Fjölrit RALA - 15.04.1988, Síða 15

Fjölrit RALA - 15.04.1988, Síða 15
-9- Þessar niðurstöður gefa til kynna, að beitarþungi á uppgræðslusvæðunum hafi verið nokkru minni 1987 en 1985 og 1986, og er líkleg skýring sú, að vegna þurrka hafi féð haldið sig meira á votlendi og öðrum náttúrulegum gróðurlendum en ella. Þrátt fyrir þetta var gróður á uppgræðslusvæðunum nauðbitinn í lok beitartímans, þótt undantekningar væru frá því, t.d. á þeim hluta Öfuguggavatnshæða, sem sáð var í árin 1983 - 1985. Þar var svo mikill gróður eftir við lok beitartímans, að svæðið gat talist hóflega beitt. Það kom fram í kafla 2.1 hér að framan, að á Auðkúluheiði eru um 640 hektarar ógirts uppgrædds lands, auk 182 hektara á Lurk, sem hefur verið opið tímabundið til beitar. Sé reiknað með, að beitarþungi hafi verið 1,7 ærgildi á hektara sem er beint meðaltal af þeim fjórum svæðum, sem þar var talið á, má áætla að um 1.400 ærgildi hafi meira og minna haldið sig á opnu uppgræðslusvæðunum á Auðkúluheiði. Á Eyvindarstaðaheiði er flatarmál þeirra uppgræðslusvæða, sem eru opin til beitar, um 410 hektarar. Sé reiknað með því, að þar hafi beitarþungi verið 1,6 ærgildi á hektara, má áætla, að um 650 ærgildi hafi að jafnaði verið á uppgræðslusvæðunum þar sl. sumar. Þetta eru grófar áætlanir, sem gefa samt vísbendingu um þá þýðingu sem uppgræðslan hefur fyrir beit á heiðunum, en hún er að verulegu leyti hrein viðbót við beitilandið. Með óbreyttum fjárfjölda á heiðunum leiðir þetta til minna beitarálags á úthaganum, og er ástæða til að ætla, að það taki að skila sér í bættu gróðurfari og ástandi hans. Það væri þá ekki síður vegna þess, að gróður á uppgræðslusvæðunum er mun fyrri til á vorin en í úthaganum, og féð leitar þá frekar í þau. Úthaganum er þannig hlíft á meðan gróður hans er á viðkvæmu stigi. 2.3 Gróðurfar og ástand uppgræðslusvæðanna. Um mánaðarmótin ágúst-september var að venju mæld þekja gróðurs á þremur uppgræðslusvæðum á heiðunum: Við Sandá (3), og á Þrístiklubungu (4) á Auðkúluheiði og á Öfuguggvatnshæðum (6) á Eyvindarstaðaheiði. Þessum mælingum er ætlað að gefa vitneskju um þróun og ástand gróðurs á uppgræðslusvæðunum og voru þær fyrst gerðar 1981, þegar uppgræðsla á heiðunum hófst. Svæði 3 og 6 voru þá að mestu ógróin, en svæði 4 nokkuð gróið. Á öllum þessum svæðum voru girtir af nokkrir hektarar lands við upphaf uppgræðslunnar, sem hafa verið algerlega friðaðir fyrir beit. Á þennan hátt er verið að bera saman tvenns konar meðferðir á landi, sem báðar hafa ókosti við uppgræðslu lands. Annars vegar er árleg áburðargjöf á síbeitt land undir miklu beitarálagi, sem dregur úr vexti plantnanna og þróun gróðurþekjunnar. Hins vegar árleg áburðargjöf á alfriðað land, en það leiðir með tímanum til mikillar sinumyndunar, sem getur tafið fyrir og hindrað sprettu.

x

Fjölrit RALA

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fjölrit RALA
https://timarit.is/publication/1497

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.