Samtökin '78 - Úr felum - 01.07.1985, Blaðsíða 36

Samtökin '78 - Úr felum - 01.07.1985, Blaðsíða 36
gosa-blæ, að mínu mati. Það verður svo til þess að ýta undir þá fordóma, sem fyrir eru í ykkar garð, eins og t.d. að kynlíf sé aðalatriðið í þessu máli. Ég skil vel að þið viljið vega upp á móti hinni heterósexúelu ímynd, sem telst birtingarhæf í hinni hefðbundnu pressu hér á landi (við kvenréttindakonur höfum líka oft fundið hjá okkur hvöt til þess að gagnrýna það að berar konur má einatt líta á síðum dagblaða hér, en karlmenn aldrei sýndir í allri sinni nekt), en ég held ekki að rétt sé að blanda þessu inn í blað um ykkar réttindamál. Þó ekki væri nema vegna þess að það fælir fólk frá því að kaupa blaðið, vegna þess að það heldur að greinarnar séu einhver „sori”. Og þetta er að öllum lík- indum einmitt fólki, sem mest þarf á því að halda að kynnast því óréttlæti sem þið þurfið að búa við og að kynnast lífi ykkar þannig í gegnum hinar málefnalegu greinar ykkar og viðtöl. Þetta fólk hefur kannski ein- hvers staðar flett eintaki af blaðinu, eða fær ímynd sína jafnvel eingöngu af forsíðunni (sem mér fannst að vísu góð á síðasta eintaki), og gengur þess vegna með merkissvip fram hjá blaðasölum ykkar og vill ekki láta Gunnu í næsta húsi sjá til sín við kaup á öðru eins „klámi”. Hvað þá að hægt væri að láta blaðið liggja á glámbekk í stofunni þar sem barnapíur og annað fólk gæti farið að virða myndirnar fyrir sér. Sem sagt: Látið ekki fólk neita að kaupa blaðið ykkar á röngum for- sendum, eða finnast það þurfa að pukrast með það eins og Tígulgos- ann / Sannar sögur / Playboy / Playgirl etc. Málstaðurinn er of mikilvægur til þess að blaðið liggi óhreyft á lager hjá ykkur, eða sé falið í sokkaskúffunni í kommóð- únni. Að endingu vil ég biðja afsökunar ef svo kynni að vera að ég sé hér að koma með skoðanir og rök, sem löngu eru útrædd mál í ykkar hópi, sem þurfið að heyja baráttuna. Ég dæmi þetta auðvitað sem algjör amatör, sem ekkert er inni í umræð- unni, og gæti þess vegna verið ómeðvituð um einhver merk rök fyrir því að blaðið er eins og það er og ekki öðruvísi. Baráttukveðja, Jónína. I leit að sjálfum sér Jónína. Kærar þakkir fyrir að ómaka þig að senda okkur bréf, og fyrir hrósið og athugasemdirnar. Mig langar til þess að taka hér afstöðu til eins atriðis í bréfinu, sem er reyndar höfuðefni þess. Mig langar til þess að útskýra hvers vegna mér féll sagan „Stefnumót að óséðu” svo vel í geð, og hvers vegna mér finnst hún eiga erindi í blaðið okkar, Úr felum. Blaðinu eru ætluð fjöldamörg hlutverk. Vissulega er mikilvægt, og verður ekki lögð of mikil áhersla á það, að fræða samfélagið um stöðu lesbía og homma í því, um réttinda- og framfaramál. Málefnalegum greinum í blaðinu er beint jöfnum höndum til samfélagsins alls og til lesbía og homma. En blaðið er líka vettvangur fyrir skoðanaskipti okkar á milli og við áskiljum okkur að sjálfsögðu allan rétt til að ræða opinskátt saman og tala hreint út. Og svo er blaðið farvegur til þess að miðla til lesbía og homma sjálfs- þekkingu og sjálfstrausti svo að hver og einn einstaklingur í okkar hópi eigi kost á farsælu lífi sem lesbía eða hommi. Það er sannfæring mín, að það sé forsenda fyrir því, að maður geti tekið málefnalega afstöðu og öðlast pólitíska sannfæringu sem meðvitaður hommi, að hafa náð tökum á ástalífinu. Að ætlast til þess af lesbíum og hommum að þau láti ástalífið liggja milli hluta en snúi sér að réttindabaráttunni væri himin- hrópandi ósanngjarnt og lýsti miklu skilningsleysi. Það væri að nefna köku þegar hrópað er á brauð. — Jafnframt er okkur öllum vel kunn- ugt að í íslensku samfélagi hafa les- bíur og hommar ekki átt kost nokk- urra fyrirmynda til þess að haga lífi sínu eftir. Það hefur verið munaður gagnkynhneigðra að alast frá blautu barnsbeini upp við málfar, heimilis- aðstæður, opinská mannleg sam- skipti, umræðu, fjölmiðlun, og listir, þar á meðal bókmenntir, smá- sögur, já, ástarsögur, sem býr þá undir lífíð. „Stefnumót að óséðu” finnst mér góð smásaga, skemmtilega byggð upp og full af kímni. Og svo mátti flytja atburði hennar úr framandi stórborg, London, heim í hið ís- lenska Breiðholt. Með því að fræða íslenska lesendur um að það er hægt að lenda í ánægjulegum ævintýrum hér á skerinu. Að sagan skuli vera að hluta til erótísk þykir mér til bóta, erótíkin er ekki til þess að fara í felur með. Hún getur þvert á móti gert gæfumuninn í lífi sérhverrar manneskju, og lesbíur og hommar mega allra síst við því að afneita henni, með því gengju þau langleið- ina að afneita sjálfum sér. Mér er vel kunnugt um afstöðu sumra femínista til erótísks innihalds í máli og mynd. Ég get fallist á þau sjónarmið þeirra að því leyti að mér fellur ekki þegar ein manneskja niðurlægir aðra, en ég vil minna á að mjög mikill hluti þess sem fellur undir erótískar bókmenntir kemur því ekkert við. „Stefnumót að óséðu” er saga um gleðileg mannleg samskipti og sama er að segja um þær Ijósmyndir í blaðinu sem kalla mætti erótískar, þeim er ætlað að miðla gleðitilfinningu til lesenda, til- fmningu sem eykur þeim sjálfstraust til þess að upplifa það sem þeir þrá — en láta á móti sér allt of margir. Ég treysti því að þér sé nú ljóst hvers vegna það er hluti ritstjórnar- stefnu blaðsins að birta sögu sem „Stefnumót að óséðu” og fallegar myndir sem sýna vináttu og ást. Með vinsemd Guðni Baldursson Þessi auglýsing kom frá samtökum samkynhneigðra Aðventista í Los Ang- eles, skrifuð á dönsku og birtum við hana óbreytta: INTET I VERDEN kan helt sammenlignes med at vokse op som Adventist og sá opdage, at man er homoseksuel. Vi har altid lært, at disse to ting er moralske modsætninger. Men vi i SDA Kinship tror, at vor Gud givne seksu- alitet og vor kristne tro kan forenes. For oplysning, skrif til: P.O.B. 3840-NO, Los Angeles, CA. 90078-3840, U S A. Vedlæg to IRC’s. 100% diskretion sikret! 36

x

Samtökin '78 - Úr felum

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samtökin '78 - Úr felum
https://timarit.is/publication/1489

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.