Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.03.2020, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.03.2020, Blaðsíða 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22.3. 2020 Í útvarpinu þessa dagana ómar lagið Sideways og hefur gert síðustu mánuði. Þetta er eitt af þessum lögum sem nær manni strax og áður en maður veit af er maður farinn að raula með í umferðinni. Við nánari athugun fann blaðamaður það út að lagið er alls ekki erlent heldur samið og sungið af Sigrúnu Stellu Haraldsdóttur sem búsett er í Kanada þar sem hún hefur búið meirihluta ævinnar. Hin alíslenska Sigrún átti ekki í vandræðum með að spjalla óaðfinnanlega á hinu ástkæra yl- hýra tungumáli þegar blaðamaður sló á þráð- inn í vikunni. Áður en við ræddum lífið og tónlistina var byrjað á klassískri spurningu. Hvað segir þú gott? „Ég segi nú bara ágætt, svona miðað við það sem er að gerast í heiminum. Það hefur margt breyst á síðustu tveimur dögum hér í Toronto, þetta er eins og draugaborg.“ Ísland er heim Sigrún bjó sem barn og unglingur á Akureyri en endaði í Toronto. Í stuttu máli fékk faðir hennar, Haraldur Bessason, prófessorstöðu við háskólann í Manitoba löngu áður en hún fædd- ist. Síðar kynntist hann móður hennar og bjuggu þau í Kanada, en Sigrún er fædd í Winnipeg. „Svo þegar ég er um sex, sjö ára flytjum við til Akureyrar þegar pabbi fær boð um að hjálpa til við að stofna háskólann á Akureyri og varð hann síðar rektor þar. Ég var sú eina sem fór með þeim heim því ég er svo langyngst, en öll hálfsystkini mín urðu eftir í Kanada. Þannig að ég ólst upp á Akureyri og kláraði þar menntaskóla. Þegar ég er 21 árs ákvað ég að fara til Kanada og vera þar í eitt ár við háskólanám en það teygðist úr því. Á þeim tímapunkti voru mamma og pabbi hætt að vinna þannig að þau fluttu aftur út til Kanada, enda voru þar öll börn þeirra og barnabörn,“ seg- ir hún og segist því hafa ílenst í Kanada. „Mér finnst Ísland alltaf vera heim en ég er samt búin að búa mun lengur í Kanada en á Ís- landi. En auðvitað var ég á Íslandi öll mótunar- árin og á þar bæði frændfólk og stóran vin- kvennahóp, sem eru eins og systur mínar. Svo á ég líka góðan vinahóp hér þannig þetta er bara eins og að eiga tvo heima. Pabbi sagði að ég þyrfti ekkert að velja; ég ætti tvo heima. Ég græddi á því. En ég kem alltaf heim á sumrin og er í tvo mánuði.“ Ætlaði að verða körfuboltastjarna Tónlistaráhuginn var strax til staðar í æsku. „Ég hef spilað á píanó síðan ég var lítil. Ég byrjaði þriggja ára að hlusta látlaust á tónlist. Strax sem smábarn var ég farin að hlusta á Barbru Streisand alveg endalaust, sömu lög aftur og aftur. Lá með heyrnartólin heilu dag- ana. Foreldrunum fannst þetta frekar skrítin hegðun,“ segir Sigrún og hlær. „Ég var alltaf eitthvað að semja og spila fyrir vini og fjölskyldu. Ég reyndi að fara í tónlistar- skóla en ég átti svo erfitt með að einbeita mér,“ segir hún og nefnir að mögulega sé hún með ógreindan athyglisbrest. „Ég átti alltaf erfitt með að lesa nótur en ég spila allt eftir eyranu. En í skólanum var það ekk- ert í boði. Ég fór alltaf heim og hlustaði á mömmu spila og spilaði svo eftir eyranu. Ég hef aldrei lært almennilega að lesa nótur.“ Þegar þú fórst svo til Kanada eftir menntó, fórstu þá beint í tónlistarnám? „Nei, ég ætlaði sko að verða körfubolta- stjarna! Ég ætlaði í háskóla og æfa körfubolta og vera aðal NBA-gellan,“ segir hún og skelli- hlær því það fór ekki alveg svo. „Ég var þarna 21 árs með einhverja furðu- lega drauma.“ Varstu góð í körfubolta? „Nei. Alls ekki. Ég ætlaði í prufu í háskól- anum og gekk inn og sá að allar stelpurnar voru höfðinu hærri en ég. Ég var pínulítil mið- að við þær. Ég misskildi þetta aðeins; ég var bara einhver stelpa frá Akureyri sem var búin að spila nokkrum sinnum með Þór. Ég labbaði einn hring, fór út og grenjaði alla leiðina heim. Guðrún systir mín stakk upp á að ég myndi snúa mér að einhverju öðru. Þannig að sá draumur dó,“ segir hún hlæjandi. Rosalega lélegur gítarleikari Sigrún fékk sér þá vinnu á veitingastað í hverf- inu og kynntist þar mörgu tónlistarfólki. Hún segist efast um að hún hefði endað í tónlist ef hún hefði ekki fengið þessa vinnu. „Allir sem unnu þarna voru í tónlist og þarna kynntist ég manninum mínum líka. Ég datt þarna inn í öðruvísi vinahóp; hóp tónlistar- krakka. Ég var enn bara að spila á píanó þarna en byrjaði að spila á gítar löngu seinna. Ég er rosalega lélegur gítarleikari. En ég spila samt á gítarinn,“ segir hún. Í gegnum veitingastaðinn kynntist hún manni sem bauð henni að taka upp lög í stúdíói og boltinn fór að rúlla. Nú ertu með flotta rödd, vissir þú þarna að þú værir söngkona? „Mér finnst ég ekki vera söngkona, heldur frekar lagahöfundur. En jú, ég er að syngja,“ segir hún og hlær. Þannig að þú spilar á gítar og syngur en ert hvorki gítarleikari né söngkona? Sigrún skellihlær. „Já, segðu það bara! Og svo er ég samt að gefa út lög. Og það gengur bara ágætlega. Ég sem allt sjálf og finnst það mjög gaman. Mér finnst ég hafa lært mikið síðasta ár- ið og ég er að semja á annan hátt en áður. Það er kannski af því ég er komin með góða hljómsveit á bak við mig. Nú sem ég meira með hljómsveitina í huga og hef lært heilmikið af þeim.“ Ómar alla daga „Ég byrjaði í raun ekki í þessum bransa fyrr en 2013. Þá gaf ég út alveg glatað lag en við þurf- um ekki að ræða það. Ég gaf út eina plötu, Crazy Blue, sem mér finnst hræðileg. Ef ein- hver á geisladiskinn ætla ég að mæta heim til viðkomandi og taka diskinn aftur,“ segir hún og hlær. „Næsta plata var King’s Park og ég er alveg ánægð með hana. Svo gaf ég út Sideways á smáskífu og það hefur fengið þessa miklu spil- un heima og er að byrja á CBC (Canada Broad- casting Corporation) hér úti. Kanada er svo stórt en lagið hefur fengið spilun í Ontario, Alberta og Manitoba. Ég finn að það er að byrja að heyrast og lagið er að ná flugi hér.“ Sigrún segist hafa sent lagið Sideways heim í desember og bjóst ekki við neinu. „Ég heyri frá vinkonum mínum að þetta ómi alla daga. Þær segja mér að þetta sé komið gott!“ segir hún og hlær. Spurð um áhrifavalda í tónlist segir Sigrún það helst vera Leonard Cohen. „Hann er rosalegur; textarnir hans eru ótrú- legir. Hann er goðið. Cohen er auðvitað vel þekktur í Kanada, enda Kanadamaður. Ég fór samt ekki að hlusta á hann fyrr en fyrir um fimm, sex árum. Það er ótrúlegur tónn í rödd- inni hans. Ég er mjög veik fyrir svona röddum. Lagið mitt One Trick Pony er undir áhrifum frá Cohen,“ segir hún. „Svo er ég mjög hrifin af Júníusi Meyvant og Mugison. Mugison kom og spilaði hér í Toronto og sló í gegn! Hann átti gjörsamlega salinn.“ Dreymir ekki um heimsfrægð Í dag lifir Sigrún af tónlistinni en hún er með samning við útgáfufyrirtæki í London og vinn- ur mikið að því að semja lög fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Hún og eiginmaður hennar, Michael Andrew Dilauro, eiga og reka tón- listarstúdíóið South River Sound þar sem hún vinnur við að semja lög alla daga. „Ég er búin að vera að vinna fyrir þetta fyrirtæki nú í eitt ár og það breytti alveg lífi mínu. Nú vinn ég eingöngu að tónlist,“ segir hún. „Þeir eru svo með verkefni úti um allan heim,“ segir hún og bætir við að hún hafi áður lært nokkurs konar viðskiptatónlistarnám. „Í dag sé ég ekki fyrir mér að vinna við neitt annað. Ég get setið allan daginn með míkrófón- inn við tölvuna og dagurinn líður eins og einn klukkutími.“ Hvað er framundan? „Ég mun spila á Bræðslunni í sumar, í lok júlí. Ég mæti ef þetta verður. Maður veit ekki hvernig heimurinn mun líta út þá. Mögulega spila ég líka á Airways en það er ekki alveg víst. Svo er ég að spá í að gefa út litla plötu með fimm, sex nýjum lögum og kalla hana kannski Sideways. Ég held ótrauð áfram og er í stuði. Það eru að opnast tækifæri út af þessu lagi og mikill heiður að fá spilun hjá CBC, Bylgjunni og Rás 2.“ Langar þig að verða heimsfræg? „Nei. Ég vil bara vera í stúdíóinu og fela mig heima í sófanum. Það er verið að biðja mig um að fara á túr og hita upp fyrir stærri bönd en túrinn er svakalegur; stanslaus keyrsla í rútum og flugvélum í fimm, sex mánuði. Ég er fertug og mér finnst gott að vera heima hjá mér. Mögulega fæ ég að hoppa inn í túrinn á ein- hverjum tímapunkti. Hljómsveitin mín er til og bíður eftir grænu ljósi frá mér. Ég hef alltaf verið svakalega heimakær en auðvitað langar mig alveg að spila á stóru flottu sviði. Þetta kemur í ljós; þetta er mjög spennandi.“ „Strax sem smábarn var ég farin að hlusta á Barbru Streisand alveg endalaust, sömu lög aftur og aftur. Lá með heyrnartólin heilu dagana. Foreldrunum fannst þetta frekar skrítin hegðun,“ segir Sigrún Stella. Ljósmynd/Jen Squires Hvorki gítarleikari né söngkona Í Toronto í Kanada býr hin íslenska Sigrún Stella Haraldsdóttir. Hún vinn- ur alla daga að tónlist sinni og á í dag vinsælt lag, Sideways, sem er að gera það gott bæði hér á landi og í Kanada. Sigrúnu dreymir ekki um frægð og frama heldur vill hún eyða dögum sínum í stúdíóinu að semja tónlist. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is ’ Í dag sé ég ekki fyrirmér að vinna við neittannað. Ég get setið allandaginn með míkrófóninn við tölvuna og dagurinn líður eins og einn klukkutími.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.