Gripla - 2020, Síða 107
GRIPLA106
hann safnaði og kanna hver hlutur hans í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar
var í raun og veru.
Ævi og störf
Magnús Grímsson var fátækur bóndasonur úr Borgarfirðinum, sonur
hjónanna Gríms Steinólfssonar (1791–1854) og Guðrúnar Þórðardóttur
(1802–1876) sem lengst bjuggu á Grímsstöðum í Reykholtsdal. Magnús
er þó fæddur að Lundi í Lundarreykjadal 3. júní 1825,5 fyrsta barn for-
eldra sinna og þar með elstur í stórum systkinahóp.6 Hann varð snemma
bókhneigður og séra Búi Jónsson (1804–1848) á Prestbakka í Hrútafirði
tók að sér að kenna honum undir skóla þar sem hann taldi Magnús „hið
líklegasta mannsefni bæði sökum gáfna sinna, skapsmuna og hjartalags.“7
Magnús settist í Bessastaðaskóla 1842 en lauk prófi frá Reykjavíkurskóla
1848. Hann lauk síðan tveggja ára námi í Prestaskólanum en vann þá jafn-
framt fyrir sér sem dyravörður og kyndari Lærða skólans og hafði því
ekki tök á að sitja fyrirlestra og æfingar sem fram fóru á vinnutíma hans.
Magnús lauk þó prófi og í brottfararskírteini hans er sagt að hann hafi
„ljósar og liprar gáfur og eigi hægt með að koma orðum að því sem hann
veit.“8 Næstu árin átti Magnús heimili í Reykjavík, hann fékkst við blaða-
mennsku, þýðingar, ritstörf og veitingasölu, en árið 1855 var honum veitt
prestsembætti að Mosfelli í Mosfellsveit sem hann gegndi til dauðadags,
18. janúar 1860. Magnús kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur (1815–1880) 28.
september 1848. Dóttir þeirra, Ragnheiður (1850–1909), var eina barnið
sem upp komst, en a.m.k. þrjú önnur voru andvana fædd.9 Ragnheiður fór
með föðurfólki sínu til Vesturheims og segir Sighvatur Grímsson að hún
hafi alltaf verið fátæk og „heilsulin“ og oft haft „óyndi“, hún giftist ekki og
átti engin börn.10
5 Hallgrímur Hallgrímsson, „Magnús Grímsson,“ 115–116, við ritun um æviatriði Magnúsar
er að mestu stuðst við ritgerð Hallgríms. Æviatriði Magnúsar eru rakin í mörgum öðrum
heimildum þar sem fjallað er um hann og verk hans, þeirra verður getið í öðru samhengi
smám saman.
6 Heimildum ber ekki saman um hvort þau Grímur og Guðrún eignuðust þrettán, fimmtán
eða sextán börn, en ellefu virðast hafa náð fullorðinsaldri.
7 Hallgrímur Hallgrímsson, „Magnús Grímsson,“ 116.
8 Sama heimild, 117.
9 Lbs 2362 4to, Sighvatur Grímsson, Prestaævir á íslandi, 307v.
10 Lbs 2362 4to, 311r.