Gripla - 2020, Page 64
63
einnig hægt að ímynda sér að tvær gerðir hafi verið í umferð í handritum
en að handrit annarrar gerðarinnar hafi öll glatast þar til þessi saga kemur
fram á sautjándu öld. í annan stað getur verið að sextándu eða sautjándu
aldar maður hafi tekið sig til og samið nýja sögu, byggða á þeirri eldri, sem
félli betur að nýjum straumum og smekk samtímamanna. Þessi þróun er
ekki ólíkleg og væri angi af aldagamalli hefð í íslenskri sagnamenningu
því að elstu riddarasögur eru síður en svo nákvæmar þýðingar á frönskum
fyrirmyndum þeirra heldur einmitt endursamdar og aðlagaðar. Má nefna
sem dæmi Partalópa sögu sem tók ljósum breytingum undir áhrifum
íslenskra sagna, eins og til dæmis mynd aðalkvenhetjunnar Marmoriu sem
er meykonungur í íslensku gerðinni fremur en hefðbundin drottning en
meykonungahefðin er séríslensk.37
Þriðji möguleikinn sem kemur til greina til þess að skýra þróun Bósa
sögu yngri væri að sá sem ritaði hana fyrst hafi heyrt söguna lesna, eða lesið
sjálfur, en hafi síðar ekki haft aðgang að henni ritaðri og viljað bæta úr því,
ritar hana eftir minni en bætir við og fellir út, undir áhrifum fleiri sagna.
Þessi möguleiki minnir til að mynda á endurskrif Jóns úr Grunnavík á upp-
hafi Heiðarvíga sögu, þegar handrit hennar brann í Kaupmannahöfn. Þessi
leið er þó ekki sennileg sem skýring á yngri Bósa sögu í núverandi mynd
vegna þess hve gjörólík hún er eldri sögunni og hve margar efnislegar
viðbætur þar er að finna. Þetta gæti þó hafa gerst á einhverju stigi í þróun
sögunnar. Þessu tengt mætti einnig ímynda sér að langt væri liðið frá því
að viðkomandi heyrði söguna sem getur skýrt hvers vegna mynstur og
atburðir annars staðar frá nýtast til þess að líma saman það sem fallið er í
gleymskunnar dá.
Fjórði og síðasti möguleikinn sem hér verður nefndur er að yngri sagan
hafi verið samin sem svar við eldri sögunni, á svipaðan hátt og litið hefur
verið á jarlmanns sögu og Hermanns sem svar við og jafnvel gagnrýni á
Konráðs sögu keisarasonar.38 Auðvelt er til dæmis að ímynda sér að ýmsir
hafi viljað fella burt afrek Bósa í rúmi bændadætranna, enda hafa þær
frásagnir lítið sem ekkert vægi í yngri sögunni, og raunar ekki í Bósa
„HUGBLAUÐ HORMEGÐARBIKKJA“
37 Sif Ríkharðsdóttir, Medieval translations and Cultural Discourse. the Movement of texts
in England, France and scandinavia (Cambridge: D.S. Brewer, 2012), 121–123; Marianne
Kalinke, stories set Forth with Fair Words. the Evolution of Medieval Romance in Iceland
(Cardiff: University of Wales Press, 2017), 92–99.
38 Marianne Kalinke, stories set Forth with Fair Words, 141–153.