Gripla - 2020, Síða 300
299
Eins og sjá má af upptalningunni hér að framan var ólíkt meira um
sléttsöngva á móðurmáli í grallara Guðbrands Þorlákssonar 1594 heldur
en í útgáfu Jesperssøns. Þetta kann að styðjast við eldri venju, því að á
íslandi höfðu þegar um miðja 16. öld verið gerðar tilraunir með þýðingar
sléttsöngstexta eins og ráða má af tveimur handritsbrotum með slíku
efni.15 Guðbrandur sótti þó ekkert af efni sínu í umrædd brot, heldur nýtti
hann sér aðrar heimildir og hugsanlega lét hann gera megnið af þýðing-
unum eða þýddi sjálfur. Lagið við „Heilagur, heilagur“ (Sanctus á jólum)
er ekki að finna í dönsku söngbókunum en það stendur við latneska
textann í tveimur íslenskum handritum frá síðustu áratugum 16. aldar
(NKS 138 4to, sem er handrit Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups frá því
um 1575, og grallarahandritinu Thott 154 fol.); það stendur einnig í fjölda
handrita frá Englandi og meginlandi Evrópu og má gera ráð fyrir að það
hafi verið sungið hér á landi fyrir siðbreytingu.16 Af öðrum þýðingum má
nefna Drottinn Guð gjör ei við oss, sem hafður er á íslensku alla lönguföstu,
Dýrðlegi kóngur ó Christe og Páskalamb vér heilagt höfum á páskum, Kom
þú góði heilagi andi á hvítasunnudag, Kom Guð helgi andi hér á annan og
þriðja í hvítasunnu, auk þriggja sléttsöngva á þrenningarhátíð (Introitus,
Haleluia og sekvens). Sé hugað að því hvernig hinir þýddu sléttsöngvar
dreifast á daga kirkjuársins kemur ákveðið mynstur í ljós. í útgáfu sinni
tryggði Guðbrandur að einhver sléttsöngur væri viðhafður á íslensku á
jólum, páskum, hvítasunnu og þrenningarhátíð, einnig í hinni einfaldari
gerð messunnar á móðurmáli. Svo virðist sem honum hafi þótt æskilegt að
ekki væri aðeins unnt að velja á milli þess að messa á íslensku (sálmalög)
og latínu (sléttsöngur), heldur að jafnvel þegar guðsþjónustan færi fram á
íslensku væri á stórhátíðum kirkjuársins haldið í eitthvað af hinum gamla
söngarfi.
í grallaranum 1594 var latínusöngsins ávallt getið á réttum stað í lit-
úrgíunni en nótur ekki prentaðar nema á stórhátíðum. Bók Jesperssøns var
að finna á báðum biskupsstólunum og því var unnt að syngja hina latnesku
messu þar, en varla höfðu aðrir söfnuðir aðgang að lögunum á prenti.17
15 Árni Heimir Ingólfsson, „Tvö íslensk söngbókarbrot frá 16. öld í Stokkhólmi,“ Gripla 29
(2018): 7–33.
16 NKS 138 4to, 57v; Thott 154 fol., 51v. Sjá einnig Peter Josef Thannabaur, Das einstimmige
sanctus der römischen Messe in der handschriftlichen Überlieferung des 11. bis 16. jahrhunderts
(München: Walter Ricke, 1962), 196–197.
17 í Skálholti voru tvö eintök af Graduale Jesperssøns á 17. öld og tilheyrði annað kirkjunni
SLÉTTSÖ NGUR í LúTHERSKUM SIÐ Á í SLANDI