Spássían - 2011, Qupperneq 42
42
Skáld mála ljóðmyndir af sjálfum sér
í hálfgerðu óhófi – bera sig og afhjúpa,
rýna í sálir sínar öskrandi og hjalandi á víxl og
leggja blæðandi hjörtu sín á borðið svo aðrir megi
sjá hve þau þjást. Og þau mála ljóðmyndir af náttúrunni allt
um kring – spegla sig og heiminn gervallan í lækjarsprænum,
hvirfilbyljum, fjallgörðum, hafinu, húsum og skipum og skepnum.
En þau mála líka myndir af öðrum – bestu ástarljóðin eru
líklega þau sem mála hinn elskaða en þau verstu hin sem ná
aldrei út fyrir tilfinningasemi skáldsins. Það flýr enginn sjálfan
sig, en öllum er hollt að gefa öðrum hlutdeild í sér – það er
auðvelt að verða ástfanginn af eigin tilfinningum en erfitt að
elska aðra. Auk þess má mín vegna halda því fram að enginn
sé fær um að elska einn – óendurgoldin ást sé einfaldlega ekki
til. En ég er áreiðanlega til í að gefa mig með það ef á mig er
gengið. En það breytir því ekki að hið expressjóníska ástarljóð
er eins konar rúnk á almannafæri.
* * *
Ef ég segði honum kynni hann við það. Kynni hann við það
ef ég segði honum.
Kynni hann við það kynni Napóleón kynni Napóleón
kynni kynni hann við það.
Ef Napóleón ef ég segði honum ef ég segði honum
ef Napóleón. Kynni hann við það ef ég segði honum ef
ég segði honum ef Napóleón. Kynni hann við það ef
Napóleón ef Napóleón ef ég segði honum. Ef ég segði
honum ef Napóleón ef Napóleón ef ég segði honum. Ef
ég segði honum kynni hann við það kynni hann við það ef
ég segði honum.
Núna.
Ekki núna.
Og núna.
Ef ég segði honum eftir Gertrude Stein frá árinu 1923 er ljóð um
og fyrir listmálarann Pablo Picasso. Hann er ekki nefndur á nafn
í ljóðinu, hann er ekki ávarpaður og kemur ekki beint við sögu á
nokkurn hátt. Það mætti jafnvel spyrja: Hvað í ósköpunum hefur
þetta með Pablo Picasso að gera?
Ljóðið er eitt af mörgum portrettum sem Gertrude Stein málaði
af misfrægum samferðamönnum sínum – en líkt og alkunna er
var hún hjartað í lista- og bókmenntakreðsum Parísarborgar
á þriðja og fjórða áratugnum. Picasso var sjálfsagt þeirra
frægastur og alveg áreiðanlega sá sem stóð henni næst.
* * *
Ó þú, sem elskuð ert af mínum tuttuguogsjö
skilningarvitum, ég
elska þér! – Þú þína þig þér, ég þér, þú mér.
– Við?
Þetta á annars (í framhjáhlaupi) ekki að vera hér.
Hver ert þú, ótalda kvenpersóna? Þú ert
- - ert þú? – Fólkið sagði að þú værir – leyfum
– því segja, það veit ekkert hvað kirkjuklukkan slær.
Þú berð hattinn á fótum þér og gengur
á höndum, á höndunum gengur þú.
Anna Blóm eftir Kurt Schwitters frá árinu 1919 er portrett af
óþekktri konu sem var líklega aldrei til. Höfundurinn (ég meina
„ljóðmælandinn“!) er ekki einu sinni viss um tilvist þessarar
ástkonu sinnar, sem hann málar engu að síður svona sterkum
litum, svona sterkum tilfinningum. Ljóðið sló umsvifalaust í gegn
og ku hafa gert Schwitters að frægum manni á einni nóttu. En
Textar
sem
dansa
aðra
orðum
Eftir
Eirík Örn Norðdahl
Pablo Picasso. Gertrude Stein. 1905-6.