Bændablaðið - 08.03.2018, Side 18

Bændablaðið - 08.03.2018, Side 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018 Erfðavísirinn DMRT3 hefur mikil áhrif á hreyfingar og ganglag hrossa en mögulega geta hross borið tvær útgáfur af þessum erfðavísi; A og C. Sýnt hefur verið fram á að við erum á leiðinni að tapa C erfðavísinum úr íslenska hrossastofninum en hann getur skapað verðmæta hestgerð og er því mikilvægt að sporna gegn þessari þróun. Þekking á áhrifum þessa erfðavísis er mjög áhugaverð fyrir hrossaræktendur, nýtist þeim afar vel í ræktunarstarfinu og sýnir fram á að afar spennandi er að arfgerðargreina klárhross með tölti. Í DMRT3 erfðavísinum geta verið tvær svokallaðar samsætur, A og C, sem eru í raun tvær útgáfur af þessum erfðavísi og geta hross því borið þrjár mögulegar arfgerðir: AA, CA og CC. Vegna tengsla við skeiðgetu hefur A samsætan verið kölluð skeiðgenið í daglegu tali. Til að kanna áhrif breytileika í DMRT3 erfðavísinum á ganghæfni íslenskra hrossa fór fram rannsókn á Íslandi árið 2014. Þar voru 667 hross, sem öll voru dæmd í kynbótadómi, arfgerðargreind. Einkunnir þessara hrossa voru skoðaðar og kannað hvort marktækur munur væri á einkunnum eftir arfgerð. Einnig voru athugasemdir dómara skoðaðar sem lýsa eiginleikum gangtegundanna, s.s. takti, mýkt, svifi og rými. Áhrif á tölt og skeið AA arfgerðin er skilyrði fyrir skeiðgetu og þurfa hross því að vera arfhrein fyrir skeiðgeninu til að geta skeiðað. Þessi arfgerð hefur ekki áhrif á gæði skeiðsins og ekki eru öll AA hross sýnd með skeiði en 25% af hrossunum í gagnasafninu sem voru með AA arfgerðina voru sýnd sem klárhross. Einnig var sýnt fram á að AA arfgerðin hefur jákvæð áhrif á einkunnir fyrir tölt þar sem AA hrossin voru með marktækt hærri einkunnir fyrir tölt samanborið við C- (CA eða CC) hrossin. Þetta skýrist að hluta af meiri mýkt og rými hjá AA hrossum. Einnig eru AA hross eðlisgengari, þurfa styttri tíma til gangsetningar og eru í miklum meirihluta þeirra hrossa sem hljóta háar einkunnir fyrir tölt á unga aldri. Af þeim hrossum i gagnasafninu sem voru með 9.0 eða 9.5 fyrir tölt fjögurra vetra gömul var yfir 90% með AA arfgerðina. Áhrif á grunngangtegundirnar Hross sem voru arfblendin, CA, voru aftur á móti með marktækt hærri einkunnir fyrir grunn gangtegundirnar; fet, brokk, hægt stökk og stökk. Sérstaklega var munurinn mikill í hægu stökki og CA hross voru í miklum meirihluta hrossa sem voru með 9.0 eða hærra í einkunn fyrir hægt stökk í kynbótadómi. Einnig var sýnt fram á að CA hrossin voru oftar svifmikil og takthrein á brokki og stökki. Þetta skýrir að mörgu leyti þann mun sem hestafólk þekkir á ganglagi alhliðahesta og klárhesta; gengu, mjúku alhliða hrossin sem eru ekki svifmikil á hægu stökki, samanborið við klárhrossin sem þurfa lengri tíma í gangsetningu en hafa þetta takthreina svifmikla brokk (sem stundum er ekki rúmt) og hreina svifmikla hæga stökk. Þessar niðurstöður bentu til þess að AA arfgerðin styrki samhæfingu hliðstæðra fóta og það sé ástæða þess að AA hross geti skeiðað og hafi eðlislægari getu til þess að tölta, hafi betra jafnvægi á gangi samanborið við C- hross og séu auðveldari í gangsetningu. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að AA arfgerðin hafi neikvæð áhrif á samstilltar hreyfingar skástæðra fóta. Þess vegna séu AA hross oftar fjórtöktuð á brokki og C- hross takthreinni á brokki og með þetta takthreina hæga stökk sem krefst samstilltra hreyfinga skástæðra fóta. Úrvals keppnishross í fjórgangi Nú er hægt að meta líkur margra hrossa á DMRT3 arfgerð, útfrá ætterni og dómum á skeiði og brokki. Við vitum með miklu öryggi að ef hrossið er með 7.0 eða hærra fyrir skeið eða undan alhliða hrossum þá er hrossið arfhreint fyrir skeiðgeninu (AA). Þorvaldur Árnason hefur reiknað líkur allra hross í WorldFeng á DMRT3 arfgerðinni og birtist arfgerð þeirra hrossa sem hægt er að meta með 100% öryggi í WorldFeng (Logo á grunnsíðu hvers hests – hægt er að smella á logo-ið og fá frekari upplýsingar). Ljóst er að mörg klárhross þarf að arfgerðargreina til að vera viss um arfgerðina, þar sem þau eru blandaður hópur af AA og C- hrossum. Þetta er mjög áhugavert að gera og arfgerðargreining á klárhrossum ætti í raun að verða venjubundinn hluti af starfi ræktenda. Í fyrsta lagi getur verið áhugavert að nota CA hross í ræktun ef ætlunin er t.d. að skapa úrvals keppnishross í fjórgangi, í ljósi hinna jákvæðu áhrifa CA arfgerðarinnar á grunn gangtegundirnar. Í öðru lagi vilja væntanlega flestir forðast að para saman tvö CA hross, vegna þess að þá eru 25% líkur á CC hrossi sem er dýrara í framleiðslu vegna þess tíma sem það tekur að gangsetja það. Ef ræktendur eru með klárhryssur í ræktun er afar áhugavert fyrir þá að vita með vissu arfgerð hryssnanna og mun það leiða til nákvæmari paranna. Einnig er áhugavert fyrir eigendur stóðhesta sem eru klárhestar að upplýsa ræktendur um arfgerð þeirra. Þróun í tíðni samsætanna Þróun í tíðni A og C erfðavísanna var metin í rannsókninni. Niðurstöðurnar sýndu að tíðni A samsætunnar hefur aukist í stofninum síðustu áratugi á kostnað C samsætunnar (sjá mynd). Áætluð tíðni A samsætunnar í íslenska hrossastofninum árið 2012 var 94% og haldi fram sem horfir mun C samsætan hverfa úr stofninum innan fárra ára. Ætla má að áhersla á tölt og skeið í ræktunarmarkmiðinu hafi stuðlað að þessari breytingu og einnig vilji ræktenda til að rækta hross sem eru fljót til að koma með tölt. Nú er hægt að bæta grunn gangtegundir AA hrossa með úrvali og til eru alhliða hross með úrvals klárgang og keppnishestar í fjórgangi sem eru AA hestar. Enda hafa átt sér stað erfðaframfarir í t.d. brokki á sama tíma og tíðni A samsætunnar hefur aukist í stofninum. Þetta skýrist af því að fleiri erfðavísar en DMRT3 hafa áhrif á hreyfingar hrossa, þó DMRT3 hafi mun meiri áhrif en aðrir erfðavísar. Engu að síður er mikilvægt að C erfðavísirinn tapist ekki úr stofninum. Við viljum hafa möguleika á að sækja í þennan erfðabreytileika áfram þar sem C erfðavísirinn hefur jákvæð áhrif á grunn gangtegundirnar og mun það einnig styrkja fjölbreytta notkun á hestinum til framtíðar. Tvær aðaleinkunnir Hvernig við förum að því að halda í C erfðavísinn ræðst náttúrlega fyrst og fremst af áhuga ræktenda á því að nota hross til ræktunar sem bera þennan erfðavísi. Töltgeta CA hrossa er mjög misjöfn, sum tölta afar vel og málið er að nota bestu CA hrossin til ræktunar. Einnig tel ég að ræktunarkerfið geti komið meira til móts við klárhrossin en gert er. Úrvals klárhross eru verðmæt hross til ræktunar og í sölu. Ein hugmynd er að reikna tvær aðaleinkunnir fyrir hvern hest. Í dag erum við að bera öll hross saman sem alhliða hross en einnig er áhugavert að bera öll hross saman sem klárhross og reikna aðra aðaleinkunn þar sem vægi á skeiði er dreift yfir á hinar gangtegundirnar. Þetta býður upp á áhugaverðan samanburð og gæti einnig haft jákvæð áhrif á mætingu hrossa til dóms. Klárhross með 8.0 í einkunn fyrir alla eiginleika hæfileika nema skeið fær í dag 7.50 í aðaleinkunn hæfileika en fengi einnig samkvæmt „fjórgangs aðaleinkunn“ einfaldlega 8.00 í aðaleinkunn hæfileika. Okkar bestu alhliða hross kæmu afar vel út úr þessum samanburði. Eitt dæmi er Hrannar frá Flugumýri sem er með í sínum hæsta dómi 9.16 í aðaleinkunn hæfileika en fengi samkvæmt „fjórgangs aðaleinkunn“ 9.19. Þessi breyting mun ýta undir klárhross með tölti sem mæta til dóms og vekja meiri athygli á þeim. Samantekið eru þetta afar áhugaverðar niðurstöður og uppgötvun skeiðgensins sýnir okkur hvaða upplýsingar nútíma erfðatækni getur fært okkur. Ennfremur vekja þessar niðurstöður ýmsar spurningar um ræktunarmarkmiðið sem áhugavert verður að takast á við til framtíðar. Markmiðið er að sjálfsögðu að bæta allar gangtegundir íslenska hestsins þar sem áherslan verður fyrst og fremst á hest sem beitir sér rétt á hverri gangtegund í jafnvægi og framkvæmir þær í réttum takti og af mýkt og léttleika. Grein um þetta efni birtist í Journal of Animal Breeding and Genetics árið 2014 og höfundar að henni voru ásamt undirrituðum: Sigríður Björnsdóttir, Ágúst Sigurðsson, Lisa Andersson, Gabriella Lindgren, Sarah Helyar, Alexandra Klonowski og Þorvaldur Árnason. Linkur á greinina er hér: http://onlinelibrary.wiley.com/ doi/10.1111/jbg.12112/pdf HROSS&HESTAMENNSKA Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt thk@rml.is Áhrif skeiðgensins á ganghæfni íslenskra hrossa Arfgerðargreining á klárhrossum ætti að vera venjubundinn hluti af starfi ræktenda; Loki frá Selfossi er dæmi um úrvals CA hest. Þróun í tíðni A (rauða línan) og C (græna línan) erfðavísanna í íslenska hrossastofninum frá 1980 til 2012.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.