Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 9
læknisfræði“ (Læknablaðið – Fréttabréf lækna 1987) og „Orð og íðorð“
(Málfregnir 1992).7
Magnús heillaðist snemma af gotnesku. Hann hefur líklega kynnst
henni í námskeiðum um forngermönsk mál og germanska samanburðar-
málfræði, auk þess sem gotneska var skyldugrein á BA-stigi á þessum
árum. Magnús lauk cand.mag.-prófi vorið 1982 og lokaritgerð hans
fjallaði um u-stofna lýsingarorða í germönskum málum. Þar hefur hann
væntanlega fyrst og fremst fjallað um gotnesku. Og þessi gotneskuáhugi
skilaði árangri svo um munaði. Árið 1998 kom út fyrsta útgáfan af got-
neska orðstöðulyklinum, A Concordance to Biblical Gothic (Málvísinda -
stofnun Háskóla Íslands), verk á sjöunda hundrað blaðsíður sem hefur
verið endurprentað tvisvar sinnum. Áður hafði Magnús talað og birt
greinar um efnið, fyrst 1996 hér heima. En fyrsta grein hans um gotnesku
er „On Gothic wu-adjectives“ sem birtist í Historische Sprachforschung
1993. Svo komu greinarnar hver af annarri á ýmsum erlendum vettvangi,
t.d. „One Marginal Gloss Becomes Two“ (General Linguistics 1994),
„Gothic kaurus* ‘heavy’ and its Cognates in Old Norse“ (NOWELE
2002), „Gothic weinuls or weinnas?“ (Historische Sprachforschung 2004),
„Ostgermanische Morphologie“ (Chatreššar 2009), „Gothic Contact with
Greek: Loan Translations and a Translation Problem“ og „Gothic Contact
with Latin: Gotica Parisina and a Wulfila’s Alphabet“ (báðar greinarnar í
bókinni Early Germanic Languages in Contact 2015), „Gothic banja*,
winja and sunja“ (Studia Linguistica Universitatis Iagellonicae Cracoviensis
2016). Fyrirlestrar, þ.á m. boðsfyrirlestrar, eru fjölmargir og margir þeirra
urðu svo að greinum. Þar má nefna „The Phonology and Mophology of
Foreign Words in Gothic Revisited“ sem var fluttur á ráðstefnunni The
Goths Revisited (2016) og er nú orðinn að grein í sérhefti af NOWELE
(2017), hefti sem er helgað minningu Magnúsar. Allt er þetta glæsilegur
vitnisburður um hæfni Magnúsar og atorku. Og fyrir framlag sitt til got-
nesku naut hann alþjóðlegrar viðurkenningar.
Þegar ég lít yfir verk Magnúsar finnst mér einkenna þau glíman við
orðið. Hann veltir fyrir sér uppruna orða, gerð þeirra, merkingu og beyg-
ingu og því hve langt orðið megi verða. Allt setur hann þetta í samhengi,
rekur saman gotnesk og íslensk orð og skoðar grísk og latnesk tökuorð í
gotnesku. Hann er líka orðasmiður, eins og áður var nefnt. Kannski hófst
Magnús Snædal 9
7 Allar upplýsingar um greinar Magnúsar og fyrirlestra eru á heimasíðu hans, sjá
https://uni.hi.is/hreinn/ritaskra.