Gripla - 2020, Page 322
321
hér á landi eftir siðbreytingu. Guðsþjónusta á þeim degi var lögbundin til
ársins 1770 en haldið var til dagsins mun lengur.47
Annað og umfangsmeira dæmi um iðkun sléttsöngs á síðari hluta 18.
aldar er Lbs 1239 8vo sem er handrit upp á 204 síður í grallarabroti og
hugsanlega ættað af Snæfellsnesi. Á titilsíðunni stendur: „Nockrer psalmar
og saungvar. Samantijnt epter sem feingest hefur ur ýmsum Bökum og
i eitt samanskrifad ANNO 1764.“ Fremst standa „Nockrer psalmar og
sóngvar Epter þeirre Dónsku psalmabök, sem prentud var í Kaupenhafn
Anno 1569“, þ.e. sálmabók Thomissøns. Meðal hinna dönsku „sálma og
söngva“ eru sléttsöngvar úr riti Thomissøns sem ekki finnast í öðrum
íslenskum heimildum. Alls eiga sjö lög í þessu handriti uppruna sinn í
kaþólskum kirkjusöng en birtast hér í íslenskum þýðingum sem hvergi er
vitað um annars staðar (sjá töflu 2, bls. 324–326). Tíu lög til viðbótar eru
við íslenskar þýðingar á dönskum sálmum úr bók Thomissøns.
Þótt ofangreind lög séu sótt í sálmabók Thomissøns eiga þau sér mun
lengri sögu.48 Hið fyrsta, Regnum mundi et omnem ornatum saeculi, er svar-
söngur eða Responsorium, sungið við náttsöng á hátíðum meyjardýrlinga
sem ekki áttu sinn eigin tíðasöng (commune virginum). Gloria laus et honor
er hymni sem frá fornu fari hefur verið sunginn sem prósessíusálmur
á pálmasunnudag, rétt eins og getið er í yfirskrift í íslenska handritinu:
„Ma sÿngia ä PalmaSunnudag“. Ekki er þó víst að hann hafi verið hafður
sem göngulag hjá mönnum siðskiptanna enda var Lúther andvígur slíkum
venjum.49 Páskasöngurinn sedit angelus er í ýmsum miðaldaheimildum, meðal
annars grallara Tómasarkirkjunnar í Leipzig frá 14. öld. Lag og texti tengist
upphaflega páskaritúali þar sem frásögnin af upprisu Krists var leikin í tali
og tónum. í dönsku sálmabókinni er lagið í tveimur ólíkum þýðingum við
sama lag sem annars vegar er skrifað út með kvaðratnótnaskrift, hins vegar
nóterað í heilnótum og hálfnótum við danska þýðingu Hans Tausen.50 Báðar
gerðirnar eru í Lbs 1239 8vo við tvær ólíkar íslenskar þýðingar. Miskunna
oss eilífi Guð er hluti stærri söngs; sekvensinn Ave præclara maris stella var í
kaþólskum sið sunginn við himnaför Maríu (In Assumptione Beatae Mariae
47 Árni Björnsson, saga daganna (Reykjavík: Mál og menning, 1993), 606.
48 Um uppruna laganna og sögu þeirra innan dansks kirkjusöngs sjá Henrik Glahn,
Melodistudier, 1: 51–53; 67–71.
49 Sama heimild, 1:71.
50 Sama heimild, 1:68; Hans Thomissøn, Den danske Psalmebog (Kaupmannahöfn, 1569) 87v–
88v.
SLÉTTSÖ NGUR í LúTHERSKUM SIÐ Á í SLANDI