Slökkviliðsmaðurinn - 01.06.2003, Side 4
4
Leiðarinn
Vernharð Guðnason, formaður LSS
Vor í lofti
Nú þegar vorið er loksins komið og
reyndar samkvæmt dagatali komið
sumar þá lyftist brúnin á mörgum.
A þessu vori eru margar ástæður fyrir því að
íslenskir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn
kætast meira en venjulega. Þar ber fyrst að
nefna nýlega fallinn dóm hæstaréttar í máli
gegn einum félaga okkar sem hafði verið bor-
inn röngum sökum um áreiti við sjúkling á
meðan á sjúkraflutningi stóð. Jafn afdráttar-
laus sýknudómur hefur varla verið kveðinn
upp áður.
Þá hefur verið tekið skref í rétta átt með
gerð samkomulags við fjármálaráðuneytið um
kjör hlutastarfandi sjúkraflutningamanna. Eg
tel að vissulega hefði skrefið mátt vera stærra
að þessu sinni en góður áfangi náðist samt.
Það sem samninganefnd okkar þykir einna
verst er að ekki náðust í gegn greiðslur fyrir
bakvaktir. Við teljum að það álagsstundakerfi
sem notast er við sé mjög óréttlátt. Það er
ekki spurning í mínum huga að skuldbinding
þess sem fer 40 flutninga á ári er engu minni
en þess sem fer í 200 flutninga á ári. Báðir
þurfa að vera jafn mikið til taks þegar kallið
kemur. Við munum halda áfram á þeirri
braut að fá bakvaktir viðurkenndar og greitt
fyrir þær með sanngjörnum hætti. I því sam-
bandi má minna á tilskipun frá Evrópusam-
bandinu um þá sem vinna hlutastörf. Til stóð
að undirrita þá tilskipun í janúar síðastliðn-
um en af því varð þó ekki.
Ánægjulegar breytingar
Einnig var nýlega gengið frá bókun í kjara-
samningi sem snertir stjórnendur slökkviliða
í hlutastarfi. Þar var komið á nýju kerfi þar
sem mat er lagt á áhættuþætti hvers svæðis
fyrir sig og út frá því reiknuð greiðsla til
stjórnenda hvers slökkviliðs. Þetta nýja kerfi
hefur ótvírætt marga kosti og þá kannski
þann helstan hversu sveigjanlegt það er og
auðvelt að laga það að þeim breytingum sem
kunna að verða á þeim áhættuþáttum sem
glíma þarf við hverju sinni. Það er sömuleiðis
ánægjulegt að greiðslur til stjórnenda hækka
töluvert í langflestum tilfellum og enginn
mun lækka frá því sem nú er.
I undirbúningi er ferð um landið til að
hitta bæði sjúkraflutningamenn og slökkvi-
liðsmenn og kynna þeim þessa nýju samn-
inga. Þegar þetta er skrifað er ákveðið að
Grindavík verði fyrst heimsótt og síðan
Norðurland.
Fleiri ánægjulegar breytingar hafa orðið í
umhverfi okkar sem störfum í þessum mála-
flokkum. Það er sérstaklega ánægjulegt að hjá
einu af stærri slökkviliðum landsins, Slökkvi-
liði Akureyrar, hafa verið ráðnir nýir yfirmenn,
slökkviliðsstjóri og aðstoðarslökkviliðsstjóri,
báðir menn sem hlotið hafa sína menntun í
gegnum störf sín í slökkviliðum. Það er mikil-
vægt að með þessum hætti er viðurkennd sú
menntun, þjálfun og reynsla sem menn byggja
ofan á sína grunnmenntun innan slökkvilið-
anna. Ég vil leyfa mér að óska Erlingi Júlínus-
syni slökkviliðsstjóra og Ingimari Eydal vara-
slökkviliðsstjóra til hamingju og óska þeim
velfarnaðar í starfi.
Sveitarfélög annist sjúkraflutninga
I tengslum við gerð samkomulags fyrir hluta-
starfandi sjúkraflutningamenn hefur komið
upp sú umræða hvort ekki sé athugandi að
sveitarfélögin taki að sér rekstur sjúkraflutn-
inga með samningum við ríkið þar um. Ymis
rök eru fyrir slíkri breytingu. Má þar nefna
til dæmis betri nýtingu á mannskap og fjár-
munum með því að fela slökkviliðum verk-
efnið. Með þannig fyrirkomulagi er kominn
grundvöllur fyrir atvinnuslökkvilið í
nokkrum sveitarfélögum til viðbótar þeim
sem fyrir eru. Þá má benda á að í flestum
stærstu sveitarfélögum landsins eru samning-
ar í gildi við ríkið þar sem slökkviliðin sjá um
framkvæmd sjúkraflutninga. Þessi umræða er
orðin tímabær og er enginn vafi í mínum
huga um að þannig fyrirkomulag myndi
styrkja okkur faglega og um leið stórbæta
þjónustuna við íbúana, hvort sem um er að
ræða sjúkraflutninga eða slökkvistörf.
Við setningu laga um brunavarnir og
brunamál voru ákveðin verkefni skilin eftir í
óvissu. Þar á ég við björgunartæki vegna
klippivinnu til björgunar úr bílflökum. Sú
staðreynd blasir við í dag að í langflestum til-
fellum eru það slökkvilið landsins sem sinna
þeim mikilvægu störfum. Það hlýtur því að
verða krafa okkar á komandi mánuðum að
bragarbót verði gerð þar á.
Ágætu félagar. Margt jákvætt hefur gerst í
starfsumhverfi okkar á undanförnu ári. Engu
að síður er margt eftir ógert. Það er því gríð-
arlega mikilvægt að allir slökkviliðs- og
sjúkraflutningamenn finni sig í að vera sam-
einaðir í einum samtökum og taki virkan
þátt í áframhaldandi uppbyggingu og þróun
þeirra hagsmunamála sem snerta okkur öll.
Það kann ekki góðri lukku að stýra að kúldr-
ast hver í sínu horni. Ég óska ykkur og fjöl-
skyldum ykkar sem og landsmönnum öllum
gleðilegs sumars.
Vernharð Guðnason
formaður Landssambands slökkviliðs- og
sjúkraflutningamanna
Slökkviliðsmaðurinn