Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Qupperneq 175
mál og vont í því samhengi. Þannig að ákveðið málafbrigði sé gott mál við ákveðn -
ar aðstæður en ekki við aðrar. Hvað varðar frumlag sagnarinnar hlakka til er ekki
spurning að tilbrigði ættu að vera leyfileg, þannig að ég hlakka/mig hlakkar/mér
hlakkar til væru öll talin rétt svör og ekki leiðrétt á prófum eða í ritgerðum. Það
er þó ekki í höndum skólanna sjálfra að tala slíka ákvörðun heldur einna helst
Menntamálastofnunar, stofnunarinnar sem semur samræmdu prófin. Vegna þess
að á meðan sú stefna er í gangi þar að líta á ég hlakka til sem það eina rétta er skól-
um ekki stætt á því að kenna neitt annað. Aðalmálið er því að hafa áhrif á
Mennta málastofnun. Þeir sem gætu það eru Íslensk málnefnd, Stofnun Árna
Magn ússonar í íslenskum fræðum og Íslenskudeild Háskóla Íslands. Hugsanleg
einhverjir fleiri.
Spurning 1d
Auðvitað vonar maður að fyrirfram mótuð sannfæring afvegaleiði mann ekki í
rannsóknarvinnunni. Hins vegar getur rannsakandi aldrei verið alveg hlutlægur
því að rannsókn sprettur aldrei úr tómarúmi, hann hefur ákveðnar hugmyndir,
misljósar, sem hann reynir að staðfesta. Ég tel mig hafa rökstutt mál mitt með
sannfærandi hætti, meðal annars í þeirri staðreynd að kennarar, og þá nemendur,
eiga í miklum erfiðleikum með að skilja á milli þess þegar verið er að kenna mál
(forskrift) og kenna um mál (lýsing) þannig að það að kenna mál verður ávallt
alltumlykjandi og í forgrunni þó að í framkvæmd sé oft aðeins verið að kenna um
mál. Ég er í raun að kalla eftir slíkum aðskilnaði í kennslu því að eins og kom
fram í kafla 2 í ritgerðinni er ekki hægt að komast hjá forskrift á meðan við
höfum staðlað tungumál, en það er hins vegar líka mikilvægt að kenna um mál,
eðli þess og upptök, og það á að gera án tengsla við forskriftina, nema þá sem
umfjöllun um forskrift sem eina útgáfu tungumálsins.
Spurning 2a
Forskriftarmálfræðin horfir fram hjá því að það liggur í eðli tungumála að breyt -
ast og þar af leiðandi eru tilbrigði eðlilegur hluti af mannlegu máli. Þess vegna
koma nemendur inn í skólann með aðeins öðruvísi málkerfi eða innri málfræði
en fyrri kynslóðir. Skólarnir geta ekki horft fram hjá þessu, þá eru þeir að láta
eins og mál nemendanna skipti ekki máli og það má ekki senda nemendum þau
skilaboð að þeir kunni ekki móðurmálið. Það liggur því beinast við að þau mál-
vísindi sem koma helst inn á þessi atriði séu sett í forgrunn, þ.e. málkunnáttu -
fræðin, sem meðal annars fjallar um hvernig við tileinkum okkur tungumálið, og
félagsleg málvísindi sem fjalla um tilbrigði í máli, stöðu og útbreiðslu máltilbrigða
í málsamfélaginu, þar á meðal í skólum. Þess vegna var það talið borðleggjandi að
nota þessi kenningakerfi við rannsóknina, þ.e. málkunnáttufræði og félagsleg
málvísindi.
Svör við andmælum Þórunnar Blöndal 175