Ljósmæðrablaðið - ágú. 2019, Blaðsíða 39
39LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2019
NAUÐSYNLEGT NÚ SEM ALDREI FYRR
AÐ VERJA BARNEIGNARÞJÓNUSTU
Í LANDINU ÖLLU
H U G L E I Ð I N G L J Ó S M Ó Ð U R
Mér hefur alltaf þótt vænt um og fundist það
vera forréttindi að tilheyra stétt ljósmæðra. Það
hefur komið sér afskaplega vel í starfi mínu sem
hjúkrunarfræðingur og finnst mér það án efa
vera styrkur minn starfandi í héraði á Suðurlandi
að búa yfir þekkingu sem ljósmóðir. Því starfi
fylgir ákveðin seigla og þrautseigja sem hefur
óneitanlega oft komið sér vel á ögurstundu.
Fæðingarþjónustan hefur gengið í gegnum
miklar breytingar. Fyrr á öldum fóru fæðingar
fram í heimahúsum þar til þær fluttust nær
alfarið á sjúkrahús á seinni hluta 20. aldarinnar.
Talað hefur verið um að í kjölfarið hafi eðlileg
fæðing verið sjúkdómsvædd og þá ekki lengur
litið á fæðingu sem eðlilegan atburð í kjölfar
meðgöngu. Vissulega er meðganga og fæðing
bæði líkamleg og andleg áskorun en er einnig
í huga flestra kvenna ánægjulegur tími sem
stuðlar að vellíðan og hamingju. Hér á landi
þiggja nær allar konur mæðravernd og gefur það
sterka vísbendingu um hversu mikilvæg hún er í
huga barnshafandi kvenna og fagfólks.
Það er kannski ákveðinn lífsstíll, jafnvel forréttindi, að geta unnið
og starfað á heilsugæslu í dreifbýli. Í starfinu felst meðal annars að
vera til staðar, ýmist við gleði- eða sorgarstundir skjólstæðinga, sem
er í senn gefandi og krefjandi. Einnig þarf að sinna skjólstæðingum
heima fyrir þar sem ekki allir komast á heilsugæsluna, hvað þá farið
lengra eftir þjónustu. Í dreifbýlli sveit er bið eftir fyrstu hjálp alltaf
löng og sérhæfð viðbrögð eru í höndum fárra aðila. Fjölþætt menntun
mín er því mikill styrkur í aðstæðum sem þessum og ég hugsa alltaf til
uppeldisins í ljósmóðurfræðinni, að sýna yfirvegun og styrk.
Í starfi mínu sem ljósmóðir við meðgönguvernd á landsbyggðinni,
á Klaustri, Höfn og í Vík hef ég óneitanlega orðið vör við óánægju-
raddir verðandi mæðra þegar kemur að því að yfirgefa byggðar-
lagið vegna fæðingar og er ég nokkuð viss um að fleiri hafi svipaða
sögu að segja. Á þeim stöðum sem ég hef sinnt meðgönguvernd er
aksturstími á sjúkrahús allt frá 2 til 5 klst., en frá Höfn eru 270 km
á næsta fæðingarstað sem er Neskaupsstaður og yfir marga fjallvegi
að fara. Á Selfoss eru hins vegar rúmlega 400 km. Það veit það
enginn fyrr en hann reynir hvernig það er að þurfa að fara um langan
veg og vera fjarri fjölskyldu sinni og jafnvel maka þegar kemur að
barnsfæðingu, sem ætti að vera atburður sem öll fjölskyldan upplifir
saman eða í nálægð. Í fórum mínum á ég ótal sögur þar sem barns-
hafandi konur hafa verið sendar í allskyns veðrum á Landspítalann
í Reykjavík og þegar allt kom til alls var ferðin jafnvel af tilefnis-
lausu. Engin ljósmóðir á staðnum og jafnvel óvanur læknir í héraði
en þannig getur skortur á þekkingu og reynslu á því hvernig eigi að
bregðast við skapað ógnvekjandi aðstæður fyrir konu og barn.
Fækkun fæðingarstaða hefur að mínu mati oftar en ekki neikvæð
áhrif, sér í lagi í dreifðari byggðum landsins. Konur og fjölskyldur
þeirra þurfa að ferðast um langan veg til að fæða barn sitt og dvelja
dögum, jafnvel svo vikum skiptir frá heimili og fjölskyldu. Þetta
hefur í senn félagsleg og fjárhagsleg vandamál í för með sér og
það verður að horfast í augu við að við þessar aðstæður er vanlíðan
vegna streitu algeng.
En það er ekki bara fjölskyldan sem situr uppi með takmarkað val
af fæðingarstöðum. Ljósmóðirin og aðrir heil-
brigðisstarfsmenn í litla byggðarlaginu standa
stundum frammi fyrir því að e.t.v. fer konan
ekki af svæðinu vegna aðstæðna heima fyrir og
þá geta góð ráð verið dýr. Ég hef í nokkur skipti
þurft að bregðast við og taka á móti barni við
aðstæður sem hefðu getað verið heppilegri fyrir
alla.
Hvernig fæðingarþjónustan er og hvar hún
er í boði á landinu skiptir miklu máli fyrir
konur og fjölskyldur þeirra og það er mikil-
vægt að ljósmæður séu málsvarar kvenna
þegar kemur að því að verja barneignar-
þjónustu í landinu, barneignarþjónustu sem
á að vera byggð á faglegum grunni og vera
hagkvæm og örugg.
Hér á landi hefur fæðingarstöðum og
sjúkrahúsum fækkað jafnt og þétt frá árinu
2000 og eru þar ráðandi fjárhagsleg sjónarmið
frekar en heildarhagsmunir. Í gegnum tíðina
hefur mikið verið skrifað og deilt um hvar sé
best og öruggast fyrir konu að fæða barn sitt.
Allar rannsóknir sýna að samfella í þjónustu alla meðgönguna
tryggi best öryggi móður og barns. Ljósmæður og annað heilbrigð-
isstarfsfólk sem vinna við fæðingarferlið vita að það veður að ríkja
fullkomið traust við fæðinguna en eins og staðan er í dag er þess
krafist af barnshafandi konum sem fara um langan veg til að fæða
að þær treysti heilbrigðisstarfsfólki sem þær hafa aldrei hitt áður
og þekkja ekki.
Fæðingar sem eiga sér stað á leið á fæðingarstað eru orðnar mun
algengari en áður, þ.e. fæðingar þar sem konur fæða við óheppi-
legar og jafnvel vondar aðstæður, s.s. í sjúkrabíl eða í einka-
bíl á leið á sjúkrahús. Maki upplifir mikla streitu að aka langar
vegalengdir, hefur jafnvel áhyggjur af því að þurfa að taka á móti
barni sjálfur. Séu börn fyrir á heimilinu þarf að koma þeim fyrir
um lengri eða skemmri tíma ef fjölskyldunni gefst ekki kostur á
að dvelja í húsnæði nálægt fæðingarstað. Kostnaður við að flytj-
ast búferlum tímabundið vegna fæðingar er mikill, fyrir utan
húsnæðis- og ferðakostnað, þarf að taka frí frá vinnu og skóla.
Hugmyndafræði og stefna Ljósmæðrafélags Íslands er að
barneignarferlið sé lífeðlislegt ferli sem ekki eigi að trufla með
inngripum og tækni nema nauðsyn beri til. Ljósmæður eru lykil-
stétt í umönnun kvenna í barneignarferli og mikilvægt að virða og
hafa í huga þau áhrif sem þær geta haft á á þessu viðkvæma tímabili
sem meðganga og fæðing er. Það er mikilvægt að ljósmæður nýti
sér það einstaka tækifæri sem þær fá með konum í barneignarferl-
inu til að aðstoða þær á þann hátt að þær eflist sem mest. Fækkun
og lokun fæðingarstaða er mikið áhyggjuefni í víðu samhengi, í
raun ógn við barneignarferlið í heild sinni. Reynsla heilbrigðisfag-
fólks kemur ekki nema með starfsþjálfun og þegar hún er ekki til
staðar þá glatast þekking af svæðinu sem bitnar alltaf á gæðum
þjónustunnar og þar með skjólstæðingnum sem þarf hana.
Nauðsynlegt er nú sem aldrei fyrr að ljósmæður séu meðvitaðar
um hver þróunin er og leggi enn frekari áherslu á fæðinguna sem
eðlilegt ferli og á rétt kvenna og fjölskyldna þeirra til að fá viðeig-
andi barneignarþjónustu sem næst heimabyggð.
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir,
ljósmóðir, hjúkrunarstjóri
á Kirkjubæjarklaustri