Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2019, Blaðsíða 31

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2019, Blaðsíða 31
31LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2019 fyrir augum að skoða sérstaklega reynslu þeirra kvenna sem eru útilok- aðar frá þessari orðræðu um hina „góðu“ mjólkandi móður. Tilgangur rannsóknar var því að varpa ljósi á upplifun þeirra sem gátu ekki verið með börn sín á brjósti, eða áttu í miklum erfiðleikum með brjóstagjöf með það fyrir augum að skilja betur reynsluheim þeirra, samskipti við heilbrigðisstarfsfólk og þær afleiðingar sem reynslan hafði á sjálfs- mynd þeirra sem mæðra. FRÆÐILEGUR BAKGRUNNUR Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO/Breastfeeding) mælir með að börn séu eingöngu á brjósti í sex mánuði og með annarri fæðu til tveggja ára aldurs eða lengur. Þessi stefna hefur verið innleidd á Íslandi og tölur frá 2012 yfir hlutfall barna á brjósti sýna að 98% barna voru á brjósti þegar þau voru eins vikna gömul og 86% voru eingöngu á brjósti á þeim aldri (Embætti Landlæknis, 2012). Brjóstagjöf er einnig algeng hjá þriggja mánaða gömlum börnum en 86% þeirra voru á brjósti og 67% eingöngu á brjósti (Embætti Landlæknis, 2012). Líkt og á hinum Norðurlöndunum þá hefja næstum allar íslenskar mæður brjóstagjöf og hátt hlutfall brjóstagjafar bendir til þess að sú hugmynd að mæður vilji hafa börn sín á brjósti sé menningarlega mjög sterk hér á landi. Til samanburðar má skoða tölur frá Bretlandi en þar eru 69% eins vikna gamalla barna á brjósti og 46% barna voru eingöngu á brjósti (Infant feeding survey, 2010). Það er því ljóst að hlutfall barna á brjósti, fyrstu vikurnar a.m.k, er hátt á Íslandi og hugmyndin um að allar mæður geti undir öllum kringumstæðum brjóstfætt börn sín án vandkvæða, eins lengi og þær sjálfar vilja, er mjög sterk innan heil- brigðiskerfisins og mæður eru hvattar til þess að gefast ekki upp þó illa gangi (Símonardóttir, 2016). Hin ríkjandi orðræða um að brjóstið sé best (e. breast is best) er þó alls ekki einskorðuð við Ísland eða hin Norðurlöndin. Rannsóknir frá Kanada, Bretlandi, Ástralíu og öðrum löndum hafa sýnt fram á hvernig sú orðræða og hin mikla áhersla sem lögð er á farsæla brjóstagjöf getur valdið skömm, sektarkennd og upplifun um að hafa brugðist hjá mæðrum sem gefa börnum sínum þurrmjólk (Kukla, 2006; Lee, 2007; Taylor og Wallace, 2012). Þetta á sérstaklega við um þær konur sem vildu hafa börn sín á brjósti, en gátu það ekki. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á hvernig bæði heilbrigðisstarfsfólk og mæður verða fyrir áhrifum af ráðandi orðræðum um brjóstagjöf og hinum sterku tengslum sem þær hafa við hugmyndir okkar um móðurhlutverkið og hvað felst í því að vera álitin ,,góð“ móðir (Andrews og Knaak, 2013; Larsen, Hall og Aagaard, 2008; Murphy, 2003). Hið kenningarlega sjónarhorn sem stuðst er við í þessari rannsókn byggir á póst-strúktúralisma og femínisma, þar sem litið er til þess hvernig tungumálið bæði viðheldur og endurspeglar þær forskriftir sem félagslegar formgerðir og valdatengsl byggja á. Orðræður um móður- hlutverkið í vestrænum samfélögum byggja á eðlishyggju um að konur búi yfir móðureðli sem geri þær hæfari en feður til að annast um börn og sýna umhyggju og ástúð. Femínistar hafa löngum verið gagnrýnir á þessa eðlishyggju og vilja frekar skoða félagslega mótun móðurhlut- verksins. Femínískir fræðimenn benda á að móðurhlutverkið sé ekki fast og óbreytanlegt heldur mótist af menningu og tíðaranda og samfé- lagslegt mikilvægi þess sé sögulega afar breytilegt og mótist af ráðandi orðræðu á hverjum tíma fyrir sig (Chodorow, 1978; Kinser, 2010; Rich, 1976; Ruddick, 1983). Kenningarlegt sjónarhorn rannsóknar er femínískt og undir áhrifum franska heimspekingsins Foucault og kenn- ingar hans um ögunarvald. Ögunarvald vísar til þeirrar ögunar sem samfélagið og stofnanir þess beita okkur og sömuleiðis þá eigin ögun sem við göngumst „sjálfviljug“ undir (Foucault, 1980). Til þess að staðsetja rannsóknina og setja í samhengi við alþjóðlega umræðu um móðurhlutverkið og mæðrun er því mikilvægt að minnast á greiningu Sharon Hays (1996) á hugmyndafræði ákafrar mæðrunar eða intensive mothering sem hefur verið gífurlega áhrifamikil fyrir rannsakendur innan móður-fræðanna. Hays gerir grein fyrir sögu- legri þróun foreldrahlutverksins og hvernig það hefur á undanförnum áratugum öðlast stærri sess í sjálfsmynd fullorðinna einstaklinga í hinum vestræna heimi. Innan orðræðu ákafrar mæðrunar er árangurs- ríkt uppeldi að öllu leyti barns-miðað og hefur verið skilgreint sem ákveðin vinna eða atferli þar sem móðirin sekkur sér af fullum þunga í uppeldið, tekur alla ábyrgð á þeim ólíku þáttum sem lúta að þroska og velferð barnsins, en á sama tíma á hún í auknum mæli að styðjast við ráð og leiðbeiningar sérfræðinga og vísindalegrar orðræðu um uppeldi og umönnun til þess að „kenna“ henni réttu handtökin (Badinter, 2012; Crossley, 2009; Maher og Saugeres, 2007). Sjálfsmynd móðurinnar samkvæmt forskrift ákafrar mæðrunar á fyrst og fremst að grundvallast á móðurhlutverkinu og það verkefni að sinna móðurhlutverkinu með sóma er menningarlega skilgreint sem erfiðara, tímafrekara og flóknara en áður þekktist (Hays, 2006; Lee o.fl., 2014). Farsæl brjóstagjöf er því veigamikill þáttur í hinni menningarlegu forskrift ákafrar mæðr- unnar þar sem vísindaleg orðræða um heilsufarslegan ávinning brjósta- mjólkur og ekki síður hugmyndin um brjóstagjöf sem mikilvæga aðferð við að tryggja sterk tengsl á milli móður og barns eru lykilþættir. AÐFERÐAFRÆÐI Rannsóknin sem hér er kynnt er hluti af doktorsverkefni fyrsta höfundar sem lauk árið 2017. Vísindasiðanefnd (13-054-S1) og Persónuvernd (S6059/2012) veittu leyfi fyrir rannsókninni sem hafði það að markmiði að skoða og greina ráðandi orðræður um móðurhlut- verkið á Íslandi. Einn hluti doktorsrannsóknarinnar hafði það að mark- miði að varpa ljósi á reynslu kvenna sem höfðu ekki getað brjóstfætt börn sín, eða höfðu átt í miklum erfiðleikum með brjóstagjöf og gerð er grein fyrir þeim þætti rannsóknarinnar í þessari grein. Gagnaöflun fór þannig fram að fyrsti höfundur auglýsti eftir sögum mæðra þar sem brjóstagjöf gekk illa eða ekki neitt eða þar sem komu upp miklir erfið- leikar á fjölmörgum vinsælum mæðrahópum á Facebook. Í kjölfarið birtist einnig viðtal á vísi.is þar sem rannsóknin var kynnt og óskað var eftir frásögnum. Á einni viku settu um 90 konur sig í samband við rannsakanda og lýstu yfir áhuga á rannsókninni og 77 konur sendu inn sína frásögn. Frásagnirnar voru mislangar, allt frá nokkrum línum upp í nokkrar blaðsíður. Heildargagnasafn var 124 blaðsíður af texta. Sumar konurnar studdust við spurningar sem þær höfðu fengið sendar frá rannsakanda til að hafa til hliðsjónar en aðrar skrifuðu sína eigin frásögn. Í töflu 1 eru dæmi um spurningar sem þátttakendur höfðu til hliðsjónar. Sérstakt netfang var stofnað til þess að safna sögunum og eiga í samskiptum við þátttakendur og öllum þeim sem sendu fyrsta höfundi skilaboð eða tölvupóst var svarað, þar sem þeim var gerð grein fyrir tilgangi gagnaöflunar og að nafnleysi þeirra yrði tryggt. Við greiningu gagna var orðræðugreiningu beitt, en sú aðferð leggur áherslu á að skoða orðræðu sem skapandi ferli og rann- saka vald og valdatengsl, mótsagnir og þagnir innan orðræðunnar. Orðræðugreining á rætur að rekja til málvísinda en staðsetur sig innan póst-strúktúralískrar hefðar og er undir miklum áhrifum frá franska heimspekingnum Michel Foucault. Orðræðugreining lítur á hina félagslegu veröld sem texta sem rannsakandinn getur lesið og túlkað og því er rannsókn á orðræðu rannsókn á því hvernig merking er búin til og tengsl tungumáls og félagslegs veruleika (Wodak, 2008). Innan orðræðugreiningar er ekki nóg að telja orð í texta, heldur þarf að skoða um hvað er skrifað og ekki skrifað og sömuleiðis hvernig er skrifað (Ingólfur Á. Jóhannesson, 2006). Lögð var áhersla á að skoða orðræðu sem skapandi ferli og rannsaka vald og valdatengsl og mótsagnir innan orðræðunnar. Tafla 1. Eigið mat á heilsu og andlegri líðan Hvaða viðhorf hafðir þú til brjóstagjafar áður en þú eignaðist barnið/börnin? Hvernig gekk brjóstagjöfin? Hvernig upplifðir þú brjóstagjöfina? Hvernig viðbrögð fékkstu frá heilbrigðisstarfsfólki, samfélaginu og þínum nánustu? Hvernig leið þér? Hvað hefði mátt betur fara? Hvernig líður þér með brjóstagjöfina/reynsluna í dag? Hvernig stuðning hefðir þú viljað fá?

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.