Gripla - 2020, Page 307
GRIPLA306
arra helgra daga, einkum þar vér hér í landi höfum ekki instrumenta
musicæ artificialis vel organicæ [neins konar hljóðfæri].25
Þar sem latínusöngurinn var aðallega iðkaður við dómkirkjurnar var
vissulega lítið vit í að gefa honum svo mikið rúm í bók sem átti að vera
til almenns safnaðarsöngs. Það að fella brott latínusöng einfaldaði stórum
litúrgíuna því að hann var bundinn tilteknum messudegi en sálmar á
íslensku voru oft hafðir nokkra sunnudaga í röð. Með brottfalli latnesku
messuliðanna varð söngurinn á sinn hátt fábreyttari en að sama skapi
urðu tengsl tónlistar og kirkjuárs einfaldari og gegnsærri. Þórður biskup
hafði þó ekkert á móti sléttsöng í sjálfu sér. í grallaranum 1691 var enn
nokkuð um þess konar söng á stórhátíðum (á latínu) en einnig á öðrum
messudögum við íslenskan texta. Hann bætti meira að segja við tveimur
sléttsöngvum í íslenskri þýðingu: Heilagur, heilagur á þrenningarhátíð,
sem einnig er að finna í nokkrum handritum frá um 1600 (sjá töflu 2, bls.
324–326), og jólasekvensinum Hátíð þessa heimsins þjóð / Celeste organum
sem áður hafði birst í sálmabókunum 1589 og 1619. Þetta reyndust síðustu
viðbætur sléttsöngs í íslenska grallarann; frá og með 9. útgáfu hans (1721)
var latínusöngur felldur burt með öllu. Sléttsöngvar á móðurmáli héldust
flestir allt til síðustu útgáfu 1779.
Sléttsöngvar í íslenskum handritum eftir 1550
Ríflega 30 sléttsöngvar sem ekki voru prentaðir í útgefnum bókum hafa
varðveist í íslenskum handritum (sjá töflu 2).26 Af þeim eru 22 við íslenska
texta; þar af er um helmingur í tveimur handritum sem virðast skrifuð
25 Þórður Þorláksson, formáli fyrir Graduale, 6. útg. (1691), 3r.
26 Þrjú handrit sem einnig geyma latínusöng eru undanskilin í þessari grein þar sem þau eru
að nokkru leyti annars eðlis og um þau hefur verið ritað áður. Handritin NKS 138 4to (á
Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn) og „Antiphonarium Holense“ (á Þjóðskjalasafni
íslands) eru bæði skrifuð um 1570–1580 og hafa að geyma tíðasöng, hið síðarnefnda
einnig að nokkru leyti messusöng; sjá Arne J. Solhaug, Et luthersk graduale-håndskrift fra
1500-tallet: spor av nidarostradisjon i Island (ósló: Norges musikkhøgskole, 2003) og Jón
Þórarinsson, „Latnesk tíðasöngsbók úr lúterskum sið,“ Ritmennt 6 (2001): 67–82. Handritið
AM 622 4to hefur að geyma latínusöngva sem þó hafa ekki litúrgískt hlutverk og suma
þeirra má fremur telja skólasöngva. Þótt nótnaskrift handritsins gefi ekki til kynna hryn er
ljóst af erlendum heimildum að margir þeirra voru sungnir með hrynbundnum hætti; sjá
Marius Kristensen, En klosterbog fra middelalderens slutning (AM 76, 8o) (Kaupmannahöfn,
1933), xviii–xxvii og 205–237.