Bændablaðið - 08.03.2018, Qupperneq 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018
Ísbúðin Ísleifur heppni hefur
vakið mikla athygli fyrir gott og
ferskt bragð hvar sem ísinn hefur
verið í boði.
Þar sem eitthvað sérstakt er um
að vera má alveg eins búast við því
að félagarnir frá Ísbúðinni Ísleifi
heppna séu á staðnum. Þannig var
það líka á Matarmarkaði Búrsins í
Hörpu um síðustu helgi. Þar sýndu
aðstandendur Ísleifs listir sínar
og buðu gestum og gangandi að
smakka ís sem er engum öðrum
líkur.
Á bak við Ísleif heppna
standa feðgarnir Einar Ólafsson
arkitekt, sem var á árum áður
þekktur skíðakappi frá Ísafirði, og
matreiðslumaðurinn Gunnar Logi
Malmquist Einarsson.
Þegar tíðindamann Bænda-
blaðsins bar að garði á Matarmarkaði
Búrsins sl. sunnudag voru Gunnar
Logi og Aron Garðar Másson að
gefa gestum ís að smakka.
Búðin er annars með aðsetur í
Hlemmi – Mathöll og hafa eigendur
einnig verið með eins konar „popup“
á hinum ýmsu viðburðum. Þannig
mátti sjá þá félaga á opnun á nýjum
sýningarsal Bílasölu Benna fyrir
skömmu og hafa þeir víða troðið
upp með sín tæki og tól. /HKr.
Eymundur Magnússon, bóndi
í Vallarnesi, stóð vaktina hjá
fyrirtæki sínu Móður jörð á
Matarmarkaði Búrsins um liðna
helgi ásamt Jóni Guðmundssyni
og Eygló Björt Ólafsdóttur.
Eymundur er landsþekktur
frumkvöðull í þróun margvíslegra
matarafurða úr íslensku hráefni.
Fyrir það hlaut hann m.a.
riddarakross hinnar íslensku
fálkaorðu á nýársdag 2012 fyrir
frumkvæði á sviði búskaparhátta
og matvælamenningar.
Eymundur, sem hóf búskap í
Vallarnesi 1979, sagði í samtali við
blaðamann að hann væri nú kominn
með í framleiðslu 100 vörutegundir.
Vantar bara tíma til að
vaxa meira
„Þetta hefur vaxið mikið og gæti
vaxið meira ef maður hefði tíma.
Það er eiginlega það eina sem
vantar núna, tíminn til að koma
nýjum hugmyndum á koppinn.
Þetta er mjög gaman. Áskorunin
hjá okkur er að rækta sjálf sem mest
af því sem við erum að framleiða.
Það er alltaf okkar fyrsta hugsun,
ef okkur dettur í hug að framleiða
einhverja nýja vöru, hversu stórt
hlutfall af hráefninu við getum
ræktað sjálf. Við reynum að hafa
aldrei minna úr okkar eigin ræktun
í hverri vörutegund en 50%.
Grunnurinn á bak við þetta allt er
ræktunarmaðurinn.“
Ræktun og framleiðsla
skapar sjö ársverk
Í dag eru um sjö ársverk í kringum
þessa starfsemi sem er býsna gott
á sveitabýli á hjara veraldar. Við
erum með þrjá starfsmenn yfir
vetrartímann sem eru að vinna við
bygg og framleiða súrkál og sultur.
Síðan fjölgum við í starfsliðinu
yfir sumartímann. Það eru mörg
handtök við þetta, en þetta er
líka mjög gaman. Það nýjasta er
repjuolía til matargerðar. Það er
kannski svolítið „exotískt“ hér
á Íslandi að koma með innlenda
matarolíu á markað. Auk þess að
nýtast beint í matargerð er hún
líka góð sem innihald í margar
aðrar afurðir. Við eigum eftir að
koma með fleiri útgáfur af þessari
repjuolíu og þá með kryddblöndum
sem dressingu.
Við erum með lítinn
veitingastað og þar steikjum við
buffin okkar upp úr repjuolíunni
og það virðist gefa þeim aukið
bragð. Það er svolítið gaman að
geta sameinað það sem við erum
að rækta og lokað hringnum beint
á disk neytenda,“ segir Eymundur.
/HKr.
MATVÆLI&MARKAÐSMÁL
Vaxandi áhugi er fyrir fullvinnslu bænda á afurðum sínum og fjölbreytnin er stöðugt að aukast. Þau stóðu vaktina í bás Móður jarðar á Matarmarkaði
Búrsins um liðna helgi. Talið frá vinstri: Eymundur Magnússon, bóndi í Vallarnesi, Jón Guðmundsson og Eygló Björt Ólafsdóttir. Mynd / HKr.
Eymundur Magnússon, bóndi í Vallarnesi:
Endalaus uppspretta frjórra hugmynda
um vörur úr íslenskum náttúruafurðum
Ísbúðin Ísleifur heppni kætir bragðlauka landans
til að sinna fyrirsætustörfum fyrir Bændablaðið. Mynd / HKr.