Gripla - 2020, Síða 297
GRIPLA296
þótt þar sé einnig að finna nokkra sléttsöngva í danskri þýðingu, en í riti
Jesperssøns fær sléttsöngur við latneska texta mun meira vægi. Líklega
var slíkur söngur almennt á undanhaldi um það leyti sem hið danska
Graduale kom út, þótt hann hafi lifað í einhverja áratugi í bæjum þar sem
latínuskólar voru starfræktir.10 Siðbreytingarmenn í Danmörku vildu að
einhverju leyti halda í gamla siði og má vera að menning húmanista hafi
þar haft áhrif, ekki síst eftir að Kaupmannahafnarháskóli opnaði dyr sínar
að nýju sem lúthersk menntastofnun árið 1537.11
Tiltölulega lítið er um sléttsöng í sálmabók Guðbrands Þorlákssonar frá
1589. Að mestu er þar fylgt meginlínum dönsku litúrgíunnar: jólasekvens-
inn Grates nunc omnes án nótna á latínu og íslensku (15v), versið Resurrexit
Christus / Christur reis upp frá dauðum á páskadag (46v), sekvensar fyrir
páska (victimae paschali laudes, 52r–v) og hvítasunnu (Kom Guð helgi andi
hér / veni sancte spiritus, 60v–61r), íslensk þýðing á Kyrie fons bonitatis
(Kyrie Guð faðir sannur, án nótna, 61r) og te Deum. Allt er þetta efni í
sálmabók Thomissøns, og hefur hún marga sléttsöngva til viðbótar sem
sleppt er í íslenska prentinu. Einhverjir þeirra voru þó sungnir hér á landi,
því þá er að finna í handriti frá 18. öld (sjá nánar að aftan). Eina óvænta
frávikið í sálmabók Guðbrands biskups er sekvensinn Hátíð þessa heimsins
þjóð (Celeste organum, 19v–20v), sem ekki er í neinum dönskum heim-
ildum úr lútherskum sið. Um þennan söng og aðra sekvensa í íslenskum
heimildum er fjallað hér að aftan.
í Graduale Niels Jesperssøns frá árinu 1573 er mun meira um sléttsöng
en í dönsku sálmabókinni. Við efnisval í rit sitt fylgdi Jesperssøn almennt
þeim boðum Lúthers sem getið var hér að framan, að sléttsöngur skuli
sem fyrr hafa gömlu latínutextana en nýir hrynbundnir sálmar sungnir á
móðurmáli safnaðarins. Jesperssøn gaf iðulega kost á tvenns konar efni
við tiltekinn messulið eftir því hvort messa væri sungin í kaupstað, þar
sem meira var um latínusöng, eða til sveita. Einu sléttsöngvarnir í danskri
þýðingu í riti hans eru te Deum (O Gud wi loffue dig), sem tekið er fram
10 Henrik Glahn, Melodistudier til den lutherske salmesangs historie fra 1524 til ca. 1600 (Kaup-
mannahöfn: Rosenkilde og Bagger, 1954), 1:52; eftirmáli við niels jesperssøns Gradu ale 1573
(Kaupmannahöfn: Dan Fog Musikforlag, 1986), 513.
11 Nils Holger Petersen, „Continuity and Change: The Official Danish Lutheran Gradual
of Niels Jesperssøn (1573),“ Music and theology in the European Reformations, ritstj. David
Burn o.fl. (Turnhout: Brepols, 2019), 411.