Bændablaðið - 11.01.2018, Page 30

Bændablaðið - 11.01.2018, Page 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. janúar 2018 Hönnunarvörumerkið WETLAND hlaut viðurkenningu Icelandic lamb: Skarar fram úr í handverki og hönnun úr sauðfjárafurðum Á dögunum veitti Icelandic lamb nokkrum aðilum viðurkenningar sem skarað hafa fram úr í handverki og hönnun úr sauðfjárafurðum. Hönnunarmerkið WETLAND var í þeirra hópi, en það er hönnunarmerki sem framleiðir lífsstílsvörur undir norrænum áhrifum og sérhæfir sig í vörum úr íslensku lambaskinni. Eigendur vörumerkisins WETLAND eru Sigríður Sunneva Vigfúsdóttir fatahönnuður, Elísabet Jónsdóttir, grafískur hönnuður, og Katrín Dóra Þorsteinsdóttir MBA, rekstrar- og viðskiptafræðingur. Elísabet segir að WETLAND sé nýtt íslenskt hönnunarmerki sem framleiði vandaðar og stílhreinar lífsstílsvörur undir norrænum áhrifum og sérhæfir sig í hönnun á vörum úr íslensku lambaskinni eða svokölluðu mokkaskinni. „Snið eru einföld og klassísk þar sem innblásturs er leitað í fegurð og dulúð íslenskrar náttúru. Hráefni og hönnun haldast í hendur og mynda tímalausa vöru sem endist kynslóð fram af kynslóð,“ útskýrir Elísabet. Ullin og skinnið einstök hráefni Auk WETLAND-samstarfsins eru Elísabet og Sigríður Sunneva með önnur verkefni í gangi. „Ég hef um áratugaskeið rekið hönnunarstúdíóið VOLKI, ásamt meðeiganda mínum, Olgu Hrafnsdóttur,“ segir Elísabet. „Þar hefur fókusinn verið á hönnun og framleiðslu á húsgögnum og munum fyrir heimilið úr íslenskri ull. Teppi og treflar eru helsta framleiðsluvaran okkar þar sem litir og geómetrísk mynstur ráða ríkjum. Ég er mjög hrifin af hráefnum sem tengjast íslensku sauðkindinni okkar. Ullin okkar og skinnið eru einstök hráefni sem hefur óteljandi möguleika. Ég tel að hönnunarvörur úr þessum séríslensku hráefnum geti orðið mjög eftirsóknarverðar úti um allan heim. Sunneva á vörumerkið SUNNEVA DESIGN, þar sem fókusinn er fyrst og fremst að sérsauma flíkur úr íslensku mokkaskinni. Hún byrjaði að framleiða undir því vörumerki árið 1996 og var Katrín um tíma framkvæmdastjóri hjá henni,“ segir Elísabet. Fyrst og fremst áhersla á íslenska mokkaskinnnið „Við Sunneva höfum áður unnið saman,“ segir Elísabet. „Hún frumsýndi línu á HönnunarMars 2015 þar sem hún notaði litríku ullarefnin frá VOLKI í bland með íslenska mokkaskinninu. Íslenska ullin og skinnið er stórkostlegt saman og er planið að gera meira af því að vinna með þessi hráefni saman í nýja vörumerkinu okkar, WETLAND. Hjá WETLAND er áherslan fyrst og fremst á íslenska mokkaskinnið og þar koma Sunneva og Katrín sterkar inn. Sunneva hefur margra ára reynslu í hönnun yfirhafna úr íslensku skinni og Katrín hefur rekið eigið fyrirtæki þar sem hún framleiddi töskur úr leðri og skinni. Fyrsta vörulínan WETLAND samanstendur af treflum, slám og töskum úr þessu dásamlega hráefni. Mitt hlutverk hjá WETLAND hefur fyrst og fremst tengst grafískri hönnun. Við leggjum áherslu á sjálfbærni vörunnar, það er að lambaskinnið – sem er aðalhráefnið í línunni – er sjálfbært hráefni þar sem það er aukaafurð sem fellur til við lambakjötsframleiðslu. Okkur finnst mjög mikilvægt að fullnýta þetta frábæra hráefni sem við berum svo óendanlega mikla virðingu fyrir, með því að hanna úr því metnaðarfulla vörulínu.“ Öll framleiðsla enn innanlands Að sögn Elísabetar er öll framleiðslan enn á Íslandi. „Við viljum helst af öllu halda áfram að framleiða allt hér. Vörurnar eru saumaðar á litlum saumastofum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Áhersla er lögð á að nýta hráefnið sem best, engu er hent. Við teljum að með vandaðri og sérstæðri hönnun næst fram glæsileg og einföld flík sem endist kynslóð fram af kynslóð, umhverfisvæn úr náttúrulegum efnum og hentar nútíma fagurkera sem vill lifa í góðri sátt við náttúruna.“ WETLAND-vörurnar er hægt að kaupa á netinu í gegnum vefsíðuna þeirra, wetland.is, en þar er einnig að finna upplýsingar um hönnunarmerkið og sýnishorn af hönnun þeirra og framleiðslu. /smh MENNING&LISTIR Taskan Dimma úr smiðju WETLAND. Myndir / WETLAND

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.