Morgunblaðið - 02.05.2020, Blaðsíða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. MAÍ 2020
Böðvar Páll Ásgeirsson
bodvarpall@mbl.is
Mörgæs með brostið hjarta er ný
skáldsaga eftir Stefán Mána. Bókin
er þó ólík því sem flestir þekkja frá
höfundinum en um er að ræða ástar-
sögu. „Þetta er alltaf spurning um
hvaða hugmyndir detta í kollinn á
manni,“ segir hann, spurður af
hverju hann vendi kvæði sínu í
kross.
„Það bara vildi svo til að ég fékk
þessa skrítnu hugmynd,“ segir Stef-
án Máni sem er best þekktur fyrir
glæpasögur sínar. „Svo þróaðist
þetta út í ástarsögu. Maður veit
aldrei hvað gerist þegar maður fær
hugmyndir. Hugmyndirnar taka oft
stjórnina og það endar einhvern
veginn. Mér fannst líka spennandi
tilbreyting að gera eitthvað nýtt.“
Hann segir bókina hafa verið
nokkuð lengi í bígerð, fyrsta uppkast
hafi verið skrifað fyrir nokkuð löngu.
„Svo leið nú smátími þar til ég fór að
viðra þetta við útgefandann. Maður
veit aldrei hvernig útgefendur líta á
það sem er öðruvísi og svo fram-
vegis.“
Bókin er ljóðræn og heimspekileg
og í henni má finna lýsingar frá-
brugðnar þeim sem lesendur hafa
vanist í glæpasögum Stefáns Mána.
- Færðu að sleppa fram af þér
beislinu í þessari bók?
„Já, algjörlega. Ég fæ að hvíla
mig á ofbeldinu og hraðanum og fá
útrás fyrir ljóðskáldið sem er inni í
mér. Það er alveg til staðar þetta
element í manni og það er gott og
gaman að hleypa því á skeið. Ég
hafði alveg rosalega gaman af því að
skrifa þessa bók og gefa hana út.
Þetta gaf mér mikið.“
Furðuleg tímasetning
Sagan fjallar um óframfærinn rit-
höfund sem reynir að koma sinni
fyrstu skáldsögu á blað. Hann skrif-
ar um ástfangna mörgæs með mann-
legar tilfinningar, fulla af kvíða.
Sögurnar tvinnast saman þegar á
líður. „Hann er svolítið að skrifa um
sjálfan sig, auðvitað. Þau eru svolítið
skyld, hann og mörgæsin.“
Inn í söguna tvinnast eitt stærsta
málefni samtímans, hlýnun jarðar.
Stefán Máni segir sér hugleikið
ákveðið ástand í tengslum við þetta.
„Ég ólst upp í kalda stríðinu þar sem
óttinn við kjarorkuvá og heimsendi
var alltaf yfirvofandi. Það er svolítið
svipað ástand núna. Það er ótti og
fólk hefur áhyggjur af framtíðinni.
Það er þetta andrúmsloft. Að heim-
urinn sé viðkvæmur og það geti
brugðið til beggja vona,“ segir hann
og bætir við: „Það er þessi stemning
og tilfinning að það geti allt farið til
fjandans. Að tengja hana við ástina
og lífið fannst mér spennandi.“
Á einum tímapunkti kemur tóm
Reykjavík við sögu. Stefán Máni
tekur undir að það eigi vel við í dag,
á tímum kórónuveirunnar. „Ég hef
alltaf verið heillaður af þessu „Palli
einn í heiminum“-ástandi. Þetta er
mjög spennandi tilvist – spennandi
og skelfileg, auðvitað,“ segir hann.
„Þetta hittir alveg ótrúlega vel á.
Það er búið að vera magnað að fara
niður í bæ undanfarnar vikur þegar
enginn er á ferli. Það er því alveg
furðuleg tímasetning á bókinni, ég
verð að viðurkenna það sjálfur.“
Saknar litlu hlutanna
Stefán Máni segist hugsa sem
minnst um hvort og hverjir muni
lesa bókina. „Ég veit að það er fullt
af fólki sem hefur gaman af þessari
bók. Ég vona bara að það uppgötvi
bókina. Að hún fari ekki framhjá því.
En ég reyni að skrifa alltaf fyrir
sjálfan mig og svo vonar maður bara
að einhverjir aðrir hafi gaman af því
líka. Sem er nú yfirleitt raunin, sem
betur fer.“
- Hvernig er annars líf skáldsins á
þessum óvenjulegu tímum?
„Það er bara sérstakt eins og hjá
öllum öðrum. Maður er meira ein-
angraður og mér finnst vont að kom-
ast ekki í sund og í ræktina. Ég
sakna þessara litlu hluta sem eru í
rauninni svolítið stórir. Maður heim-
sækir ekkert foreldra sína og þetta
er allt svolítið sérstakt. Ég er búinn
að vera að lesa meira og er kannski
ekki einn um það.“
Þá segist Stefán Máni ekki hafa
neitt sérstakt fyrir stafni en sé alltaf
eitthvað að dunda sér við skrif og
annað. „Maður veit aldrei neitt hvað
verður úr því.“
Að lokum hvetur hann alla til þess
að lesa, bæði nýju bókina hans og
aðrar. Fyrir þá sem ekki treysta sér
í bókabúðir er hægt að panta bókina
heim á netinu hjá Sögur útgáfa sem
gefur hana út. „Það er um að gera að
nota þennan skrítna tíma til að næra
andann og sálina,“ segir hann.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gefandi „Ég hafði alveg rosalega gaman af því að skrifa þessa bók og gefa hana út,“ segir Stefán Máni.
Hugmyndirnar taka stjórn
Stefán Máni skrifaði fyrstu ástarsögu sína „Ég fæ að hvíla mig á ofbeldinu
og hraðanum og fæ útrás fyrir ljóðskáldið sem er inni í mér,“ segir höfundurinn
Kvikmyndahúsakeðjan AMC, sú
stærsta í Bandaríkjunum, hefur
brugðist illa við þeirri ákvörðun
kvikmyndaversins Universal að
frumsýna samtímis kvikmyndir sín-
ar í kvikmyndahúsum og á sjón-
varps- og netveitum.
Segist forstjóri AMC, Adam Aron,
ekki ætla að sýna kvikmyndir Uni-
versal eftir að samkomubanni lýkur
og bíó verða opnuð. Sendi hann
stjórnarformanni Universal bréf
þess efnis sem birt var á kvikmynda-
vefnum Deadline. Aron telur þessa
ákvörðun Universal brjóta samning
fyrirtækisins við AMC. Kvikmynda-
hús AMC eru ekki aðeins í Banda-
ríkjunum heldur líka í Evrópu og
Mið-Austurlöndum.
Stjórnendur Universal hafa svar-
að því til að þeir hafi enn fulla trú á
kvikmyndahúsum og þeirri upplifun
að sjá kvikmyndir í slíkum húsum.
Þeir ætli að halda áfram að frum-
sýna í kvikmyndahúsum en líka selja
aðgang að þeim stafrænt, þ.e. á fyrr-
nefndum veitum.
Stjórnendur kvikmyndahúsakeðj-
unnar Odeon hafa tekið í sama
streng og kollegar þeirra hjá AMC
og lýst því yfir að myndir Universal
verði ekki sýndar í þeirra húsum.
AFP
Deilur Stjórnendur AMC og Odeon eru ósáttir við stefnu Universal. Hér má
sjá eitt kvikmyndahúsa AMC sem er lokað eins og önnur í Bandaríkjunum.
Munu ekki sýna
kvikmyndir Universal
Sænski rithöfundurinn Maj Sjöwall
er látin 84 ára að aldri eftir langvar-
andi lungnaveikindi. Sjöwall er
þekktust fyrir tíu glæpasögur sínar
um Martin Beck rannsóknarlög-
reglumann í Stokkhólmi sem hún
skrifaði í samvinnu við sambýlis-
mann sinn, Per Wahlöö, sem lést
1975. Í bókunum, sem öðlast hafa
heimsathygli, þótti kveða við nýjan
tón í glæpasögum þar sem sam-
félagsádeilan var áberandi.
„Markmið okkar var að gagnrýna
samfélagsþróunina og það tókst,“
sagði Sjöwall í viðtali við Politiken
2016. Segir hún þau Wahlöö í bókum
sínum hafa viljað vara við óheftum
kapítalisma og svikum við vinnandi
stéttir. Því miður hafi ekki verið
hlustað á varnaðarorð þeirra. „Við
höfðum hreinlega ekki ímyndunarafl
til að sjá hversu slæm neysluhyggj-
an, ofbeldið og kaldhæðnin gæti orð-
ið. Í dag hefur kapítalisminn sigrað.
Manneskjur hafa ekkert vægi. Og
allt er í Svíþjóð, líkt og annars stað-
ar í Evrópu, að fara til helvítis,“
sagði Sjöwall og tók fram að í sam-
anburði við samtímann væru glæpa-
sögur þeirra Wahlöös jafn sakleysis-
legar og barnabækur.
Í samtali við sænska ríkisútvarpið
(SVT) segir Ann-Marie Skarp, út-
gefandi hjá Piratförlaget, sem verið
hefur vinur Sjöwall til 40 ára, að
bækurnar hafi veitt glæpasagnahöf-
undum nútímans mikinn innblástur,
en í því samhengi megi nefna höf-
unda á borð við Ian Rankin, Jo
Nesbø, Lizu Marklund og Lee Child.
Fyrsta bókin um Martin Beck
kom út 1965 og hafa þær verið þýdd-
ar á um 40 tungumál og seldar í um
10 milljónum eintaka á heimsvísu.
Höfundur Maj Sjöwall er þekktust
fyrir bækur sínar um Martin Beck.
Maj Sjöwall
látin 84 ára