Samtökin '78 - 40 ára afmælisrit Samtakanna '78 - 01.06.2020, Page 4
Samtökin '78 eru stærstu og elstu hagsmuna- og
baráttusamtök hinsegin fólks á Islandi. I stofnun þeirra
fólst mikið hugrekki, enda máttu hommar og lesbíur
þola hryllilega fordóma fyrir rúmum fjórum áratugum.
Tímarnir hafa svo sannarlega breyst til hins betra, en í
starfi Samtakanna ’78 í gegnum árin hefur þó alltaf skipt
höfuðmáli að fólk sé tilbúið að stíga stolt fram og vinna að
eigin réttindum og lífsgæðum.
Hinsegin barátta er í eðli sínu persónuleg og getur verið
slítandi og erfið hverjum þeim sem tekur þátt í henni. Þá
skiptir máli að hafa net fólks í kringum sig sem stendur með
manni þegar á móti blæs og tekur jafnvel slaginn fyrir mann.
Hinsegin samfélagið á Islandi er þetta net og að mínu viti
eru Samtökin ’78 ein skýrasta birtingarmynd þeirrar fallegu
samstöðu sem fyrirfinnst innan þess.
Á vordögum 2019 sagði ég frá því í útvarpsviðtali að ég
væri tvíkynhneigð. Þetta átti ekki að vera neitt mál, bara
staðreynd um mig, enda hafði ég þá verið utan skápsins í
rúman áratug. En þegar ég settist aftur inn í bíl fyrir utan
Útvarpshúsið þyrmdi skyndilega yfir mig, ég titraði öll
og skalf og fór svo að hágráta. Þarna var ég nýtekin við
formennsku í Samtökunum ’78 og hafði einsett mér að vera
opin og stolt af kynhneigð minni á opinberum vettvangi.
Það má segja að ég hafi uppgötvað þarna að skömmin
og óttinn hverfur ekki alfarið þótt maður finni til stolts.
Þegar maður elst upp í samfélagi þar sem það þykir nánast
klámfengið í sjálfu sér að vera tvíkynhneigð kona, þá getur
verið þægilegra að segja það ekki upphátt. Þegar ég var að
stíga mín fyrstu skref út úr skápnum var tvíkynhneigð varla
nefnd í opinberri umræðu og í réttindabaráttunni. Allt tekur
þetta toll.
Það var þess vegna mikil gæfa fyrir mig persónulega
að finnast ég velkomin þegar ég rataði loks á vettvang
Samtakanna ’78. Sem betur fer rúmast innan okkar raða
allskonar fólk með misjafna lífsreynslu og skoðanir, enda eru
Samtökin ’78 samtök alls hinsegin fólks á Islandi. Þrátt fyrir
allan fjölbreytileikann eigum við sameiginlega framtíðarsýn
um að engin manneskja eigi að þurfa að upplifa vanlíðan
eða fordóma vegna þess hver hún er. Til þess að vinna að
þeirri sýn og viðhalda því sem áunnist hefur er áfram þörf á
grunnstarfsemi Samtakanna ’78: réttindabaráttu, fræðslu,
félagslífi og ráðgjöf. Mest er þó þörfin á samstöðu, því stolt
og hugrekki þrífst best í samfélagi.