Gripla - 2020, Page 296
295
Ad beatam virginem („Til hinnar sælu meyjar“) hafi hann gengið „lengra en
evangelískir kennimenn yfirleitt í hugleiðingum um Maríu“.8
Marteinn Lúther var raunar ekki mótfallinn sléttsöng þótt tónlist af
þeim toga fengi minna hlutverk í hinni lúthersku kirkjudeild en þeirri kaþ-
ólsku. í Deutsche Messe vnd Ordnung Gotes diensts (1526) mæltist Lúther til
þess að sléttsöng yrði áfram við haldið, ekki síst í bæjum og borgum þar
sem latínuskólar störfuðu, því að honum var umhugað að ungviðið kynntist
bæði gömlu lögunum og tungumálinu sem sungið var á. Afstaða Lúthers
í kirkjusöng var einmitt dregin eftir mærum tungumálsins; hann kaus að
hin nýrri þýsku sálmalög væru sungin á móðurmálinu en sléttsöngur á
latínu.9 í seinni útgáfum á söngbók Johanns Walter (Gesangbüchlein, 1.
útg. 1524) má jafnvel greina aukinn fjölda latínusöngva, sem er til marks
um vilja kirkjuleiðtoga til þess að einhver latínusöngur héldist á öllum
meginhátíðum. Sömuleiðis var mikið um sléttsöng í annarri lykilsöngbók
snemmlútherskunnar, Psalmodia, hoc est, Cantica sacra veteris Ecclesiae sel-
ectae sem guðfræðingurinn Lucas Lossius gaf út árið 1553. Innan tónlistar-
fræðinnar er þó oftar en ekki fjallað um hinn kaþólska og lútherska söngarf
sem aðskilin fyrirbæri og þeirri skörun sem greina má milli þeirra lítill
gaumur gefinn.
Sléttsöngvar í sálmabók og gröllurum
Áður en fjallað er um sléttsöng í prentuðum bókum íslenskum þarf fyrst
að gera grein fyrir þeim ritum sem voru á sinn hátt fyrirmyndir þeirra.
Helstu söngbækur dönsku kirkjunnar á síðasta þriðjungi 16. aldar voru
Den danske Psalmebog (útg. Hans Thomissøn, 1569) og Graduale (útg.
Niels Jesperssøn, 1573). Þessi rit lögðu línur fyrir messusöng í Danaveldi
en voru um margt ólík. Bók Thomissøns geymir að mestu lútherska sálma
8 Sama heimild, 74. Fleira bendir til þess að íslendingar hafi verið tregir til að segja með öllu
skilið við Maríudýrkun eftir siðbreytingu. Til dæmis hefur kvæðið Maríutíðir varðveist
heilt í handriti frá 18. öld (Lbs 3013 8vo) og brot af því í öðru handriti, einnig frá 18. öld (íB
629 8vo); sjá Svanhildur óskarsdóttir, „í ástarbing. Marian Sentiments in Lbs 3013 8vo,“
sainthood, scriptoria, and secular Erudition of Medieval and Early Modern scandinavia, ritstj.
Dario Bullitta og Natalie Van Deusen (Turnhout: Brepols, væntanleg).
9 Christian Thomas Leitmeir, „Beyond the Denomenational Paradigm: The Motet as
Con fessional(ising) Practice in the Later Sixteenth Century,“ Mapping the Motet in the
Post-tridentine Era, ritstj. Esperanza Rodríguez-García og Daniele V. Filippi (London:
Routledge, 2019), 156.
SLÉTTSÖ NGUR í LúTHERSKUM SIÐ Á í SLANDI