Hitt
er líka satt. Kaupanautar mínir réðu ekki við hátt kaup-
verð. Þetta voru erfiðir tímar fyrir þjóðina. Peningar
voru mjög takmarkaðir í umferð, enda héldu sumir fast
í þá, alltaf misjafnt hvað menn vildu borga. Stundum
urðu dálitlir árekstrar út af greiðslum, þó aldrei svo, að
vinslitum ylli.
Sumir smiðir voru ódýrari en ég. T. d. man ég, að
Hannes Guðmundsson á Eiðsstöðum seldi svipuna á
þrjár krónur, þegar ég taldi mig þurfa að fá þrjár krónur
og fimmtíu aura fyrir mínar. Minn búskapur þoldi ekki
lægra verð. Hannes rak stórbú samhliða sinni smíði, enda
fágæt hamhleypa.
Hið sanna mun, að smíðar þínar hafa hvílt meira á
sköpunarþrá þinni, en löngun eftir auði og allsnægtum?
Já, ég hugsaði ekkert um auð og allsnægtir, aðeins að
ljúka við hvern þann smíðisgrip, sem fyrir hendi var
hverju sinni, og að fá það fram, sem ég átti beztan kost
á, enda voru flestir ánægðir yfir skiptunum, þegar þeim
var lokið.
En er það ekki einmitt þessi hugsun, sem er uppspretta
allrar listsköpunar?
Það má vel vera að þetta sé rétt hjá þér, en fyrir alla
muni má ekki gleyma því, ef einhver færi að þræða
þann veg, sem ég álpaðist eftir, vil ég ráðleggja honum
fyrst og fremst að vanda sig, hugsa minna um peningana,
meira um að verða sér til sóma.
Hvaða listrænn munur heldur þú, að sé á smíði þinni
og spuna Margrétar systur þinnar?
Það veit ég ekki, en ég veit, að ég hefði ekki getað
spunnið eins fínt og hún gerði. Hún spann svo vel, að
óhætt var að senda það á sýningar, oft þrinnað og þó
furðulega fínt, hrein snilldarvinna, enda hvarvetna höfð
í hávegum.
Var ekki margt af heimilisiðnaði, t. d. tóvinna, hreinn
listiðnaður þegar bezt tókst til?
Jú, það má vissulega segja það. Ymislcgt af því, sem
bezt var unnið í þeirri grein var listiðnaður, enda stóð
þar að baki allt í senn, þegar bezt lét: Nauðsyn þjóðar-
innar, þjálfun langrar ævi og oft frábær hagleikur. En
tóvinnan var aldrei metin sem slík. Hún var fyrst og
fremst skoðuð sem nauðsyn.
Þú byrjaðir snemma að smíða?
Því er ekki að neita. Ég var farinn að bjástra við
smíði ungur. Ég mun hafa smíðað fyrstu hestajárnin um
fermnigu. Þó gerði ég það aldrei nema fyrir sjálfan mig,
en bæði flatjárn og skaflaskeifur. Ég seldi aldrei skeifur.
En mér gekk það illa, hafði enga tilsögn með það og sá
það aldrei gert.
Þú varst eitthvað við nám hjá Jóni Leví á Stóru-
Borg?
Já, ég var hjá honum fjóra mánuði að læra að smíða.
Átti ekki að hafa annað fyrir stafni. Þá var ekki eftir
gefið. Við sátum við smíðarnar frá kl. 8 að morgninum.
Þá mætti Leví stundvíslega og tók sér brennivínsstaup.
Ég varð að taka annað, ef ég mætti nógu snemma. Annars
fékk ég ekkert. Mér fór að þykja þetta gott, þegar fram
leið. En vinnudagurinn var oft langur, stundum til kl.
1 að nóttu. Ég smíðaði ýmislegt: tóbaksdósir, svipur af
ýmsum gerðum, sauðaklukkur, kleinujárn o. fl. þ. h.
Karlinn var ánægður með þetta, enda gerði ég allt eins
vel og ég gat og við það var látið sitja. Allt var þetta
úr ódýrum málmum. Þetta var veturinn 1908.
Þegar tók að vora hélt ég, að ég væri orðinn talsverður
smiður. Það væri því næst fyrir hendi, að byrja á eigin
reikning að smíða svipur. Þetta gerði ég, en komst að
því, að ég var ekki orðinn nógu góður smiður, og að ég
átti mikið ólært. Ég er nú búinn að smíða í 63 ár og
finnst nú satt að segja, að ég hafi lært stafrófið, en hafi
aldrei náð að kveða að. En því næ ég varla héðan af.
Smíðaðir þú aldrei gull?
Jú, ég smíðaði steinhringa af ýmsum gerðum. En það
varð aldrei í stórum stíl. Ég gat aldrei legið með gullið,
var ekki nógu efnaður til þess. Ég smíðaði eitt og eitt
par af giftingahringum. Það var vel þegið. Ég hvarf
alveg frá gullsmíðinni, vegna þess hve dýrt það var. Síð-
asta platan, sem ég pantaði af smíðagulli var eins og
tveir reitir á meðalstóru taflborði og einn mm á þykkt.
4
HUGUR OG HÖND