Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2019, Blaðsíða 4

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2019, Blaðsíða 4
4 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2019 Ljósmæðrafélag Íslands fagnar á þessu ári 100 ára afmæli. Þessi tímamót hafa gefið ljósmæðrum tilefni og tækifæri til að fara yfir söguna og gleðjast yfir þeim mikla metnaði sem ljósmæður hafa alla tíð haft fyrir hönd stéttar sinnar og þá einstöku alúð sem hefur verið í uppbyggingu og þróun starfsins undanfarna öld. Ljósmæðrablaðið er að þessu sinni tileinkað þessum merku tímamótum félagsins og fjallar meðal annars um þá fjölbreyttu dagskrá sem Ljós- mæðrafélag Íslands hefur boðið upp á það sem af er ári. Ráðstefna Norðurlandasamtaka ljós- mæðra var haldin á Íslandi í ár og af því tilefni fjölmenntu hingað ljósmæður hvaðanæva að úr heiminum. Ráðstefnan þótti einstaklega vel heppnuð hvað varðar skipulag, innihald og alla umgjörð. Fyrsta daginn sameinuðust ljósmæður við hátíð- lega athöfn við Laugaveg 20 þar sem fallegur minnisvarði var lagður í stéttina fyrir framan húsið þar sem Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað fyrir 100 árum. Því næst fylktu ljósmæður liði í Hörpu þar sem ráðstefnan var sett með glæsibrag. Fjölmargar ljósmæður fluttu erindi um rannsóknir sínar og ljósmóðurstörf og bar dagskráin þess merki að vísinda- starf ljósmæðra á Íslandi hefur blómstrað á undanförnum árum. Þetta endurspeglast jafnframt í þeim fjölmörgu vísindagreinum sem ljósmæður hafa birt í erlendum, ritrýndum tímaritum á undanförnu ári. Í blaðinu er að vanda yfirlit yfir birtar greinar og erlent samstarf sem ljósmæður taka þátt í og eru lesendur blaðsins hvattir til að kynna sér efni og niðurstöður greinanna. Tvær ritrýndar greinar eru birtar í þessu tölublaði. Annars vegar grein um getnaðarvarnarráðgjöf eftir Sóleyju S. Bender, sem er mikilvæg ekki síst í ljósi nýrra laga sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2018, um leyfi ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum. Hins vegar er grein um reynslu kvenna af erfiðleikum við brjóstagjöf sem byggir á doktorsritgerð Sunnu Símonardóttur í félagsfræði. Í greininni kemur fram að mæður sem þrátt fyrir að leggja sig allar fram, upplifa fordóma og skort á stuðningi við að hætta með barn á brjósti. Þetta er efni sem eflaust er öllum ljósmæðrum hugleikið og gefst hér færi á að skoða hvernig megi stuðla að bættri líðan þessara mæðra og jafn- framt efla umræðu um brjóstagjafaráðgjöf í samfélaginu. Við hvetjum allar ljósmæður til að sækja sýninguna Við tökum vel á móti þér sem opnuð var þann 5. maí í Þjóðarbókhlöðunni en þar er farið yfir sögu Ljósmæðrafélagsins í máli og myndum. Sýningin dregur skýrt fram þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfsvettvangi ljósmæðra á undanförnum 100 árum. Auðbjörg Brynja, ljósmóðir á landsbyggðinni og fálkaorðuhafi, skrifar einnig í blaðið hugleiðingu um þær breytingar sem hafa orðið á fæðingarhjálp á síðustu árum og minnir okkur á hversu mikil áhrif þessar breytingar hafa haft á almenna barneignar- þjónustu nærri heimabyggð og val kvenna um fæðingarstað. Hún minnir okkur einnig á að með minnkandi þjónustu við barnshafandi konur á lands- byggðinni hafa glatast mikilvæg tækifæri til að efla þekkingu og reynslu ljósmæðra- nema og starfandi ljósmæðra um eðlilegt barneignarferli. Það ætti því að vera öllum ljósmæðrum kappsmál að styrkja þjónustu við barnshafandi konur nærri sinni heima- byggð, og efla þannig bæði fjölskyldurnar sjálfar og auka jafnframt tækifæri til náms og starfsþjálfunar ljósmæðra. Við fáum einnig innsýn í breytingar á fæðingarþjónustu frá því á miðri síðustu öld í áhugaverðu viðtali sem Sunna María, ljós- móðurnemi, tók við ömmu sína. Í pistlinum segir hún frá fæðingarreynslu ömmu sinnar en til gamans má geta að amma Sunnu er nærri jafngömul Ljósmæðrafélaginu. Fyrsta barnið sitt fæddi hún í heimahúsi árið 1949 og átta árum síðar fæddi hún annað barnið sitt á Kvennadeild Landspítalans sem hafði opnað í sama mánuði. Breytingar hafa einnig orðið á samsetningu þjóðarinnar á undanförnum árum og er umfjöllun í blaðinu um Heilbrigðis- spjall sem Edythe, ljósmóðir í Reykjavík, hefur sett á laggirnar fyrir barnshafandi konur af erlendum uppruna sem eru búsettar hér á landi. Þar hefur hún gefið barnshafandi konum tækifæri til að fræðast um skipulag heilbrigðiskerfisins, réttindi til þjón- ustu, hugmyndafræði ljósmæðra og fleira. Heilbrigðisspjallið er tvímælalaust mikilvæg viðbót í þá þjónustu sem við bjóðum okkar skjólstæðingum upp á. Mikil samkeppni er um styrki til rannsókna á Íslandi. Í blað- inu er umfjöllun um veglega rannsóknarstyrki sem íslenskar ljósmæður fengu á árinu til þess að stunda meistara- og dokt- orsnám á fullum styrk og greiða auk þess fyrir ýmis rannsóknar- tengd gjöld svo sem ráðstefnuferðir og kostnað við birtingar í ritrýndum tímaritum. Styrkirnir eru mjög mikilvægt skref í fram- þróun menntunar og rannsókna í ljósmóðurfræði á Íslandi. Með umfjöllun um nýjustu rannsóknarniðurstöður og styrki til áfram- haldandi rannsókna leggur Ljósmæðrablaðið því einnig áherslu á framtíðina og má ætla að við getum horft stórhuga til framtíðar um leið og við fögnum merkum tímamótum í sögu Ljósmæðra- félags Íslands. Þegar litið er yfir farinn veg er ljóst að ljósmæðrum hefur alltaf verið umhugað um að sinna sínum skjólstæðingum af alúð og þekkingu hvers tíma. Þannig hafa þær staðið með fjölskyldum í gegnum gleði og sorg, staðið vörð um réttindi sinna skjólstæðinga og byggt hér upp þekkingu og reynslu sem horft er til hvarvetna í heiminum sem hið gullna markmið í barneignarþjónustu. En síðast en ekki síst hafa ljósmæður staðið saman sem heild þegar á hefur reynt og þannig byggt upp sterkt félag sem staðist hefur tímans tönn í heila öld. Því fögnum við í ár meðal annars með þessu Ljósmæðrablaði sem við vonumst til að ljósmæður hafi bæði gagn og gaman af. LITIÐ UM ÖXL OG HORFT FRAM Á VEG R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L Emma er ljósmóðir í Björkinni og lektor við Háskóla Íslands

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.