Bændablaðið - 06.09.2018, Side 7

Bændablaðið - 06.09.2018, Side 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 6. september 2018 7 LÍF&STARF Á dögunum voru að snöltra hér systir mín, Rósa Sigrún, og maki hennar, Páll Ásgeir Ásgeirsson, borinn Vestfirðingur frá Þúfum. Páll er liðugur hagyrðingur og afar vel skrifandi bókahöfundur. Þau hjúin voru þessa daga hér öll á iði, ýmist hjólandi eða hlaupandi um vegi og vegleysur. Við Petra reyndum að gera vel við þau í mat, og ekki síður nesta þau ögn til suðurferðar að afloknu þeirra randi. Ekki höfðu þau lengi ekið til síns heima í Reykjavík, þegar tóku að strjálast í símann vísur frá Páli Ásgeiri: Bunar sviti og bólgna tær er bratt ég hjóla drjúgum, feginn verð að fékk í gær faðm af reyktum bjúgum. Sárt er hungur sverfur að og sultarólin trosnar, þá geymi ég á góðum stað gæðabollur frosnar. Af hungurvofu hef ég beyg og hennar grönnu leggjum, oft því sýp í einum teyg úr átta hænueggjum. Þegar vaxa vindaský og veður fer að kárna, þá er best að bíta í bollurnar frá Árna. Ekki dylst það dauðum, að vænt þykir Magnúsi Halldórssyni á Hvolsvelli um, þegar hans er getið í þessum þáttum. Vel get ég unað honum athygli, enda fullt af vísum hans í símtæki mínu. Fyrir nokkrum misserum var ég á ferð um búsvæði Magnúsar á Suðurlandi. Missti ég þar loft úr hjólbarða bifreiðar minnar. Ekkert var því nærtækara en að hringja í Magnús og biðja hann bónar til bjargar loftleysi mínu. Magnús tók vel erindi mínu: Hringir sosum ekki oft okkur til að kæta, en að skorti Árna loft undrum þó mun sæta. Vinátta þín væn og hlý vart mun aðra þvinga. Vel ég þoli vopnagný og vindgang Þingeyinga. Þó að ekki teljist ég mikilvirkur á „fésbókarsíðum“, þá hef ég þó eignast þar nokkra verðmæta vini. Þann vinahóp gistir nú Ari læknir Jóhannesson á Akranesi. Ari er ljómandi hagyrðingur og hefur a.m.k. gefið út eina ljóðabók, „Öskudagar“. Vinafundi okkar á „fési“ fagnaði Ari með þessari verðmætu vísu: Vart er ógnað vísnakyni; vex og dafnar andans þing ef ég fæ að eiga að vini Árna Geirhjört hagyrðing. Pétur læknir Pétursson á Akureyri las vitnisburð Ara, en var þó mun hófstilltari í umsögn sinni: Manninn prýða margt ég tel, og mun því flíka, að Árni karlinn yrkir vel, - en illa líka. Nú er ögn tekið að hausta, og sér þess stað á landi og lauftrjám. Einnig er kominn haustblær á hugverk Ingólfs Ómars Ármannssonar. Hann sendi nýverið þessar snjöllu vísur: Hausts í skartið foldin fer, fölva klæðist gráum. Niðamyrkur úti er andar kul að stráum. Emja stormar, ýfast sund, unn á skerjum brýtur. Sölnuð hníga grös á grund, grána fjallastrýtur. Haustdögum fylgja svo göngur og réttir. Ómar er kominn með hugann þangað: Seggja heyri söngvaklið, són með gáska léttum. Glaðir stútinn glingra við gangnamenn í réttum. Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggð1@gmail.com Það var höfundur Yarm sem fékk titilinn handverksmaður ársins 2018, en það er Erla Svava Sigurðardóttir sem hannar og framleiðir undir merkinu Yarm. Fjölmenni á Handverkshátíð 2018: Höfundur Yarm fékk titilinn handverksmaður ársins Fjölmenni sótti árlega Handverkshátíð sem haldin var á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit í ágúst. Líkt og undanfarin ár var tilkynnt um þrjá verðlaunahafa, en verðlaun eru jafnan veitt fyrir fallegasta básinn, nýliða ársins og handverksmann ársins. Tilnefndir fyrir fallegasta básinn voru: Dottir, Vagg og velta, og Aldörk og var það Aldörk sem stóð uppi sem verðlaunahafi. Tilnefndir sem nýliði ársins voru: Aldörk, Yarm og Íslenskir leirfuglar og voru það Íslenskir leirfuglar sem hlutu verðlaunin. Að lokum var það handverksmaður ársins, tilnefndir voru: Þórdís Jónsdóttir – handbróderaðir púðar, Ásta Bára og Ragney og Yarm. Það var Yarm sem fékk titilinn handverksmaður ársins 2018. Í dómnefnd voru Bryndís Símonardóttir, Einar Gíslason og Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir. Verðlaunagripirnir voru glæsileg eldsmíðuð pitsahjól, smíðuð af eldsmiðnum Beate Stormo, sem er búsett í Eyjafirði. Félagið Beint frá býli var þátttakandi á Bændamarkaði Handverks hátíðar, félagið var stofnað árið 2008 og heldur því upp á tíu ára afmæli sitt á árinu. Meginmarkmið félagsins er að tryggja neytendum gæðavörur þar sem öryggi og rekjanleiki vöru er í fyrirrúmi. Glímusamband Íslands sýndi gestum Handverkshátíðarinnar helstu tökin í glímu og bauð svo fólki að prufa. Sýning sambandsins þótti stórglæsileg og bauðst gestum að fylgjast með flottum töktum. Búsaga, búnaðarsögusafn tók þátt eins og fyrri ár. Þema sýningar Búsögu var heyskapur í hundrað ár. Á sýningunni gaf að líta amboð, heyvinnuvélar fyrir hest og síðan dráttarvélar og þróun búnaðar fyrir heyskap á síðustu öld og fram á þessa. Mjög margir komu að skoða vélarnar og keyptu dagatal Búsögu 2019 sem prýtt er fjölda mynda af búvélum. /MÞÞ Íslenskir leirfuglar hlutu verðlaunin Nýliði ársins. Alda Erlingsdóttir hjá Aldörk hlaut verðlau n fyrir besta bás sýningarinnar. Þjóðbúningum var gert hátt undir höfði á Handverkssýningunni í ár og allir sem mættu í þjóðbúning á hátíðina þurftu ekki að greiða aðgangseyri. MÆLT AF MUNNI FRAM

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.