Gripla - 2020, Page 305
GRIPLA304
Það er líkast því, að eftir siðaskiptin hafi lengi ráðið einskonar
samsteypa af katólsku og lúthersku, og eimdi lengi af því, jafnvel
fram á 18. öld. Það var ekki nema eðlilegt, að svo færi. Prestar voru
alls ekki hámenntaðir, sízt framan af, og var víst oft óljós grein-
armunurinn, og fólkið hafði fátt af bókum og var lítt læst. Þó að
Guðbrandur biskup gerði sitt til að breiða út bækur og sannan
lærdóm, var það lengi að komast inn í alþýðu; menn trúðu að vísu
bókunum og lútherskri kenningu, en létu hitt fljóta með (...)23
Þau nótnahandrit sem varðveist hafa sýna raunar að það sem eftir eimdi
af kaþólskum sið var sannarlega ekki bundið við hina ólærðu og ólæsu.
Allmargir sléttsöngvar eru varðveittir við latneska texta og slíkt var aðeins
á færi skólagenginna, en jafnvel þegar textum var snarað á íslensku eða nýir
ortir í þeirra stað þurfti færni til að flytja slíka tónlist svo vel færi.
Sléttsöngvar gera almennt meiri kröfur í flutningi en hin einfaldari
sálmalög Lúthers, til dæmis um sveigjanlega mótun hendinga og fimi í að
fara lipurlega með langar tónarunur. Söngur af þessum toga, hvort sem
var á íslensku eða latínu, var líklega helst iðkaður af tiltölulega fámennum
hópi menntamanna, skólapilta, klerka og embættismanna. Þeir hafa kynnst
slíkum söng á biskupsstólunum því að þar var honum haldið við lengur en
annars staðar (sbr. handritin NKS 138 4to og Antiphonarium Holense,
sjá nmgr. 26). Nokkuð kemur á óvart hversu margir sléttsöngvar hafa
aðeins varðveist í handritum og eru því viðbót við þann forða sléttsöngva
sem grallarinn geymdi. Lögin virðast ekki eingöngu hafa verið sungin við
guðsþjónustur heldur einnig önnur tækifæri þar sem tilbeiðsla var með
óformlegri hætti. Ekki er ljóst hvort sá hópur sem flutti sléttsöng við
íslenska texta hafi verið sundurleitari og þau jafnvel einnig náð til alþýðu
manna, eða hvort sléttsöngur hafi helst verið iðja hinna efri stétta, hvort
sem var á íslensku eða latínu. Að minnsta kosti virðist mega fullyrða að
söngur af þessu tagi hafi að einhverju leyti verið til marks um þjóðfélags-
stöðu og að í honum hafi falist menningarauðmagn.24
23 Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir, Einar ólafur Sveinsson bjó undir prentun
(Reykjavík, 1934), 372.
24 í formála fyrir 9. útgáfu grallarans (1721) gefur Steinn Jónsson Hólabiskup í skyn að alþýða
manna hafi í einhverjum tilvikum sungið sléttsöng á latínu að eigin vilja, með misjöfnum
árangri þó: „En hvað annars latínusöngnum viðvíkur, veit eg að enginn kann, sem ei skilur
það tungumál, með því Guð að dýrka réttilega. Og þó ólærður almúgi vilji fara með þetta,
má það verða Guðs heilaga nafni framar til lasts en heiðurs“(4v).