Gripla - 2020, Page 63
GRIPLA62
áhrif Bósa rímna á yngri söguna. Ef hún hefði byggt á rímunum í rituðu
formi hefði mátt búast við skýrari áhrifum. Orðalagslíkindi eru fá milli
Bósa rímna og yngri Bósa sögu. Þess má einnig geta að rímurnar hafa ekki
varðveist í mörgum uppskriftum sem getur bent til þess að þær hafi ekki
endilega verið mjög útbreiddar í rituðu formi á sautjándu öld.34
Loks má nefna að ættfærslur í lok yngri og eldri sagnanna draga einnig
ljóslega fram ólíkt textasamhengi þeirra. Eldri sögunni lýkur á tengslum
við Ragnars sögu loðbrókar þar sem ormurinn sem Þóra borgarhjörtur fær
að gjöf frá föður sínum, Herrauði, er sagður koma úr gammsegginu.35
Þetta kemur heim og saman við Ragnars sögu nema að þar er ormurinn
ekki tengdur gammseggi og enga vísun í Bósa sögu að finna, enda verður
að teljast líklegt að Ragnars saga sé eldri en Bósa saga. Þá er að auki vísun
í vilmundar sögu viðutan, því að Vilmundur er sagður sonarsonur Bósa.
Vísanir sem þessar eru nokkuð algengar í fornaldarsögum og má víða finna
persónur eða nöfn sem tengja viðkomandi sögu við aðra. Þetta er með öllu
horfið í yngri sögunni þar sem ekkert er minnst á ættboga Bósa og aðeins
sagt frá einum syni Herrauðs, sem er ýmist ritaður Fábuxtus eða Taluxtus
í handritum og stjórnaði Indíalandi hinu góða. Þessi endir tengir söguna
miklu frekar við fjarlæg sögusvið rómönusagna en heim fornaldarsagna og
undirstrikar þannig í hvaða samhengi sögurnar tvær voru skrifaðar.
Þrátt fyrir þræði sem má tengja milli varðveittra Bósa sagna, Bósa rímna,
viktors sögu og Blávus rímna er samt ljóst að marga hlekki vantar í keðjuna
sem leiðir til yngri Bósa sögu. Orðalag sem bendir til að sá sem skrifaði
yngri Bósa sögu hafi nýtt ritað form af þessum textum sem hér eru nefndir
er vandfundið. Einhlítt svar við því hvernig sagan varð til er þannig ekki
til en mögulegt er að gera sér í hugarlund nokkrar leiðir við endurritun
sögunnar sem hér mætti nefna.36 í fyrsta lagi kemur til greina sú skýring
sem Jiriczek setti fram og er nefnd hér að framan, það er, að yngri sagan sé
afsprengi aldagamallar sögugerðar, gerðar sem hafi mögulega verið af sama
stofni og eldri sagan en þróast á annan hátt í munnlegri geymd. Hér væri
34 Handritin eru AM 146 a 8vo, Holm perg 23 4to og uppskrift þeirra í JS 382 4to. Önnur
handrit sem eru skráð með Bósa rímum geyma yngri rímur Guðmundar.
35 Bósa saga, útg. Bjarni Vilhjálmsson og Guðni Jónsson, 497; Ragnars saga loðbrókar, útg.
Bjarni Vilhjálmsson og Guðni Jónsson. Fornaldarsögur Norðurlanda 1–3 (Reykjavík:
Forni, 1943–1944), I: 99–100.
36 Ég þakka ónefndum ritrýni fyrir afar gagnlegar ábendingar um mögulegar skýringar og
byggi umræðuna meðal annars á hugmyndum frá honum.