Bændablaðið - 08.03.2018, Page 28

Bændablaðið - 08.03.2018, Page 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018 Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, lét af störfum sem formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL) á nýafstöðnum aðalfundi eftir tæplega 18 ára setu. Við hans stöðu tók þá Einar E. Einarsson á Skörðugili í Skagafirði. Í stjórn SÍL er nú auk Einars, þeir Björn Harðarson í Holti í Árnessýslu, sem er ritari, en hann sat líka í fyrri stjórn og Þorbjörn Sigurðsson í Ásgerði í Árnessýslu, sem er gjaldkeri. Björn Halldórsson hefur rekið minkabú í Engihlíð frá árinu 1984. Hann hætti þeim rekstri og felldi öll dýrin síðastliðið haust, en heldur áfram kúabúskap á jörðinni sem hann rekur ásamt mágkonu sinni og bróður. Þar eru um 50 til 60 kýr og mjólkurframleiðsla um 400 þúsund kg af mjólk og dálítið nautaeldi. Auk þess eru þau með um 90 kindur og stunda skógrækt að auki. Afraksturinn af góðu árunum í minkaeldinu var nýttur til að byggja upp kúabúið sem kemur nú að góðum notum. Björn Halldórsson segist vonast til að ákveðið verði að spýta í lófana varðandi skógrækt á landsvísu enda orðin virkilega mikil þörf á slíku þar sem Íslandi ber að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Menn eigi nú að nýta peningana þar fyrst og fremst til að planta eins miklu og hægt er, því ein áhrifaríkasta leiðin til að binda kolefni sé að rækta fleiri tré. Segir ekki alveg skilið við félaga sína í loðdýraræktinni Björn sagði í samtali við Bænda- blaðið á þessum tímamótum að hann væri þó ekki alveg búinn að segja skilið við félaga sína í minkaræktinni, því hann var fulltrúi þeirra á nýafstöðnu búnaðarþingi og verður einnig fulltrúi minkabænda á ársþingi Bændasamtaka Íslands 2019. „Ég er búinn að vera formaður Landssamtaka loðdýrabænda í tæp 18 ár, en þar byrjaði ég í september árið 2000. Kjörtímabilin eru því orðin sex, en kosið er í þessa stöðu á þriggja ára fresti.“ Björn segist aldrei hafa verið refabóndi en fyrstu afskipti hans af mink hafi verið þegar hann var í búvísindanámi. „Þá var boðið upp á nám í loðdýrarækt sem valgrein sem Magnús Jónsson, fyrrverandi rektor á Hvanneyri, kenndi ásamt Sigurjóni Bláfeld. Ég heillaðist alveg af þessu og þá sérstaklega minknum. Mér fannst það spennandi tilhugsun að vinna með þessi dýr og rækta. Síðan fór ég að kenna við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal í þrjú ár. Þar kenndi ég bóklega hlutann af loðdýraræktinni, en Álfheiður Marínósdóttir sá um verklega hlutann. Þá var nýbúið að flytja inn mink og ref til Hóla. Byrjaði í minkaræktinni 1984 Árið 1984 flytjum við austur á Vopnafjörð og þá byrja ég strax um haustið með mink og var síðan í minkarækt þar til haustið 2017. Þannig að árin í þessari grein urðu akkúrat 33.“ Stofninum skipt út vegna veirusýkingar „Á þessum árum var verið að ljúka niðurskurði á sýktum stofni minka á Íslandi sem hafði verið fluttur inn frá Noregi á árunum 1968 til 1969. Sá stofn var allur sýktur af plasmacytosis, sem er veirusjúkdómur sem skyldur er riðuveiki og er ólæknandi. Árið 1982 var fluttur inn nýr ósýktur stofn frá Danmörku og síðan af og til þar til reglu var komið á innflutninginn 2002. Eftir það hafa verið flutt inn dýr á hverju ári. Það tókst alveg ótrúlega vel að hreinsa okkur af pestinni og skipta út stofninum. Síðan hafa ekki komið upp nema örfá tilvik og þá vegna smits frá villtum mink. Það þurfti að taka allt í gegn á sýktu búunum. Þar var allt sótthreinsað, einhverju af innréttingum skipt út og skipt um jarðveg. Var þetta gríðarlega umfangsmikið verkefni, en lukkaðist vel. Ég held að það sé á engan logið þótt Eggerti Gunnarssyni dýralækni sé þakkað fyrir hans þátt í því verkefni. Hann stýrði því meira og minna hvað faglegu hliðina snerti og gerði það afskaplega vel. Eggert á því heiður skilið fyrir baráttu sína við að útrýma þessum sjúkdómi og kenna bændum að verjast smiti,“ segir Björn. Erfiður veirusjúkdómur Sjúkdómurinn mink plasmacytosis, sem stundum er líka nefndur „Aleutian disease“, barst til landsins með mink sem fluttur var til landsins frá Noregi. Hann veldur fósturláti hjá minkum og þekkist einnig í frettum og öðrum dýrum af marðarætt. Talið er að sjúkdómurinn hafi borist til Noregs með dýrum sem flutt voru frá Kanada, en Norðmenn voru upphafsmenn að minkarækt sem húsdýrarækt í Evrópu. Leituðu Norðmenn í smiðju Kanadamanna sem voru fyrstir í heiminum til að halda mink. Það var á Prince Edward eyju, í St Lawrensflóa í austurhluta Kanada upp úr miðri nítjándu öld. Þar var minkurinn lokaður af á eyjunni og dýrin veidd á haustin vegna skinnanna. Upp úr aldamótunum 1900 var fluttur minkur til Noregs og urðu norskir bændur fljótt mjög öflugir í ræktun á mink og ref. Þaðan breiddist loðdýraræktin svo út til annarra Evrópulanda. Íslendingar hafa leitað í smiðju Dana Bestum árangri í minkaræktinni hafa Danir þó náð og þangað hafa íslenskir minkabændur sótt sín eldisdýr í fjölda ára. Segir Björn að Danir hafi verið mjög skipulagðir í sinni rækt strax frá upphafi og séu nú öflugastir á heimsvísu hvað gæðaframleiðslu varðar. Þá hafa þeir einnig verið í forystu með strangar aðbúnaðarreglur sem aðrar þjóðir eins og Íslendingar hafa verið að fylgja eftir. Nú standa íslenskir minkabændur einmitt á tímamótum hvað varðar innleiðingu á nýjum Hörður Kristjánsson hk@bondi.is Mynd / HKr. Mynd / HKr. Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, hættur í loðdýrarækt eftir 33 ár og í stjórn SÍL: Sjálfbærni í minkarækt er algjört lykilatriði í áframhaldandi uppbyggingu greinarinnar – Segir náttúrulega skinnaframleiðslu vera í harðri baráttu við firnasterk hagsmunaöfl í framleiðslu mengandi gerviefna

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.