Morgunblaðið - 30.05.2020, Page 44
44 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. MAÍ 2020
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þessi titill kemur úr öðru af tveim-
ur ljóðum eftir Ásdísi Sif Gunnars-
dóttur á plötunni,“ segir Páll Ragnar
Pálsson um hljómplötuna Atone-
ment sem nýverið kom út hjá banda-
rísku útgáfunni Sono Luminus. Á
plötunni flytja Caput og Tui Hirv,
undir stjórn Guðna Franzsonar,
fimm verk sem Páll Ragnar samdi á
árunum 2011 til 2018. „Í ljóðinu, sem
er titillag plötunnar, fjallar Ásdís um
tímamót í lífinu þar sem ljóðmælandi
leitar að frið eftir erfiða tíma áður en
haldið er til móts við nýja tíma.
Titillinn undirstrikar að tónsmíð-
arnar sjálfar séu ákveðin friðþæging
og ritúal. Hann endurspeglar líka að
tónsmíðar fela í sér ákveðið
íhugunarferli þar sem maður er að
þróa sig áfram sem mannveru,“ seg-
ir Páll Ragnar og viðurkennir fús-
lega að í sínum huga sé tónlist hans
nátengd hinu trúarlega.
Sterkur heildarsvipur
„Tilurð plötunnar má rekja til tón-
leika sem Caput hélt á Myrkum
músíkdögum 2014 með verkum mín-
um. Ég samdi verkið Stalker’s
Monologue sérstaklega fyrir þá tón-
leika auk þess sem hljómsveitin
flutti fleiri eldri verk. Þá sáum við
strax að við værum komin með efni í
plötu og þegar ég kynnti svo Guðna
og Collin Rae hjá Sono Luminus
komst skriður á verkefnið,“ segir
Páll Ragnar. Hin fjögur verkin á
plötunni eru Atonement, Lucidity,
Midsummer’s Night og Wheel
Crosses Under Moss.
„Það er mjög sterkur heildar-
svipur yfir allri plötunni og hún gef-
ur góða mynd af mér sem kammer-
tónskáldi,“ segir Páll Ragnar og
nefnir að sama hljóðfærasamsetning
einkenni alla plötuna. „Stundum í
stærri og stundum smærri hljóð-
færasamsetningu. Þetta eru litlar
hljómsveitarsamsetningar þar sem
flytjendur eru frá fimm til níu. Þetta
er því fíngerð tónlist en með skýrum
kjarna. Því það heyrist vel að bak við
öll verkin er sama hugsunin – sem
má segja að sé eins og manifesto á
minni fagurfræði,“ segir Páll Ragn-
ar. Þegar hann er beðinn að koma
nánari orðum að henni svarar Páll
Ragnar: „Ég sem tónlist til að þurfa
ekki að koma orðum að hlutum. Tón-
listin tekur við þar sem orðunum
sleppir.“
Páll Ragnar segir að nokkur þemu
ráði för þegar hann semji tónlist.
„Ég sé tónlistina fyrir mér sem org-
anískt ferli. Á sama tíma er tónlistin
mín línuleg, sem kallast á við þá tíma
í tónlistarsögunni þegar fólk hugsaði
tónlistina lárétta en ekki lóðrétta,“
segir Páll Ragnar og tekur fram að
tónlist hans sé undir mjög miklum
áhrifum af því sem hann lærði þegar
hann bjó og var við nám í Eistlandi á
sínum tíma.
Þrjú af fimm verkum plötunnar
eru sungin, en Tui Hirv, eiginkona
hans, syngur verkin. Ásdís Sif les
eigin texta í verkinu Midsummer’s
Night auk þess sem hún samdi titil-
ljóðið. „Textinn við lokalagið kemur
úr sálmum frá eyjunni Vormsi, við
vesturströnd Eistlands, þar sem var
lengi vel sænskt samfélag sem lagð-
ist endanlega af í seinni heimsstyrj-
öldinni. Einnig nota ég texta úr
myndinni Stalker í leikstjórn And-
reis Tarkovsky. Sá texti er ekki
trúarlegur, en hins vegar mjög
sterkur andlega og felur í sér mikla
lífsspeki. Hann fjallar um það að
þeir sem eru harðir eins og tré
brotna frekar og lifa ekki af en þeir
sem eru mjúkir og sveigjanlegir eiga
auðveldara með að aðlagast breyt-
ingum,“ segir Páll Ragnar og bendir
á að myndin Stalker hafi mikla þýð-
ingu fyrir Eista. „Myndin inniheldur
duldar vísanir í sjálfstæðisbaráttu
þjóðarinnar sem talaði sterkt til
Eista, sem eru honum því ávallt
þakklátir fyrir myndina,“ segir Páll
Ragnar og rifjar upp að myndin hafi
verið tekin í Tallinn á stöðum sem
hann hafi reglulega sótt meðan hann
bjó þar í borg.
Ótrúlegt frumkvöðlastarf
Atonement er þriðja útgáfa Páls
Ragnars hjá Sono Luminus en áður
hafa komið út Concurrence, sam-
starfsverkefni Sono Luminus og Sin-
fóníuhljómsveitar Íslands, þar sem
Sæunn Þorsteinsdóttir flutti Quake
fyrir selló og hljómsveit undir stjórn
Daníels Bjarnasonar, og svo Verna-
cular, einleiksplata Sæunnar þar
sem hún lék Afterquake fyrir selló.
„Samtal mitt við Sono Luminus hef-
ur staðið síðustu ár og má rekja aft-
ur til Concurrence. Með fyrri plöt-
unum tveimur komst nafn mitt
meira inn í umræðuna og fékk um-
fjöllun í alls kyns fjölmiðlum, sem
skapar grundvöll fyrir því að gefa út
plötu sem inniheldur einvörðungu
mín verk,“ segir Páll Ragnar og
hrósar útgáfufyrirtækinu fyrir
frumkvöðlastarf sitt.
„Sono Luminus hefur unnið ótrú-
legt frumkvöðlastarf með því mark-
visst að skrásetja og kynna á heims-
vísu íslenska nútímaklassík eins og
hún er í dag. Þeir eru að skrásetja
tónlistina á eins vandaðan hátt og
hægt er með því að gera topp-
upptökur,“ segir Páll Ragnar og vís-
ar þar til þess að upptökunum, sem
fram fóru fyrir rúmu ári í Kaldalóni í
Hörpu, hafi verið stjórnað af
Grammy-verðlaunahöfunum Daniel
Shores og Dan Merceruio.
„Það er oft sagt að stúdíó manns
sé aldrei betra en lélegasta snúran í
því. Þegar við vorum að taka upp
hugsaði ég oft: „Vá, það er engin lé-
leg snúra hér.“ Upptökuferli er svo
margþætt og margt sem verður að
vera í lagi; upptökugræjurnar og
upptökustjórarnir, salurinn, flytj-
endurnir og tónverkin.“
Gjöfult samtal og samstarf
Spurður hvort og hvenær til
standi að fylgja plötunni eftir með
útgáfutónleikum segist Páll Ragnar
fyrir allnokkru hafa gert sér ljóst að
kórónuveirufaraldurinn myndi
seinka öllum slíkum plönum. „Þess
vegna setjum við á núverandi tíma-
punkti frekar kraft í stafræna kynn-
ingu. Ég trúi samt ekki öðru en að
okkur takist að finna leið til að halda
formlega útgáfutónleika þegar kóf-
inu léttir,“ segir Páll Ragnar.
Ekki er hægt að sleppa Páli Ragn-
ari án þess að forvitnast um sam-
starf þeirra hjóna, en þau Tui Hirv
hafa unnið mikið saman í gegnum
tíðina. „Mér finnst það ótrúlega mik-
ill kostur að vinna með henni. Sam-
talið okkar á milli verður fyrir vikið
mjög djúpt. Á milli okkar ríkir
ákveðinn skilningur á því hvaða
fagurfræði við viljum sýna. Þessi
plata er afrakstur endalausra sam-
tala okkar yfir uppvaskinu og kvöld-
sjónvarpinu. Ég þekki röddina henn-
ar mjög vel og sem tónlistina fyrir
hennar rödd. Hún flytur tónlistina
út frá sinni fagurfræði og okkar
samtali. Ég geri mér alveg grein fyr-
ir að þetta virkar ekki alltaf svona
hjá pörum og því finnst mér ég ótrú-
lega heppinn,“ segir Páll Ragnar og
rifjar upp að þau hafi fyrst byrjað að
vinna saman stuttu eftir að þau
kynntust. „Ég hef samið þó nokkurn
fjölda verka fyrir hana, að mig minn-
ir tíu verk á síðustu tólf árum.“
Út fyrir þægindarammann
Inntur eftir því hvort hann eigi
mikinn fjölda verka sem bíða upp-
töku svarar Páll Ragnar því játandi,
vissulega eigi hann í handraðanum
verk sem gaman væri að taka upp
við tækifæri. „Það að semja er hins
vegar mjög hæggengt ferli. Vinnan
við hvert verk er talin í mánuðum og
ekki vikum. Þannig getur stærra
verk fyrir hljómsveit tekið allt að
hálft ár í vinnslu,“ segir Páll Ragnar,
sem er með ýmislegt á prjónunum
sem stendur. „Ég er að fara að gera
tónlistina við kvikmyndina Skjálfti í
leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur, sem
verður fyrsta kvikmyndatónlistin
mín. Þetta er því ný áskorun. Ég er
mjög spenntur fyrir þessu verkefni
og sýnist það krefjast þess að ég fari
töluvert út fyrir þægindarammann
minn. Sem ég held að allir hafi gott
af – svona einstaka sinnum,“ segir
Páll Ragnar kíminn. Myndin byggir
á skáldsögunni Stóri skjálfti eftir
Auði Jónsdóttur, en svo skemmti-
lega vill til að sú bók varð Páli Ragn-
ari innblástur að Quake, sem nefnt
var hér að ofan.
„Auk þess er ég með eitt hljóm-
sveitarverk í vinnslu sem ég mun
örugglega vinna meðfram öðrum
verkefnum. Ég var að skila af mér
stuttu fiðlusólói um daginn fyrir
bandaríska fiðluleikarann Patrick T.
S. Yim sem býr í Hong Kong en ég
kynntist á hátíð hérlendis fyrir
nokkrum árum,“ segir Páll Ragnar
og tekur fram að hann viti ekki enn
hvenær gera megi ráð fyrir að það
sóló fái að hljóma hérlendis. „En
vonandi gerist það fyrr en síðar.“
Morgunblaðið/Eggert
Hjónin „Á milli okkar ríkir ákveðinn skilningur á því hvaða fagurfræði við viljum sýna,“ segir tónskáldið Páll Ragn-
ar Pálsson um samstarf þeirra Tui Hirv söngkonu. Samstarfið, sem verið hefur gjöfult, á sér nærri tólf ára sögu.
„Þar sem orðunum sleppir“
Atonement nefnist hljómplata með verkum Páls Ragnars Pálssonar sem Sono Luminus gefur út
„Gefur góða mynd af mér sem kammertónskáldi“ Tónlistin við Skjálfta er næst á dagskrá
ERTU MEÐ
STERK BEIN?
BEINVERND ER MIKILVÆG ALLA ÆVI
OSTEO ADVANCE er
fullkomin blanda fyrir beinin
• Kalk og magnesíum
í réttum hlutföllum
• D vítamín
tryggir upptöku kalksins
• K2 vítamín
sér um að kalkið skili sér í beinin
Fæst í Lyf og Heilsu, Apótekaranum og flestum stórmörkuðum.
40 ára 60 ára 70 ára