Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.01.2020, Page 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.01.2020, Page 10
HEILBRIGÐISMÁL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26.1. 2020 lagslegra og fjárhagslegra ástæðna. Ég er heppinn með það að ég hef tollað í vinnu, en síðasta ár missti ég töluvert úr, eða tvo mán- uði,“ segir hann. „Núna sé ég ekki fram á að geta unnið fulla vinnu og ætla að reyna á það að vera í hlutastarfi. Í dag get ég ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem ætlast er til af mér. Fyrir 41 árs mann með þrjú börn er það ansi erfiður biti að kyngja.“ Eitt stórt leikrit Sveinn var vanur að stunda líkamsrækt og hljóp jafnvel maraþon áður en veikindin gerðu vart við sig. Í dag segist hann teljast góður ef hann kemst út í búð. „Um daginn var ég á fótboltamóti með dótt- ur minni þar sem hver leikur stóð yfir í tíu mínútur. Ég átti mjög erfitt með að standa í tíu mínútur. Bara að standa!“ En hvernig líður þér að sitja hér í viðtali? „Mér líður ekki vel, eiginlega mjög illa. Mér líður best liggjandi. Þetta er eins og að vera með flensu. Það er veikindatilfinning í öllum líkamanum. Ég er búinn að vera svona bráðum í fimm ár, um 1.800 daga. Það er farið að taka toll; ég er búinn á því. Þetta er eins og að vera með flensu í fimm ár,“ segir hann. „Á sama tíma er ég að reyna að standa mig í lífinu, að reyna að vera virkur í vinnu og heima. Það halda allir að ég sé ofvirkur, en ég er akkúrat á hinum endanum. Þetta er eitt stórt leikrit. Þannig að eins og ég sagði er ég fyrst núna að segja frá. Ég þarf að sætta mig við sjálfan mig þannig að ég er í ákveðnu upp- gjöri núna. Ég er líka að berjast við mína eigin fordóma. Er ég langveikur? Er ég sjúklingur? Er ég hugsanlega að verða öryrki? Ég?“ Fleiri eru í hans sporum hér á landi því um 150 hafa greinst með sjúkdóminn. Morgunblaðið/Ásdís „Ég er ekki að leita eftir vorkunn, alls ekki. Ég er frekar að fella grímuna til þess að fá fleiri til að koma fram. Kannski er þetta köllun mín; upphaf- ið að einhverju öðru,“ segir Sveinn Benediktsson Dr. James N. Baraniuk kom til Íslands ívikunni til að tala á Læknadögum umsjúkdóm sem Læknafélag Íslands tel- ur að kynna verði betur, bæði fyrir læknum og almenningi. Hann settist niður með blaða- manni til að leiða hann í allan sannleikann um sjúkdóminn, eða svo langt sem hann nær, því heimsins færustu læknar og vísindamenn hafa enn ekki komist til botns í ME/CFS (Myalgic encephalomyelitis/chronic fatigue syndrome). Einkennin eru mörg og flókin og sum þeirra skarast á við aðra sjúkdóma, svo sem við vefja- gigt. Oft eru því sjúklingar ranglega greindir eða þeim jafnvel ekki trúað. Nauðsynlegt er að rannsaka þennan sjúkdóm miklu betur og von- ast Baraniuk eftir að einn daginn verði hann skilinn til hlítar. Skiljum ekki hvað veldur „Læknar eiga oft erfitt með að greina sjúk- dóminn en ef maður gefur sér góðan tíma til að skoða viðmiðin þá á það ekki að vera svo erfitt. Sjúklingarnir vita oft miklu meira en læknarn- ir og þá er bara að vona að þeir lendi á lækni sem er tilbúinn að hlusta. Oft er hægt að með- höndla ákveðin einkenni sjúkdómsins og léttir það á byrðinni sem sjúklingur ber. Þannig er hægt að meðhöndla einkennin en ekki lækna sjúkdóminn,“ segir Baraniuk. Vita læknar í dag hvað veldur sjúkdómnum? „Það virðist vera að í vissum hluta tilvika komi hann í kjölfar sýkinga og í sumum til- vikum birtist hann skyndilega. Við vitum í raun ekki hvað veldur. Aðrir virðast fá sjúkdóminn hægar og þá ágerist hann kannski á lengri tíma. Og svo batnar þeim ekkert,“ segir hann. „Þetta getur gengið í erfðir; það höfum við séð. Við myndum gjarnan vilja vinna með Ís- lenskri erfðagreiningu til að geta betur svarað þeim spurningum um hvort þetta liggi í gen- unum. Þeir hafa ekki hingað til skoðað sér- staklega ME/CFS en þeir hafa skoðað vefja- gigt og aðra króníska verkjasjúkdóma,“ segir Baraniuk og telur hann Ísland besta stað heims til að skoða slík mál þar sem gagna- grunnur Íslenskrar erfðagreininga sé stór og landið fámennt. „Til að greina sjúkdóminn eru oft lagðir staðlaðir spurningalistar fyrir fólk en hér á landi, með góðum gagnagrunni og góðu heil- brigðiskerfi, er tækifæri til að skrá niður öll tilvikin og finna út hver þjáist af síþreytu og af þeim hver uppfyllir þau skilyrði sem þarf til að teljast vera með ME/CFS. Það er hægt að skrá niður hver þjáist af þreytu, mígreni, verkjum, hröðum hjartslætti, og meltingar- færaeinkennum svo sem niðurgangi. Hér væri frábært tækifæri til að búa til góðan gagna- grunn um fólk sem haldið er sjúkdóminum. Ís- lendingar hafa tækifæri til að vera í farar- broddi í því að byrja að skilja sjúkdóminn.“ Finna meira til Baraniuk hefur stýrt rannsóknum sem skoðað hafa hvað gerist í heila sjúklinga sem haldnir eru ME/CFS og voru þeir látnir taka próf á meðan á rannsókninni stóð. „Við höfum séð svæði í heilanum sem vinna ekki sem skyldi í þessum sjúklingum; svæði sem stjórna ómeðvitaðri ákvarðanatöku, eins og að hörfa þegar hætta steðjar að. Þegar þetta svæði virkar ekki rétt getur það stuðlað að kvíða, áfallastreitu og krónískum verkjum. Sjúklingar með ME/CFS þola sársauka verr en aðrir. Ef venjuleg manneskja myndi setja hönd í ískalt vatn er það óþægilegt en fyrir manneskju með ME/CFS ylli það óbærilegum sársauka,“ segir hann. „Svipað gerist hjá fólki með vefjagigt; það fólk er mun viðkvæmara fyrir sársauka.“ Er ME/CFS skylt vefjagigt? „Fólk með vefjagigt þjáist einnig af ofur- þreytu, minnistruflunum og rofnum svefni. Það eru svipuð einkenni eins og hjá fólki með ME.“ Er það þá sami sjúkdómur? „Ég veit það ekki. Við þurfum að viðurkenna að þarna eru vissulega sameiginlegir þættir og við þurfum að skoða undirliggjandi ástæður. Við þurfum líka að skoða alla aðra hluta lík- amans og skoða til dæmis hvort það finnst eitt- hvað í genunum sem veldur þessum einkenn- um,“ segir hann. „Sjúkdómurinn hefur liðið fyrir það að vera tengdur við, eða misskilinn sem þunglyndi. Ástæðan fyrir því er að helmingur af þung- lyndissjúklingum upplifir þreytu og það er til hópur fólks sem trúir að fyrst svo sé, hljóti þreytt fólk að vera þunglynt. Það er rangt. Flestir sem þjást af ME/CFS eru hvorki þung- lyndir né sorgmæddir,“ segir hann og útskýrir sjúkdóminn nánar. „Eitt aðaleinkenni sjúkdómsins er það að fólk þreytist við áreynslu. Þá er ég að meina að ef manneskja gerir aðeins meira en venju- lega þá liggur hún rúmföst næstu daga. Hún getur ekki farið fram úr, ekki lesið blað, ekki reiknað reikningsdæmi né munað hvað hún var að lesa. Hún er með verki og óþægindi. Það er þetta sem gerir sjúkdóminn sér- stakan,“ segir hann. „Verkirnir eru alls staðar í líkamanum, frá toppi til táar. Þú veist aldrei hvar verkirnir birtast næst og oftar en ekki eru þyngsli og verkir í öllum líkamanum.“ Akureyri og Persaflói Íslandsveikin, sem Akureyrarveikin er kölluð í alþjóðlegu vísindasamfélagi, var faraldur á Akureyri um miðja síðustu öld. Einkenni sjúk- dómsins eru svipuð og hjá fólki með ME/CFS. Talið er að fjórðungur þeirra sem fengu veik- ina hafi aldrei náð sér og aðeins 15% náðu sér að fullu. Hin 60% hafa upplifað einhver ein- kenni. „Þarna átti sjúkdómurinn upptök; eitthvað gerðist og margt fólk veiktist og margir náðu sér aldrei. Hvað olli veikinni munum við senni- lega aldrei fá að vita. Það er merkilegt að sum- ir náðu sér að fullu en aðrir ekki, sem segir okkur að þetta var alvörusjúkdómur. Þetta gæti hafa verið veira, baktería, sveppaeitrun, eða matareitrun, Við vitum það ekki enn. En eitthvað varð þess valdandi að hópur fólks fékk ME/CFS, eða það sem líkist því,“ segir Baraniuk og nefnir að læknar víða um heim hafa haft mikinn áhuga á þessum faraldri sem virðist hafa verið undanfari ME/CFS. Eins hafa læknar mikið skoðað það sem kallast Persaflóðastríðssjúkdómurinn (Gulf War Ill- ness). Hermenn úr Persaflóðastríðinu árin 1990-91 fóru margir hverjir að upplifa ein- kenni sem svipaði til einkenna fólks með ME/ CFS. „Sjö hundruð þúsund Bandaríkjamenn voru í stríðinu og unnu við hræðilegar aðstæður. Vissulega var vinnan afar taugatrekkjandi í steikjandi hita, en nú bendir allt til að um fjórð- ungur af bandarísku hermönnunum hafi veikst vegna efnavopna. Það hefur síðan verið að koma í ljós um hvaða efni hafi verið að ræða og hvaðan þau hafi komið. Það var samt afar erfitt fyrir Bandaríkjaher að viðurkenna að það væri ekki allt að ganga sem skyldi, enda var þeim mikið í mun að breyta þeirri ímynd sem hafði skapast eftir hrakningana í Víetnamstríðinu. Hvað myndi gerast ef einn af fjórum þing- mönnum í Bandaríkjunum myndi veikjast, eða einn af fjórum bankamönnum á Wall Street? Myndum við blása til allsherjarrannsókna eða myndum við gera eins og við gerðum við þessa hermenn; segja þeim að þetta væri allt í höfð- inu á þeim. Sextíu prósent af þessu veika fólki hafa fengið að heyra það. Sama á við annað fólk með ME/CFS. Læknarnir hafa ekki næga þekkingu til að greina sjúkdóminn og skilja hann ekki. Því er gjarnan haldið fram að það sé eitthvað að þessu fólki andlega.“ Þú nefndir ákveðið svæði í heilanum sem leit öðruvísi út hjá fólki með ME/CFS en öðrum. Er mögulegt að eitthvað hafi gerst í þessum ákveðnu hluta heilans hjá fólkinu á Akureyri Verkir frá toppi til táar Bandaríski ofnæmis- og lyflæknirinn dr. James N. Baraniuk talaði um sjúkdóminn ME/CFS á Læknadögum í vikunni. Sjúkdómurinn er enn mikil ráðgáta. Baraniuk vill sjá Íslendinga taka forystu í rannsóknum á sjúkdóminum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.