Bændablaðið - 08.03.2018, Page 29
29Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018
og rýmri búrum í minkaeldinu að
hætti Dana. Danir höfðu þegar fyrir
nokkrum árum lokið að mestu við að
skipta út gömlum galvaníseruðum
vírbúrum fyrir ný endingarbetri og
stærri búr með ryðfríu stálneti. Það
er mjög kostnaðarsöm aðgerð. Sú
endurnýjun hittir nú á versta tíma
fyrir íslenska loðdýrarækt vegna
mikils verðfalls á skinnum samhliða
hækkandi launakostnaði og háu
gengi krónunnar. Það er samt yfirlýst
stefna yfirvalda að standa við bakið
á loðdýraræktinni hér á landi. Vonast
Björn því til að minkabændur komist
yfir þennan erfiða hjalla þótt fimm
bændur hafi hætt í greininni í haust
og þar á meðal hann sjálfur.
Aðeins þrjú uppboðshús eftir á
heimsvísu
Björn segir að þegar best lét hafi
verið fjögur skinnauppboðshús
á Norðurlöndunum. Þau voru hjá
Kobenhagen Fur í Danmörku,
í Osló í Noregi, í Stokkhólmi í
Svíþjóð og í Helskinki í Finnlandi.
Þar að auki voru uppboðshús í
Leningrad í Rússlandi, Seattle í
Bandaríkjunum, Toronto í Kanada
og stærsta uppboðshúsið var á
sínum tíma Hudson Bay í London.
Nú eru aðeins þrjú uppboðshús
eftir í heiminum, þ.e. í Danmörku,
í Finnlandi og í Toronto í Kanada.
Af þessum húsum er Kopenhagen
Fur langsamlega stærst og þar selja
íslenskir loðdýrabændur öll sín
skinn.
Dýravelferð og sjálfbærni
eru lykilatriði í evrópskri
skinnaframleiðslu
Þótt Danir séu leiðandi í
loðdýrarækt og sölu á skinnum
þá eru Kínverjar líka mikilvirkir
minkaskinnsframleiðendur. Þar er
regluverkið þó ekki í samræmi við
kröfur sem þekkjast í Evrópu, m.a.
hvað varðar dýravelferð, og þess
vegna selur ekkert uppboðshúsanna
skinn frá kínverskum bændum.
Kínverjar hafa aftur á móti verið
öflugir kaupendur á gæðaskinnum frá
Evrópu en talið er að offramleiðsla
á skinnum á árunum 2013 og 2014
hafi leitt til ofmettunar á markaði
sem enn sér ekki fyrir endann á.
„Frá árinu 2020 munu
uppboðshúsin svo ekki selja neitt
nema vottuð skinn hvað varðar
dýravelferð og aðbúnað búanna
samkvæmt evrópskum reglum. Það
gildir bæði um ref og mink.“
– Nú hefur verð á skinnum verið
í lægð, er eitthvað í sjónmáli að úr
því rætist á næstunni?
„Það er þó nokkuð í land ennþá
að þau lönd sem eru með hæstan
framleiðslukostnað séu að fá
nægilega hátt verð. Það er hins vegar
þannig að á undanförnum tæpum
áratug hafa samkeppnisskilyrði
versnað mikið í Norður- og Vestur-
Evrópu í samanburði við Suður- og
Austur-Evrópu. Það er að segja
launakostnaður, orkukostnaður og
fóðurkostnaður hefur hækkað mjög
mikið sem og raunar allur annar
framleiðslukostnaður. Verðið eins
og það er fyrir skinn í dag hefði
dugað okkur á Íslandi ágætlega
fyrir tíu árum síðan. Jafnvel þótt
við séum með jafn fíflalega skráð
gengi nú og raunin er þar sem það
er um 20% of hátt. Nú vantar okkur
talsvert upp á til að ná endum saman
og þar vega vinnulaunin á öllum
stigum framleiðslunnar þyngst. Við
þurfum að umreikna okkar kostnað í
dollara þar sem tekjurnar eru í þeirri
mynt. Þar erum við á síðustu þrem
til fjórum árum að taka á okkur um
50% hækkun á launum.“
Sama lögmál í loðdýrarækt
og í sauðfjárrækt
„Þetta er nákvæmlega það sama
og aðrar útflutningsgreinar og
þar með matvælaframleiðendur
á Íslandi eru að glíma við. Það er
m.a. ein af skýringunum á því hvað
sláturkostnaður hefur hækkað mikið
í sauðfjárslátrun. Laun annarra sem
vinna við þá framleiðslu hefur líka
hækkað mikið. Neytendur vilja hins
vegar borga sem minnst til að eiga
sem mestan afgang, m.a. til að eiga
fyrir utanlandsferðum. Þeir geta
svo líka fengið innflutta vöru fyrir
sáralítinn pening vegna hás gengis
krónunnar. Sá eini sem ekki fær
hagstæðari kjör er bóndinn, sem
er neyddur til að taka á sig mikla
tekjuskerðingu til að mæta auknum
kostnaði af launahækkunum annarra
í virðiskeðjunni. Þetta er sá veruleiki
sem við þurfum líka að glíma við í
loðdýraræktinni.“
Skýringin á lágu skinnaverði er
fyrst og fremst offramleiðsla
Björn segir að barátta
dýraverndunarsinna gagnvart
loðdýraræktinni skýri ekki nema
að mjög litlu leyti, ef nokkru, það
lága verð sem nú er á skinnum. Það
sé fyrst og fremst heimsmarkaðsverð
sem er lágt vegna langvarandi
offramboðs.
Á árunum 2010, 2011, 2012
og 2013 var gríðarlega mikil
offramleiðsla á skinnum í heiminum.
Á árinu 2012 komu rúmlega
80 milljónir skinna til sölu hjá
uppboðshúsunum og 87 milljónir
skinna árið 2013 en á árunum 2007
og 2008 var framleiðslan um 50
milljónir minkaskinna. Á þessum
árum voru öll skinn seld fyrir mjög
hátt verð. Það skýrðist helst af því
að markaðurinn í Kína var að opnast.
Þá var á hverju ári verið að opna
fjölmargar verslunarmiðstöðvar í
Kína með kannski 200–600 búðum
sem seldu eingöngu pelsa. Ég man
t.d. að á febrúaruppboði 2013
voru seld um 7 milljónir skinna í
Kaupmannahöfn en það var nokkurn
veginn sá fjöldi skinna sem á sama
tíma fór til að fylla lager í einu nýju
vöruhúsi í Kína. Þetta leiddi til þess
að mikið safnaðist upp af skinnavöru
sem var nánast öll eins vegna þess að
á þeim tíma var nær engin tískuþróun
í gangi í skinnavöru í Kína. Þeir
vildu einfaldlega eignast pelsa eins
og þeir höfðu séð myndir af frá
Evrópu. Mikið af þessum pelsum
eru ennþá til sölu í kínverskum
verslunum því Kínverjar vilja nú
kaupa sér annars konar pelsa, þ.e.
samkvæmt nýjustu tísku, sem oft
eru úr lituðum skinnum. Jafnvel úr
skinnum með rökuðum eða klipptum
hárum. Í slíkri vöru er nú fín sala
og ágætis afkoma hjá þeim sem
stíla inn á þann markað. Aftur á
móti er sáralítil hreyfing á vörum
úr skinnum sem framleidd voru fyrir
sex til sjö árum. Því er verkefnið nú
að reyna að aðstoða verslanir við að
koma þeirri vöru í verð. Því er nú
hægt að fá í Kína flotta slíka pelsa
fyrir um 5.000 danskar krónur sem
þykir lítið.
Nú er gert ráð fyrir að á
heimsmarkaði á þessu ári komi
til sölu hjá uppboðshúsum um 45
milljónir skinna, eða um helmingur
þess sem var þegar framleiðslan var
í hámarki.“
Björn telur því að markaðurinn
muni hægt og bítandi rétta úr
kútnum og að skinnaverð fari að
hækka. Því sé þetta spurning um
hvort mönnum verði hjálpað til að
þrauka yfir þennan erfiða tíma til
að verja þau verðmæti sem felast
í greininni.
-En það heyrist samt utan úr
heimi að mikill áróður sé fyrir að
skipta úr náttúrulegum loðskinnum
yfir í skinn sem búin eru til úr
gerviefnum, þ.e. plastefnum. Mun
það ekki eyðileggja grunninn fyrir
loðdýraeldinu?
„Nei, það mun ekki gerast. Það
verður alltaf munur á gerviefni
og náttúrulegu efni sem framleitt
er með sjálfbærum hætti. Það
kemur fram í endingartíma, áferð
og mengunarfótspori. Þeir sem
kynnst hafa raunverulegum pels úr
náttúrulegu skinni sjá auðveldlega
muninn á gæðunum. Það fólk sættir
sig ekki við gerviefni. Gerviefnin
geta út af fyrir sig verið ágæt ef
mönnum finnst það allt í lagi að nota
jarðolíu til að framleiða föt utan á
sig. Einnig ef fólk sættir sig við að
skilja eftir það spor í vistkerfinu
sem hlýst m.a af örplasti sem nú
dreifist um öll heimsins höf. Það er
því mjög langt í það að gerviefnin
geti komið í staðinn fyrir það besta
í náttúrulegum afurðum.“
Nælon var efst á lista yfir
sjálfbært hráefni til fatagerðar
Björn segir að mikið sé nú horft til
þess að framleiðsla af öllu tagi sé
sjálfbær gagnvart náttúrunni. Það
eigi líka við varðandi framleiðslu
á loðskinnum. Nú sé í gangi
mjög stórt evrópskt verkefni
undir stjórn Evrópusamtaka
loðdýraframleiðenda. Þar er verið að
reikna nákvæmlega út kolefnissporið
við framleiðslu á loðskinnum. Því er
stjórnað af Hollendingi sem hefur
verið að gera það sama varðandi
lambaskinn.
Ég hitti þennan mann í fyrra
og hann sagði mér að það hafi
verið ótrúlegur slagur gegn því
sem hann var að gera. Hann hafi
verið að hitta stóra framleiðendur
á íþrótta- og tískuvörum sem voru
farnir að hugsa mikið um sjálfbærni
þeirra hráefna sem þeir notuðu.
Þá hitti hann fólk sem var með
lista um sjálfbærni ýmissa efna
frá ráðgjafarfyrirtækjum. Þar var
hráefnum raðað eftir sjálfbærnimati
ráðgjafarfyrirtækjanna. Þessi maður
komst í þessa lista og þar var nælon
í efsta sæti hvað sjálfbærni varðaði
og náttúruleg ull í neðsta sæti.
Ég var svo á ráðstefnu í
Ungverjalandi þar sem þetta var til
umræðu og þar kom í ljós hvernig
í pottinn var búið. Þar var kona
frá Þýskalandi sem sýndi okkur
tölvupóstsamskipti hennar við
ráðgjafarfyrirtæki sem var að selja
ráðgjöf til fataframleiðenda um
hversu mikil sjálfbærni hráefnisins
sem þeir notuðu væri. Þessi kona var
að selja skinn og gat fengið það fært
upp um þó nokkra flokka á listanum
ef hún keypti bara auka ráðgjöf af
þessu fyrirtæki.
Þetta dæmi sýnir að menn eru
að kaupa stimplana sem til þarf.
Manni fallast eiginlega hendur
við að sjá þetta því maður veit að
peningamátturinn er svo ofboðslega
mikill hjá þessum stóru aðilum sem
eru að framleiða og selja gerviefnin.
Þeirra hagsmunir eru svo gríðarlegir
að einhverjir örfáir milljarðar evra í
sölu loðskinna segir ekki neitt miðað
við þá gríðarlegu fjármuni sem eru í
Björn Halldórsson að skoða skinn í uppboðshúsi Köpenhagen Fur í Danmörku 2014 ásamr þeim Karvel L. Karvelssyni, framkvæmdastjóra Ráðgjafarmiðstöðvar
landbúnaðarsins og Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands. Mynd / HKr.
Það er oft mikið handapat og fjör á skinnauppboðum í Kaupmannahöfn. Þarna eru kínverskir kaupendur mjög
áberandi. Mynd / HKr.
störfum í stjórn Síl um leið og Björn. Mynd / HKr.
– Framhald á næstu síðu.