Gripla - 2020, Síða 119
GRIPLA118
Nú er högum mínum svo varið, sem Yður er að nokkru leyti kunn-
ugt, að skyldustörf liggja á mér, sem eg má ekki og get ekki af mér
snarað, 8 stundir dags daglega. En þar að auki stendur æfinlega svo
illa á um miðjan veturinn, þegar hér mætist póstskip frá útlöndum
og póstafgreiðslur í allar áttir innan lands, að eg hlýt þá að erviða á
skrifstofunni frá 9 til 12 tíma á dag, og félagi minn Síra Magnús á
Mosfelli er, auk sjálfsagðra skyldustarfa, sökum fjarlægðarinnar,
sem er milli okkar, hér um bil 2 mílur, ekki eins vel fallinn til að
veita mér sína liðsemd, eins og ef hann væri hér í bænum.62
Við landa sinn Guðbrand Vigfússon er Jón öllu opinskárri:
Þér ætlið, að mér verði mikið lið að síra Magnúsi Grímssyni, og má
vera að svo verði, en eptir hinu auma ástandi hans sem nú er, horfir
ekki til mikils úr þeirri átt, nema ef hann gæti hreinskrifað eitthvað
af því, sem hann hefir áður safnað, eða í bezta lagi, ef hann skrifaði
það alt. En hans safn er alt frá skólaárum hans svo að segja, eg veit
ekki hvort hann hefir bætt neinu við í vetur. Þér vitið eins og eg, ef
til vill, að hann er of mjög gefin fyrir vín, og búskapurinn fer því á
ringulreið, heimilisstaðan örðug, og í sveitinni þykir arðlítið að sitja
við skriptir nema prédikanir.63
Magnús Grímsson lést 18. janúar 1860 og eftir það er aldrei minnst á
það í bréfaskriftum þremenninganna, Jóns Árnasonar, Konrad Maurers
og Guðbrands Vigfússonar að nafn hans sé nefnt sem meðútgefanda
þjóðsagnasafnsins. Það er þó alveg ljóst að þangað til litu þeir allir á hann
sem samstarfsmann Jóns. Guðbrandur óskar þeim báðum til hamingju
með útgáfusamninginn í bréfi til Jóns og í sama bréfi nefnir hann sam-
starf þeirra við útgáfuna á Mjallhvítarsögunni, sem Magnús þýddi.64 Það
er frekar svo að sjá að Magnús sjálfur hafi ekki reiknað með að taka mik-
inn þátt í útgáfunni. Eina bréfið sem hefur varðveist frá honum til Jóns
Árnasonar er einmitt það þar sem hann lýsir gleði sinni yfir því að samn-
ingur um útgáfu þjóðsagnasafnsins sé í höfn. Þar segir m.a.:
62 Lbs 2655 8vo, bréf frá Jóni Árnasyni til Konrad Maurers skrifað 14. nóvember 1859 í
Reykjavík. Bréfið er pr. í Úr fórum jóns Árnasonar, I 166–169.
63 Bodl. GV Icel. d.1, bréf frá Jóni Árnasyni til Guðbrands Vigfússonar skrifað 19. júní 1859 í
Reykjavík.
64 NKS 3010 4to, bréf frá Guðbrandi Vigfússyni til Jóns Árnasonar, skrifað 10. apríl 1859 í
Kaupmannahöfn. Bréfið er pr. í Úr fórum jóns Árnasonar, I 111–113.