Feykir - 29.11.2017, Blaðsíða 42
2 01 742
Þegar athugaðar eru frásagnir
Landnámabókar um landnám
og landnámsmenn í Skagafirði
verður dagljóst að höfundur hefur
verið ókunnugur í Skagafirði
og ekki haft þar greinargóða
heimildamenn. Þetta sýnir sig
berlega í tilvikum þar sem tveir
landnámsmenn eru sagðir
nema sama landsvæðið, til
að mynda Fremribyggðina í
Lýtingsstaðahreppi. Í annan
stað eru svæði þar sem enginn
landnámsmaður er talinn og má
þar nefna Hegranesið og landið
milli Unadalsár og Deildarár í
Hofshreppi. Það er rökstudd
tilgáta Byggðasöguhöfunda að
gleymst hafi að nefna einn land-
námsmann í Fljótum og landnámi
hans hafi verið slegið saman við
landnám Nafar-Helga.
Heimildir Landnámu
Í Landnámabók segir: Flóki
Vilgerðarson (Hrafna-Flóki) er
sagður hafa numið ,,Flókadal
milli Flókadalsár og Reykjarhóls;
hann bjó á Mói.“
Nafar-Helgi nam land ,,fyrir
austan upp frá Haganesi til
Flókadalsár, fyrir neðan Barð
og upp til Tunguár og bjó á
Grindli.“ Landnám Nafar-Helga
hefur vanalega verið talið liggja
að landnámi Flóka við Flóka-
dalsá, eða Flókadalur austan
ár, Barðstorfan, Haganes og
Grindilsströnd meðfram Mikla-
vatni suður að Fljótaá og upp
til Tunguár í Stíflu. Grindill,
landnámsbær Helga, er upp frá
Miklavatni innarlega að vestan
en jörðin skiptist síðar í tvær
jarðir, Stóra-Grindil og Minna-
Grindil.
Samskipa Nafar-Helga var
annar landnámsmaður í Fljótum,
Þórður knappur. Landnám hans
var ,,upp frá Stíflu til Tunguár og
bjó á Knappstöðum.“ Landnám
Þórðar var samkvæmt því einungis
Stífludalurinn austan Stífluár og
Gautastaðavatns og vestur fyrir
niður að Tunguá. Þegar borin
eru saman landnám þessara
tveggja, sem komu samskipa í
Fljót, vakna ýmsar spurningar.
Stærðarmunur landnámanna er
mikill og landgæði þeirra ólík.
Hvers vegna nam Þórður
ekki alla Stífluna báðum megin
Stífluár? Merkin við Tunguá eru
torskilin, mun eðlilega hefði verið
að Þórður hefði numið land þvert
yfir Stífluhóla og Skeiðsá ráðið
merkjum landnámanna en ekki
Tunguá.
Kona Helga var Gró hin
snarskyggna, og áttu þau fjögur
börn, sem getið er í Landnámu.
Landnám Helga nær „upp frá
Haganesi“, með Fljótaá alla leið
inn til Tunguár í Stíflu. Er þetta
til muna víðfeðmasta landnám
í Fljótum. Við fyrstu sýn virðist
sem það nái yfir allt land milli
Flókadalsár og Fljótaár, þó ekki
sé það sagt berum orðum. Má
eiginlega telja með ólíkindum að
Helgi gæti numið svo mikið land,
með hliðsjón af því að hann og
Þórður knappur komu saman
til Haganess. Hvernig má skýra
stærðarmun og landgæðamun á
þessum tveimur landnámum? Eða
er hér eitthvað málum blandið?
Ef orðalag Landnámu er nánar
skoðað gæti verið að ekki sé allt
sem sýnist. Tekið er fram að land
Helga nái að Flókadalsá, „fyrir
neðan Barð“. Barðsland nær
til Miklavatns á merkjum Barðs
(Karlsstaða, hjáleigu Barðs) og
Grindils, landnámsbæjar Helga.
Því er Barðsland á milli Grindils
og Flókadalsár. Með öðrum
orðum, Barðsland lokar leið að
Flókadalsá.
Gleymdur land-
námsmaður
í Fljótum?
TEXTI
Hjalti Pálsson
Fyrirliggjandi heimildir um
landnám í Fljótum vekja
óneitanlega spurningar varðandi
landnám Nafar-Helga. Hvers vegna bjó hann á Grindli en
ekki á Barði, langsamlega bestu jörð í hans landnámi?
Hvers vegna verður Barð jafn ótrúlega landmikil og
kostamörg jörð, án þess að vera landnámsjörð, liggjandi
að landnámsbýli Nafar-Helga? Af hverju sitja afkomendur
Nafar-Helga ekki Barð, svo séð verði? Hvernig má vera að
landnám Nafar-Helga er mikið stærra og hefur margvísleg
gæði umfram landnám Þórðar knapps, sem þó er sagður
koma honum samskipa í Fljót. Til að fá skýrari mynd af
þessu er rétt að meta þær takmörkuðu vísbendingar
sem ritaðar heimildir gefa.
Nánar um Barð
Fremst í Flókadal heitir Barðs-
reitur og þar átti Barð selstöðu.
Svo mikið var þar umleikis á
sumrum, að þangað skyldi
aðstoðarpresturinn á Barði fara
og embætta. Um þetta segir
í fornbréfi árið 1483: ,,Þar er
djákns skyld og skal fara í millum
sels og húsa.“ Því má gera ráð
fyrir að djákni frá Barði hafi haft
embættisskyldu að húsvitja á
selinu.
Barð hefur því sannarlega átt
land bæði innst og yst í Flókadal
austanverðum, auk þess jörðin
á ennþá land í Brunnárdal sem
er samhliða hálfum Flókadal.
Getur þetta bent til að Barð hafi
í upphafi átt allan dalinn austan
árinnar?
Barð er án nokkurs vafa
annað dýrasta, landmesta og
veglegasta býli í öllum Fljótum.
Einungis Hraun komast þar í
samjöfnuð. Með hjáleigum þeim
sem vitað er að byggðust út úr
Barði er hún margfalt stærri jörð
en Grindill, þar sem Nafar-Helgi
er sagður hafa kosið að búa. Það
vekur óneitanlega spurningar af
hverju hann setur ekki bú sitt á
Barði, hafi það verið í landnámi
hans? Á Barði eru heitar laugar,
æðarvarp, mikil veiðihlunnindi
í Flókadalsvatni, Hópsvatni,
Flókadalsá og gott skipalægi í
Haganesvík og Hópsvatni.
Ýmislegt bendir til að Barð og
Flókadalur austan ár hafi verið
sérstakt og þá væntanlega eldra
landnám sem hreinlega hafi
gleymst að nefna í Landnámu.
Það er ekki fráleitt í ljósi þess
að Landnámuhöfundur hefur
ekki haft góðar heimildir úr
Skagafirði. Þar eru margar
misfellur í afmörkun landnáma.
Þegar dregin er lína á merkjum
Grindils og Barðs (Karlsstaða) til
fjallsbrúna, inn með núverandi
merkjum Barðs á vatnaskilum,
áfram inn fjallgarðinn til botns
Flókadals, verður til áhugaverð
mynd. Landnám Hrafna-
Flóka vestan árinnar og hið
,,gleymda landnám“ í Flókadal
austanverðum eru mjög álíka
að stærð. Landnám Nafar-Helga
verður í eðlilegra hlutfalli við
landnám félaga hans, Þórðar
knapps.
Í Árbók hins íslenska Forn-
leifafélags 1927 ritaði Margeir
Jónsson grein um landnám í
Skagafirði og bendi þar á að
mörk landnáma Nafar-Helga
og Þórðar knapps séu trúlega
ekki rétt tilgreind. Líklegra sé að
þau mörk hafi verið við Skeiðsá
fremur en Tunguá. Þá hefðu mörk
landnáms Þórðar legið yfir dalinn
neðan Stífluhólanna, sem virðist
liggja beinna við.
Þáttur
Þorvaldar Refssonar
Í Víga-Glúms sögu segir frá
Þorvaldi Refssyni sem bjó á
Barði. Þuríður kona hans var
stórættuð, dóttir Höfða-Þórðar
landnámsmanns. Börn þeirra
voru Klaufi og Þorgerður er átti
Þórarin á Espihóli.
Í annarri kynslóð landnema
Íslands er dóttir landnámsmanns
á Höfðaströnd, orðin húsfreyja
á Barði, (ekki gift sonum Nafar-
Helga, heldur bóndasyni á
Barði). Freistandi er að draga
þá ályktun að eðlilegt hefði talist
að hún giftist í sömu stétt, sem
sagt syni landnámsmanns. Til
dæmis giftist Úlfhildur, dóttir
Nafar-Helga, Arnóri Skefilssyni
í Gönguskarði, væntanlega
syni Skefils landnámsmanns.
Þorgerður systir hennar giftist
Geirmundi syni Sæmundar
suðureyska landnámsmanns.
Um ættir Þorvaldar Refssonar
er einungis vitað að hann
var sonur Refs á Barði. Systir
Þorvaldar var Þuríður (samnefnd
konu hans) sem giftist Birni syni
Höfða-Þórðar landnámsmanns.
Því má við bæta að Gró föðursystir
Þuríðar bjó gengt Barði, handan
Flókadalsár, á Mói og var kona
Flóka landnámsmanns.
Annað er ekki kunnugt um
Ref á Barði en hann mægðist
við ættgöfugustu og virtustu
landnámshjón í sínu nábýli. Gæti
Refur hafa verið hinn gleymdi
landnámsmaður á Barði?
Fornbýli í landi Barðs
Samkvæmt ábendingu bóndans
á Minni-Reykjum uppgötvaðist
sumarið 2017 forn skálatóft
(66°02‘565/19°08‘200), ásamt
nokkrum nærliggjandi smátóftum
á strönd Flókadalsvatns vestan
undir Akraásnum, um það bil
sem strönd vatnsins byrjar stefn-
una beint til norðurs. Þann 17.
júlí 2017 var gerð athugun á
þessum stað. Staðfesting fékkst
þá á skála, um 21x7-8 m að
utanmáli, rétt við gamlar og skýr-
ar götur sem vitna um fyrrum
alfaraleið meðfram vatninu til
Reykjabæjanna og áfram inn
í Flókadalinn. Greinileg merki
voru um mannvist í tóftinni,
gólflag og viðarkolaleifar víða.
Hvergi fundust öskulög í eða
við skálatóftina, nema í aðfluttu
torfi í veggjum einhverrar bygg-
ingar sem virtist áföst norðan
við sjálfan skálann. Þar fannst
öskulagið frá 1104 í veggjatorfi
sem sýnir að hún hafði verið
hlaðin eftir 1104. Að öðru leyti
tókst ekki að aldursgreina tóftina
en ljóst að hún er mjög gömul.
Útgangsdyr eru til vesturs og
þar framan við brött brekka
niður að vatninu. Djúpar tóftir
smáhýsa voru á a.m.k. þremur
stöðum skammt frá, samanber
meðfylgjandi ljósmynd. Þær hafa
mikil líkindi til jarðhýsa sem tíðk-
uðust í upphafi landnámsins.
Auk þess minjar um túngarð.
Lækjarsytra finnst enn í gildragi
um 40 m norðan við tóftina. Auk
þess er smátóft austan og ofan
við lyngbrekku í 80 metra fjarlægð
(66°02‘565/19°08‘085).
Engar heimildir eru um bæ á
þessum stað og þar af leiðandi
ekkert nafn við að styðjast. En
ljóst er að þarna hefur verið
mannabústaður um eitthvert
skeið, trúlega þó ekki mjög lengi.
Þótt ýmsar vísbendingar séu um
að aðaltóftin og smátóftirnar
séu frá landnámsöld verður
það ekki fullyrt án frekari forn-
leifarannsókna og algjört blind-
skot að ætla þetta bústað meints
landnámsmanns á Barði.
Heimildir:
Landnámabók: Íslensk fornrit I,
bls. 242-244.
Víga-Glúms saga: Íslensk fornrit IX,
bls. 35-36.
Fornbréfasafn VI bindi bls. 489.
Árbók Hins íslenska fornleifafélags
1927, bls. 26.
Hjalti Pálsson frá Hofi
Loftmynd frá 20. júlí 2017 af umhverfi fornbýlis á strönd Flókadalsvatns vestan undir Akraásnum. Nánar um þetta í 8. bindi
Byggðasögunnar. MYND: BYGGÐASAGA SKAGAFJARÐAR