Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2019, Blaðsíða 25

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2019, Blaðsíða 25
25LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2019 N E M AV E R K E F N I Umræðan í sambandi við ljósmóðurfræði í dag snýst gjarnan um að það sé búið að tæknivæða fæðingar, að spítalaumhverfið kalli á inngrip, að við leitum að vandamálum og færumst sífellt fjær því náttúrulega. Ég sé gamla og einfaldari tíma fyrir mér í hyllingum þar sem konur lærðu af hvor annarri, höfðu trú á sér og áttu börnin sín heima í friði með ljósmóðurina hjá sér. Þess vegna stóð ég í þeirri trú að 70 ára gömul saga af heimafæðingu ömmu minnar, Katrínar Sigurðardóttur, væri dæmi um hina náttúrulegu, hráu og inngripalausu fæðingu. Þetta endurspeglar kannski hve illa ég er að mér í sagnfræði en mér brá svolítið þegar ég heyrði fæðingasögur ömmu minnar, sem er 98 ára gömul í dag, af því að þær reyndust svo gríðarlega ólíkar því sem ég hafði ímyndað mér. Amma mín er eins og við er að búast af gamla skólanum og talar kannski ekki um hvað sem er við hvern sem er. Því grunar mig að henni hafi fundist svolítið erfitt að opna á svona persónu- leg mál, en þegar hún byrjar að segja frá kemst hún á flug. Hún rifjar upp hvert einasta smáatriði af mikilli nákvæmni, eins og henni einni er lagið, þannig að ég fæ góða tilfinningu fyrir sögusviðinu. Árið er 1948 og amma mín er 27 ára gömul og gengur með sitt fyrsta barn. Hún hafði gifst afa mínum árið áður og þau hafið búskap í Vest- urbæ Reykjavíkur, svo allt var þetta samkvæmt áætlun. Hún var hraust á meðgöngunni og telur sig mjög heppna með það. Hún rifjar upp eina skiptið sem hún fann fyrir ógleði en þá kastaði hún upp í bíltúr með vinafólki eftir að hafa borðað saltkjöt og baunir. Í kjölfarið komst upp um þungunina og var það í fyrsta sinn sem þau hjónin sögðu frá frétt- unum. Hún talar um að á þessum tíma hafi konur ekki endilega reynt að fela óléttuna en það þótti æskilegt að klæða sig „við hæfi“ og láta ekki of mikið bera á ástandinu. Hún nefnir að þá hefðu konur ekki farið í þröng föt á meðgöngu. Amma rifjar upp gamlársdag þetta ár, en þá voru tvær vikur í fæðinguna. Hún var á fjórum fótum að bóna gólfið á heimilinu þegar afi kom heim, bað hana um að standa upp og býsnaðist yfir því að hún væri að vinna slíkt erfiðisverk svona á sig komin. Hann bætti því við að hann skyldi klára verkið sem henni þótti mjög undar- legt og tekur fram að hann hafði aldrei sinnt neinum heimilisverkum á þeirra heimili fyrr, enda tíðkaðist það ekki í þá daga. Hún lýsir því þegar afi fór fljótlega að kvarta yfir því hvað þetta var mikið púl og að hann hefði ekki áttað sig á því í hverju hún stæði á heimilinu. Amma hefur virkilega gaman af því að rifja þetta upp og hlær. Hún sagðist hafa fylgst glottandi með því þegar hann kláraði verkið kófsveittur. Aðspurð segist amma ekki hafa fengið neitt eftirlit eða farið í reglu- bundnar skoðanir á meðgöngunni. Hún fæddi barnið heima og hitti ljósmóðurina sína einu sinni eða tvisvar fyrir fæðinguna. Þá hafi ljós- móðirin komið í heimsókn, skoðað hana og spjallað. Hún lýsti ljósmóð- urinni sem afar hlýrri og góðri konu sem var stór og vel í holdum. Hún sagðist einnig hafa fundið hvað hún var klár á sínu og örugg og að hún hafi alltaf upplifað sig afar örugga hjá henni. Sú kona var fjölskyldu- kona sjálf og keyrði um á bíl til að sinna konum í Reykjavík. Í þessum heimsóknum fyrir fæðinguna hafði ljósmóðirin spurt hvernig hún hafði hugsað sér fæðinguna og talar þá um svæfingu eða að vera „svæfð létt“. Það var nokkuð sem móðirin ákvað að yrði gert, að þannig hafi þetta verið gert í þá daga. Systir hennar hafi verið byrjuð að eiga börn á þessum tíma og var alltaf svæfð. Móðir hennar, langamma mín, hafði hins vegar átt öll sín börn heima og án svæfingar, hún hafi aldrei getað hugsað sér annað. Þegar ég spyr hvort henni hafi fundist hún nógu vel undirbúin og hvort hún hafi vitað nægilega vel við hverju var að búast varðandi fæðinguna og barnið segir hún það hafa verið í lagi. Hún hafi fylgst með hvernig hlutirnir gengu fyrir sig hjá móður sinni og systur. Pabbi minn fæddist svo 14. janúar 1949. Dagurinn byrjaði á því að rafvirki sem hafði margsinnis svikið þau hjónin um verk sem hann ætlaði að vinna bankaði uppá snemma morguns. Þegar amma ætlaði fram úr til að klæða sig fór legvatn að leka en hún var ekki byrjuð að fá verki. Hringt var í ljósmóðurina sem sagðist koma snöggvast, en að amma ætti að leggjast upp í rúm og fara helst ekki fram úr. Ljósmóðirin kom og skoðaði hana en fór svo og kom ekki aftur fyrr en seinnipartinn. Þá var þetta farið að „ganga hratt“ og kallaður var til læknir vegna svæfingarinnar. Hún lýsir því þannig að það síðasta sem hún man var að læknirinn settist hjá henni á rúmið og lagði klút að vitum hennar. Það næsta sem hún man er að drengurinn var fæddur. Þegar ég spyr nánar út í þetta og hvort hún hafi ekki verið byrjuð að remb- ast á þeim tímapunkti játar hún því að það hafi verið byrjað og lýsir því hvernig ljósmóðirin leiðbeindi henni um hvernig væri best að anda og bera sig hverju sinni. Einnig rifjar hún upp að ljósmóðirin hafi verið byrjuð að þrýsta á bumbuna utan frá og að einhver hafi hálfpartinn hallað sér ofan á hana og sett þannig þunga á kviðinn. Þegar ég spyr hvort það hafi aldrei komið til greina að klára fæðinguna án svæfingar neitar hún því. Þetta var eitthvað sem var búið að ákveða. Hún lýsir því að afi hafi beðið frammi á meðan eins og tíðkaðist og að móðir hennar hafi þá verið komin til að laga handa honum mat. Hún bætir því við hvað hún var fegin að þetta hafi allt gengið svona óskaplega vel, sérstaklega miðað við fyrsta barn. Hún talar um að henni hafi liðið líkamlega vel á eftir en að hún hafi verið látin liggja fyrir í um viku tíma og mátti ekki einu sinni fara fram úr á klósett. Ljósmóðirin kom tvisvar á dag til að byrja með og síðan daglega til að skoða ömmu, baða barnið og fleira. Þegar spurt er út í brjóstagjöf segir hún það ekki hafa komið til greina hjá sér. Hún hafi glímt við lungnavanda á yngri árum og þegar hún ráðfærði sig við sinn lækni um þessi mál hafi hann talað um að þetta mundi líklega reyna of mikið á hana og því væri best að sleppa því. Hún talar um að ljósmóðirin hafi vafið brjóstin þétt, svo ekki kæmi mjólk, og hún minnist þess ekki að þetta hafi valdið verkjum eða óþægindum. Hún lýsir því að daginn eftir fæðinguna hafi byrjað að kyngja niður snjó sem gerði ljósmóðurinni erfitt fyrir. Hún hafi þó komist leiðar sinnar en þurfti að skilja bílinn eftir á ákveðnum stað og ganga afganginn. Ljósmóðirin hafði daginn áður tekið á móti barni upp við Elliðaár og einn daginn ekki komist akandi til móðurinnar vegna ófærðar. Amma rifjar upp þegar ljósmóðirin fékk að hringja hjá þeim til konunnar og talaði lengi við hana. Þau heyrðu allt sem hún sagði en í símtalinu var hún að spyrja hina nýbökuðu móður við Elliðaárnar um ýmislegt og leiðbeina henni. Átta árum síðar, árið 1957, eignuðust amma og afi annan dreng. Hann fæddist á Fæðingardeild Landspítala en amma segir mér að þá hafi konur í kringum hana allar farið þangað að fæða og það hafi legið beint við að hún fæddi barnið þar. Þá var komin mæðravernd á Heilsu- verndarstöðina við Austurbæjarskóla og þangað mætti hún reglulega. Amma var líka hraust á þessari meðgöngu og allt kom vel út. Hún lýsir aðstæðum heima þannig að á efri hæðinni hafi verið mikið um gleð- skap og oft hafi hún ekki náð að sofna fyrr en undir morgun vegna hávaða. Hún hafi því farið örmagna inn í fæðinguna. Þegar verkirnir byrjuðu seinnipartinn 28. ágúst keyrði afi hana uppá spítala og bað hana nú um að reyna að fæða barnið ekki fyrr en eftir miðnætti því FÆÐINGARSÖGUR ÖMMU Sunna María Helgadóttir, 1. árs ljósmæðranemi

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.