Faxi - 2020, Síða 28
28 FAXI
Tillaga samþykkt eftir breytingar
Skipulagsnefnd Keflavíkur lagði í framhaldi
fyrir bæjarstjórn nýtt deiliskipulag fyrir
kirkjulóðina og var hún auglýst. Fljót-
lega kom í ljós að bæjarbúar voru mjög
andsnúnir tillögunni og vildi bæjarstjórn
Keflavíkur því að kosið yrði um tillöguna
samfara kosningu um sameiningu sveitarfé-
laga 20. nóvember 1993. Jafnframt var borin
upp sú spurning hvort bæjarbúar vildu
yfirhöfuð að byggt yrði á kirkjulóðinni?
Skipulagstillagan var felld, því 1605 greiddu
atkvæði á móti en 992 með tillögunni.
Þótt bæjarbúar væru ekki mótfallnir nýju
safnaðarheimili var staðsetningin talin
fráleit. Fremstir í flokka andstæðinga voru
íbúar í nágrenni kirkjunnar. Sóknarnefnd
missti ekki móðinn en sannarlega hægðist
á ferlinu.
„Við sem erum fædd og uppalin í næsta
nágrenni kirkjunnar, þar sem kirkjutúnið
var leikvöllur okkar í æsku, áttum erfitt
með að sætta okkur við þessar fyrirætlanir
í fyrstu og létum það ósparlega í ljós. Eftirá
held ég að allir hafi áttað sig á hversu mikil-
vægt og nauðsynlegt það var fyrir starfið að
bæta aðstöðuna, ekki bara fyrir starfsfólk
kirkjunnar heldur einnig fyrir söfnuðinn.
Kirkjan er vettvangur stærstu stunda í lífi
fólks t.d. þegar við skírum, fermum, giftum,
jörðum og leitum huggunar og svara við
lífsgátunni og mikilvægt að búa vel að fólki
á þessum stundum. Það lærir maður smátt
og smátt að meta aldrinum,“ segir Kjartan
Már Kjartansson sem sat í undirbúnings-
nefnd og er fyrrum íbúi við Kirkjuteig.
Ný tillaga var því borin upp á aðalsafn-
aðarfundi 19. febrúar 1995 og kosið um
tillöguna á kjörfundi sem hófst í framhaldi.
Mjög miklar breytingar höfðu þá verið
gerðar á vinningshugmyndinni, byggingin
var lækkuð mikið með því að taka niður
gólf og útlit hennar fellt enn betur að útliti
kirkjunnar og hún vel kynnt. Tillagan var
samþykkt og þá loksins náðist sátt um
byggingu safnaðarheimilis eftir miklar
deilur sem töfðu framgang. Bæjarstjórn
gaf kirkjunni lóðina með gjafabréfi árið
1996, alls 4491 fermetra. Fyrir átti kirkjan
lóðina umhverfis kirkjuna sem var alls 1134
fermetrar.
„Eftir að teikningar lágu fyrir var lögð
mikil áhersla á góða kynningu, m.a. var
útbúið tölvumyndband þar sem fólk gat
skoðað bygginguna frá öllum hliðum. Í
framhaldi var efnt til kosningar meðal
sóknarbarna og hlaut tillagan samþykki.
Voru þá flestir sem höfðu efasemd-
ir orðnir samþykkir góðu heilli,“ sagði
Jónína Guðmundsdóttir sem var for-
maður sóknarnefndar þegar ráðist var í
bygginguna í jólablaði Faxa árið 2015.
Fyrsta skóflustunga að nýju safnað-
arheimili var tekin að lokinni messu 6.
október 1996 af Matthildi Óskarsdóttur
ekkju Árna V. Árnasonar, sem setið hafði
í undirbúningsnefnd og jafnframt gegnt
stöðu formanns sóknarnefndar en lést í
október árið 1991. Í framhaldi hófust fram-
kvæmdir við fyrsta áfanga sem var jarð-
vinna og sökkull hins nýja safnaðarheimilis,
en útboðsáfangar urðu fimm í heildina.
Byggingarnefnd skipuðu Birgir Guðnason
formaður, Guðmundur Björnsson og Einar
Magnússon. Safnaðarheimilið var vígt með
viðhöfn þann 1. júní árið 2000 sem var
uppstigningardagur. Heildarkostnaður var
rúmlega 300 milljónir.
Birgir Guðnason sem var formaður
byggingarnefndar safnaðarheimilisins
sagði í jólablaði Faxa 2015 að bæjarfélagið
hafa sýnt mikla framsýni með því að fresta
byggingum á lóðum umhverfis kirkjuna ef
nýta þyrfti það svæði fyrir kirkjuna. Hefði
það ekki verið gert hefði safnaðarheim-
ilið aldrei verið byggt. Þar var helst að
nefna Björn Guðbrandsson verkstjóra hjá
Keflavíkurbæ sem hafði mikinn áhuga á
blóma- og trjárækt. Björn taldi kirkjuna
þurfa að nýta lóðina umhverfis kirkjuna
og varð manna fyrstur til að planta trjám í
jaðar lóðarinnar.
Heimildir:
Faxi 1. tbl. 52. árg. 1992
Faxi 5. tbl. 53. árg. 1993
Faxi 1. tbl. 55. árg. 1995
Faxi 2. tbl. 60. árg. 2000
Faxi 3. tbl. 75. árg. 2015
Víkurfréttir 47. tbl. 13. árg. 1992
Víkurfréttir 48. tbl. 13. árg. 1992
Víkurfréttir 10. tbl. 14. árg. 1993
Víkurfréttir 7. tbl. 16. árg. 1995
Víkurfréttir 40. tbl. 17. árg. 1996
Víkurfréttir 23. tbl. 21. árg. 2000