Gripla - 2020, Qupperneq 311
GRIPLA310
söngs-tvísöngva í AM 102 8vo (sjá að neðan) vísbending um að þessar
tvær sönghefðir hafi að einhverju leyti haldist í hendur. Að því leyti sem
tvísöngshefð 17. aldar byggðist enn á ritmenningu tilheyrði hún hinum efri
stéttum samfélagsins og hér fylgjast því að efniviður og flutningsmáti.
Annað handrit frá svipuðum tíma sem hefur að geyma sléttsöngva
er AM 102 8vo, kvæðabók talin rituð um 1680, með nótnakveri aftast.
Handritið er að hluta með hendi Guðbrands Jónssonar, sonar sr. Jóns Ara-
sonar í Vatnsfirði, og virðist líklegt að það sé allt sprottið úr því umhverfi.30
Alls eru í handritinu ellefu lög, allt tvísöngvar nema tvö síðustu sem eru
fyrir fjórar raddir. Þrjú laganna eru við latneska texta og virðist ljóst að
skrifari handritsins og þeir sem sungu úr því voru menntamenn sem kunnu
skil á bæði latínu og tónlist. í handritinu eru tveir sléttsöngvar, annað og
þriðja lag í röðinni. Annar þeirra er sekvensinn stans a longe við íslenska
þýðingu textans, sem er útlegging sögunnar um tollheimtumanninn í
helgidóminum, úr Lúkasarguðspjalli 18:13–14 (stóð álengdar staðlaus að gá,
sjá hér aftar). í rómversk-kaþólskum söngbókum er þessi söngur hafður
á tilteknum degi (tíunda sunnudag eftir hvítasunnu) en eftir siðbreyt-
ingu var hann hugsanlega fluttur við önnur og fjölbreytilegri tækifæri en
messugjörð.
Hinn söngurinn, O jesu dulcissime, á sér flóknari sögu. Textinn hefst á
tveimur línum úr versi sem eignað var heilögum Bernharði frá Clairvaux
(d. 1153) og var alþekkt á miðöldum og lengur. Hér á landi var það prentað í
íslenskri þýðingu í flestum gröllurum og sálmabókum, og erlendis varð það
tónskáldum innblástur til tónsmíða allt fram á 17. öld: „ó Jesú sálar unun
trú / allra sætasti minn Jesú.“31 í AM 102 8vo hefur upphafslínunum verið
skeytt saman við gamalt Maríukvæði, O florens rosa, sem var sungið víða
30 Um handritið sjá nánar Árni Heimir Ingólfsson, „AM 102 8vo, Kvæða- og tvísöngsbók frá
Vestfjörðum,“ Góssið hans Árna. Minningar heimsins í íslenskum handritum, ritstj. Jóhanna
Katrín Friðriksdóttir (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2014),
36–49; Þórunn Sigurðardóttir, „Constructing Cultural Competence in Seventeenth-
Century Iceland. The Case of Poetical Miscellanies,“ Mirrors of virtue. Manuscript and
Print in Late Pre-Modern Iceland, ritstj. Margrét Eggertsdóttir og Matthew James Driscoll
(Kaupmannahöfn: Museum Tusculanum Press, 2017), Bibliotheca Arnamagnæana 49,
Opuscula 15, 308–311.
31 „O Jesu mi dulcissime,“ sjá André Wilmart, O.S.B., Le “jubilus” dit de saint Bernard (Étude
avec textes) (Róm: Edizioni di “Storia e letteratura”, 1944), 189. íslenska þýðingin er sótt í
Graduale 1691 og er hún eftir Pál Jónsson rektor í Skálholti, sjá Páll Eggert ólason, Upptök
sálma og sálmalaga, 152–153.