Víkurfréttir


Víkurfréttir - 04.11.2020, Blaðsíða 23

Víkurfréttir - 04.11.2020, Blaðsíða 23
Lokun hár- og snyrtistofa um allt land í annað skiptið 2020 Aldrei hefði okkur dottið það í hug þegar við opnuðum Hárfaktorý árið 2012 að heimsfaraldur myndi skella öllu í lás hjá okkur. Þetta eru búnir að vera mjög skrítnir tímar, sérstaklega síðustu vikur. Við hér utan höf- uðborgarsvæðisins máttum vera með opið en ekki stofurnar í bænum. Enda stoppaði síminn ekki ... við fengum alveg að heyra það, sagt að við værum að mismuna fólki, að þetta mætti ekki og svo kom það alveg fyrir að fólk laug sem eru mjög leiðinlegar aðstæður. Fólk var að nýta sér það að vinna t.d. hér suðurfrá en býr í bænum – en við spurðum alla sem voru ekki skráðir í bókunarkerfi hjá okkur hvort þeir byggju í bænum. Því við ákváðum strax að sýna samhug með stofunum í bænum. Við viljum líka koma fram þakklæti til allra sem hafa sýnt tillitssemi og beðið þolinmóð eftir nýjum tímum. Sérstaklega eftir að við opnuðum í fyrstu bylgjunni og vonum að það verði eins núna. Það vilja flestir komast að á fyrsta opnunardaginn en við höfum bara tvær hendur og komum því miður ekki öllum að á þeim degi. Auðvitað er erfitt að loka, sérstak- lega á þessum tíma árs þar sem margir af kúnnum hjá okkur, bæði í klippingu/litun og í snyrtingu hjá Gerðu, eru mjög skipulagðir og löngu búnir að plana tímana sína fram að jólum ... en svona er þetta bara og í staðinn kemur bara frekar löng en pottþétt mjög skemmtileg jólatörn hjá okkur. Kannski upplagt líka að segja frá því að nýr hárgreiðslusveinn er að byrja hjá okkur einmitt núna en það er hún Vala. Valgerður sem vann lengi á Hárgreiðslustofu Reykjavíkur en hún og fjölskyldan hennar voru að flytja í Reykjanesbæ og vonum við að allir taki vel á móti henni og skelli sér á tíma í klippingu eða klippingu og lit hjá henni þegar við opnum aftur. Þetta ástand kennir okkur líka ýmislegt, t.d. að vinnan er ekki sjálf- sagður hlutur og auðvitað að heilsan er númer eitt, tvö og þrjú. Án hennar er maður ekkert. Við erum þakklátar fyrir að geta unnið og ef smá hárrót eða loðnir leggir eru mestu áhyggj- urnar sem við höfum erum við ótrú- lega heppin. Vonandi sjáum við fram á bjartari tíma núna í lok árs og að allir geti notið aðventunnar og jólanna með sínu nánasta fólki. Við þurfum bara öll að standa saman í þessu núna næstu tvær, þrjár vikurnar svo það sé mögulegt. Baráttukveðjur til ykkar allra. Sendum rafrænt knús og kærleika á ykkur öll og hlökkum til að sjá ykkur sem flest í jólatörninni á Hárfaktorý. Lilja, Gauja, Jóhanna, Fanney og Vala, klipparar, og Gerða Arndal, snyrtifræðingur. Kristinn Guðni Ragnarsson – minning Kristinn Guðni Ragnarsson, pípulagn- ingameistari, fæddist í Vestmannaeyjum 8. desember 1962. Hann lést á heimili sínu 25. október 2020. Foreldrar hans voru Ragnar Guðnason, sjómaður frá Steini (f. 7. janúar 1942 í Vestmannaeyjum) og Ásta Kristinsdóttir (f. 8. ágúst 1942 frá Skjaldbreið í Vest- mannaeyjum). Kristinn Guðni átti eina systir, Guðrún Bjarný (f. 6. október 1959 í Vestmanna- eyjum). Eiginmaður hennar var Þor- varður Vigfús Þorvaldsson (f. 20. nóv- ember 1956, d. 9. janúar 2015). Kristinn Guðni giftist Sesselju Birgisdóttir (f. 24. janúar 1962 í Keflavík), foreldrar hennar voru Guðrún Guðnadóttir, húsmóðir í Keflavík (f. 3. september 1932, d. 2. apríl 1982), og Birgir Axelsson, fiskverkandi í Keflavík (f. 21. ágúst 1932, d. 14. desember 2001). Babú-babú öskruðu peyjarnir í Eyjum hlaupandi í halarófu gólandi í takt við sírenur slökkviliðsbílanna þegar kviknaði í og brunalúðurinn ómaði í fjöllunum svo það fór ekki framhjá neinum hvað var í gangi. Kiddi var ekki hár í loftinu þegar hann var farinn að elta slökkviliðið þegar það var kallað út en afi hans og nafni, Kiddi á Skjaldbreið, var slökkviliðsstjóri í Eyjum. En það var ekki fyrr en Kiddi var kominn til sjós og léttlyndu félagarnir búnir að stofna ærsla- félagið Klakabandið að þeir fóru að kalla hann Kidda babú. Það þekkja fáir Eyjamenn Kristinn Guðna en nær allir vita hver Kiddi babú er. Þannig verða viður- nefnin að aðalnöfnum. Ég hef stundum verið að segja gömlum Eyjamönnum að Kristinn Guðni sé sonur hans Ragga í Steini og Ástu frá Skjaldbreið. Menn stand alveg á gati og kannast ekki við neinn Kristinn Guðna. Á hann Raggi í Steini peyja, ja hérna. Svo þegar maður segir: „Já, hann Kidda babú.“ „Já, þú meinar. Auðvitað veit ég hver hann er.“ Babú-inn, það þekkja hann allir. Þetta er stutta lýsingin á viðurnefnaút- gáfu Eyjamanna. Klakabandið var ekki klúbbur kórdrengja. Nei, það var félagsskapur harðduglegra sjómanna, Eyjapeyjar og -pæjur sem kunnu tökin á lífinu þegar hart var sótt á sjóinn, tekjurnar miklar og skemmtanalífið í stórskalaútgáfu sem passaði vel við tekjurnar á sjónum. Þar var töluð hrein íslenska og engum hlíft og alls ekki þeim sem átti afa sem slökkviliðsstjóri. Austur-Þýskur Trabant var kostu- legur bíll og Klakabandið pantaði sjö slíka til Eyja. Það mátti ekki minna vera. Þegar þeir höfðu keypt steríógræjur í bílanna kostuðu þeir tvöfalt verð því græjurnar voru dýrari en bílarnir – en þrátt fyrir dugnað á sjónum og mikilfenglegt Klaka- bandið gleymdi Kiddi ekki að undirbúa sig fyrir lífið. Hann náði að mennta sig sem pípulagningamaður milli úthalda og varð meistari í greininni 1988. Ég man vel eftir Kidda á þessum árum þó vinátta okkar hafi skotið rótum í Keflavík. Hann var ótrúlega mikill Eyjamaður í sér og frá fyrstu kynnum fann ég hversu traustur maður hann var. Kiddi var öruggur með sig enda mikill verkmaður og hafði góða yfirsýn yfir verkefni sín sem pípulagningarmaður. Ég held að allt neftóbakið sem hann mokaði í fíngert nefið hafi opnað beina leið upp í heila, beint í æð fyrir hreina og klára hugsun. Hann tók samt stundum gömla Klakabandsfílinguna á þetta og við vinirnir áttum það sameiginlegt að vera stöðugt að taka á lífinu okkar, styrkleikum sem veikleikum. Kiddi bætti meiru í nefið þegar hann átti í vök að verjast í baráttunni við krabbann. Hann mætti þjáður til vinnu og mundaði rörtöngina með samanbitnar varir og svaraði verkjunum með stærri skömmtum af neftóbaki að hætti Týrara. Hann ætlaði að klára stóra verkið sem hann tók að sér hjá Bygg hvað sem það kostaði, hann var jaxlalegur í vinnugallanum með neftóbakstaumana niður á höku og var að gera bestu vertíðina í lífinu. Hann var alltaf klár í fyrstu bauju en það var ekki nóg því baráttan við veikindin var barátta upp á líf og dauða. Síðustu dagarnir voru heima í faðmi fjölskyldunnar. Börnin hans öll elskuðu hann og yngstu peyjarnir kölluðu hann alltaf afa babú. Kiddi var stoltur af viðurnefninu, ánægður með gömlu vinina og fjölskylduna alla sem elskaði hann. Þegar við tókumst í hendur í síðasta skipti sagði hann: „Þetta er allt aftur á bak Ási minn.“ En ég held að nú keyri hann Trabantinn með himinskautum, fulllestað nefið af tóbaki, steríógræjurnar í botni og tekur gömlu sír- enuna á þetta og kallar út í kosmóið babú-babú. Ég votta Sesselju, foreldrum Kidda og fjölskyldunni samúð. Ásmundur Friðriksson. Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, stjúpfaðir, tengdafaðir, afi, sonur, bróðir, mágur og frændi KRISTINN GUÐNI RAGNARSSON pípulagningameistari frá Vestmannaeyjum til heimilis að Faxabraut 7 Keflavík lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu sunnudaginn 25. október. Útförin fer fram frá Safnaðarheimili Keflavíkurkirkju Kirkjulundi miðvikudaginn 4. nóvember kl. 13. Í ljósi aðstæðna munu einungis nánustu aðstandendur verða viðstaddir athöfnina. Athöfninni verður streymt á www.facebook.com/groups/2803581819879035/ Fjölskyldan þakkar heimahjúkrun HSS fyrir alla hjálpina og yndislegt viðmót. Fyrir hönd aðstandenda Sesselja Birgisdóttir Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, KRISTJÁN H. ERLENDSSON Hátúni 2, Reykjanebæ, varð bráðkvaddur laugardaginn 17. október. Útförin hefur farið fram í kyrrþey. Sigurbjörg Hallsdóttir Sædís Kristjánsdóttir Ómar Ingi Tryggvason Björgvin Kristjánsson Arnór Darri, Sölvi Freyr og Eydís. Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, GUÐJÓN ÞORGILS KRISTJÁNSSON fyrrverandi skólastjóri Ásabraut 11, Sandgerði lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sunnudaginn 25. október. Útförin fer fram frá Sandgerðiskirkju föstudaginn 6. nóvember klukkan 14. Í ljósi aðstæðna munu einungis nánustu ættingjar vera viðstaddir útförina. Athöfninni verður streymt á https://youtu.be/08bJF9XZYMM Ólöf Björgvinsdóttir Björgvin Guðjónsson Margrét Lind Steindórsdóttir Sæunn Guðrún Guðjónsdóttir Guðmundur Rúnar Jónsson Kristján Þorgils Guðjónsson Hildur Hilmars Pálsdóttir og barnabörn. vf isÞú finnur allar nýjustu fréttirnar frá Suðurnesjum á Gauja og Lilja, eigendur Hárfaktorý, og Gerða Arndal, snyrtifræðingur og eigandi snyrtistofu Gerðu Arndal. vÍkurFrÉttir á SuðurneSJuM Í 40 ár // 23

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.