Morgunblaðið - 16.06.2020, Page 19

Morgunblaðið - 16.06.2020, Page 19
MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. JÚNÍ 2020 einstaklega fær að skrifa stuttar en hnitmiðaðar blaðagreinar með grípandi fyrirsögnum. Reykjavíkurlistinn varð til ár- ið 1994 og tók Alfreð mikinn þátt í undirbúningi að stofnun hans. Reykjavíkurlistinn er örugglega með því merkilegra sem gerst hefur í samvinnu flokka. Allir flokkar og samtök sem voru í stjórnarandstöðu í Reykjavík á þessum árum ákveða að samein- ast um framboð til borgarstjórn- ar í nafni jafnræðis og samstöðu. Alfreð Þorsteinsson var einn af burðarásunum og sat fyrir hönd Reykjavíkurlistans í tólf ár í borgarstjórn. Reyndar má segja að jafnræði flokkanna í upphafi hafi að hluta til raskast við stofn- un Samfylkingarinnar árið 2000. Alfreð kom að fjölmörgum málefnum á löngum ferli á vett- vangi borgarstjórnar. Hugleikin voru honum margvísleg fram- faramál á sviði framkvæmda og naut hann sín sem stjórnarfor- maður Orkuveitu Reykjavíkur sem og í stjórn Innkaupastofn- unar borgarinnar. Íþróttamálin stóðu honum eflaust þó hjarta næst. Alfreðs verður ekki síst minnst fyrir forystu hjá Íþrótta- félaginu Fram og ÍSÍ og sem baráttumanns fyrir öflugu íþróttastarfi í borginni. Á undanförum árum hefur síminn að mestu verið okkar samskiptamáti. Þó að Alfreð hafi að mestu dregið sig í hlé undan- farin ár vegna veikinda var hug- urinn og viljinn til athafna samur við sig. Símtölin snerust samt ekki síður orðið um fjölskyldur okkar. Það gladdi hann að Lilja dóttir hans ákvað að sigla út á haf stjórnmálanna. Ég votta Guðnýju, dætrunum Lindu og Lilju og fjölskyldum þeirra innilega hluttekningu. Sigrún Magnúsdóttir. Kveðja frá Íslenskri getspá Alfreð Þorsteinsson var fé- lagsmálamaður í besta skilningi þess orðs. Hann var forystumað- ur Fram til margra ára og síðar stjórnarmaður Íþróttasambands Íslands. Alfreð var heiðursfélagi ÍSÍ. Alls staðar öflugur málsvari íþróttanna. Það kom því ekki á óvart að Alfreð skyldi fenginn til að setjast í fyrstu stjórn Ís- lenskrar getspár árið 1986 og þar sat hann fyrstu ellefu ár fyrir- tækisins til ársins 1997. Hann leiddi ásamt félögum sínum Ís- lenska getspá af festu fyrstu skrefin og þar voru mörkuð mörg gæfusporin. Hann sinnti störfum sínum afar vel sem stjórnarmað- ur og var vakandi fyrir hagsmun- um eigenda og neytenda. Hann var virtur af stjórn og starfsfólki. Það var alltaf gott að geta leitað ráða hjá Alfreð um ýmis atriði er tengdust rekstri félagsins. Ís- lensk getspá hefur misst góðan félaga og liðsmann, hans verður sárt saknað en verk hans og framlag í þágu Getspár mun lifa. Á þessari stundu er hugur okkar hjá fjölskyldu Alfreðs og sendum við þeim okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Stefán Snær Konráðsson. Kveðja frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands Fallinn er frá Alfreð Þor- steinsson, heiðursfélagi ÍSÍ. Alfreð var kjörinn heiðurs- félagi ÍSÍ á 69. Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2009 en það er æðsta heið- ursviðurkenning ÍSÍ sem ein- ungis þeir hljóta sem starfað hafa ötullega og um langt árabil innan íþróttahreyfingarinnar. Áður hafði Alfreð fengið heiður- skross ÍSÍ, sem er æðsta heið- ursmerki sambandsins. Áhugi Alfreðs á íþróttum kviknaði snemma á lífsleiðinni og hann vildi ætíð veg þeirra sem mestan. Hann æfði og keppti í knattspyrnu með Knattspyrnu- félaginu Fram þegar hann var barn og unglingur og þjálfaði síð- ar yngri flokka félagsins um skeið. Hann var formaður Fram árin 1972-1976 og aftur 1989- 1994 og átti sæti í framkvæmda- stjórn ÍSÍ um tíu ára skeið, árin 1976-1986. Að auki gegndi hann ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna í gegn- um tíðina og var virkur í hópi heiðursfélaga ÍSÍ og Fram. Alfreð var einn af þeim sem stóðu að stofnun Íslenskrar get- spár sem hefur reynst gríðarlega mikilvægur stuðningsaðili íþróttahreyfingarinnar og ör- yrkja allt frá stofnun. Alfreð tók sæti í fyrstu stjórn félagsins árið 1986 og og var stjórnarmaður til 1997, þar af stjórnarformaður í fjögur ár. Stendur íþróttahreyf- ingin í þakkarskuld við hann og annað framsýnt fólk sem sýndu þá djörfung að stofna til fyrir- tækisins sem margir töldu þá feigðarflan. Í öðrum störfum sínum, ekki síst á vettvangi Reykjavíkur- borgar, vann Alfreð einnig ómet- anlegt starf í þágu íþróttahreyf- ingarinnar með því að styðja við hagsmunabaráttu hennar og sýna málefnum hreyfingarinnar ætíð áhuga og velvilja. Íþrótta- og ólympíusamband Íslands kveður góðan liðsmann sem sannarlega var alltaf til stað- ar þegar til hans var leitað. Send- um við fjölskyldu Alfreðs innileg- ar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu hans. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ. Davíð Oddsson kynnti mig fyr- ir Alfreð Þorsteinssyni árið 1977. Upp frá því, fyrir orð Davíðs, unnum við Alfreð saman að ýms- um málum allt til ársins 1996. Þá skildi leiðir og ég hætti að sinna þeim málum sem við Alfreð höfð- um unnið saman við. Alfreð var úrræðagóður og jafnan yfirveg- aður í ákvörðunum. Aldrei sinn- aðist okkur enda höfðum við báð- ir þann fyrirvara á samstarfinu að það yrði að byggjast á sam- dóma mati okkar á því hvað var gerlegt og hvað ekki. Ég mat mannkosti Alfreðs. Aldrei hirti ég um að spyrja hann hvað heill- aði hann við stefnu Framsóknar- flokksins enda kom mér það ekk- ert við. Þegar Halldór Ásgrímsson varð utanríkisráð- herra mátti okkur Alfreð báðum vera ljóst að Halldór og hans menn höfðu aðra sýn en við Al- freð. Það varð mér til happs að kynnast aldrei Halldóri. Alfreð taldi sig hafa fengið verðugt verk að vinna við nýjan Landspítala en Guðlaugur Þór Þórðarson var á öðru máli. Við hittumst síðast við Alfreð á tveggja manna tali árið 2000 þar sem við vorum báð- ir í stangveiði. Við vorum sam- mála um að tala ekki um liðna tíma. Töluðum frekar um veiði- flugur og tökustaði. Skildum sem samstarfsmenn og létum það nægja. Hittumst aldrei síðan. Róbert Trausti Árnason. Kveðja frá Framsókn Fallinn er frá Alfreð Þór Þor- steinsson, fæddur lýðveldisárið 1944. Alfreð var 18 ára gamall farinn að vinna sem íþróttablaðamaður fyrir Tímann, málgagn fram- sóknarmanna. Allt frá þeirri stundu var hann virkur í flokks- starfi Framsóknarflokksins. Alfreð var kjörinn varaborg- arfulltrúi í borgarstjórnarkosn- ingunum 1970 en varð borgar- fulltrúi ári síðar. Var hann endurkjörinn til setu í borgar- stjórn í kosningunum 1974. Hann varð formaður félagsins í Reykjavík og hélt uppi merkj- um flokksins í borginni með flokksstarfi og framsóknarvist í mörg ár. Hann var samvinnu- maður og félagsmaður sem taldi farsælast að vinna flokknum og fylgjendum hans allt hið besta innan frá. Margir eiga góðar og innilegar minningar frá sumar- ferðum framsóknarfélaganna í Reykjavík á hans formannsárum. Fyrir borgarstjórnarkosning- arnar 1986 var staða framsókn- armanna í Reykjavík ekki góð samkvæmt skoðanakönnunum. Alfreð hafði á ný verið kjörinn formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur árið áður og í vissu þess að ætla mætti að fylgi flokksins væri mun meira í kosn- ingum var stillt upp framboðs- lista með Sigrúnu Magnúsdóttur sem oddvita og Alfreð í öðru sæti. Reynslan gaf framsóknar- fólki sannfæringu um að berjast áfram. Sagan hefur kennt að fylgi flokksins á til að dala um tíma en það hefur sýnt sig að undirstaðan er traust og kraft- urinn mikill þegar á reynir. Alfreð var varaborgarfulltrúi allt til ársins 1994 er Framsókn- arflokkurinn tók þátt í framboði Reykjavíkurlistans, er felldi eft- irminnilega meirihluta Sjálf- stæðisflokksins. Alfreð var borg- arfulltrúi allt til ársins 2006 og voru honum falin margvísleg og vandasöm störf. Óhætt er að full- yrða að stærsta og vandasamasta verkefnið á hans borði hafi verið að stofna Orkuveitu Reykjavíkur 1999, með sameiningu Raf- magnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Ári síðar var Vatnsveita Reykjavíkur sam- einuð Orkuveitunni. Lyft var grettistaki og byggt upp einstakt og öflugt og framsýnt fyrirtæki í þágu borgarbúa. Framlag Al- freðs Þorsteinssonar í Reykja- víkurlistaframboðinu var mikil- vægt, enda með mikla reynslu úr borgarmálunum, allt frá árinu 1970, og hafði gott pólitískt nef. Hann var fljótur að átta sig og snöggur að svara klækjum and- stæðinganna. Það tekur enginn af honum sem hann áorkaði. Alla tíð lagði Alfreð sig fram um að sinna íþróttahreyfingunni vel. Félagsmálastörf voru honum í blóð borin. Knattspyrnufélagið Fram stóð hjarta hans næst og spilaði hann með yngri flokkum félagsins og átti síðar eftir sem formaður félagsins að standa að byggingu félagsheimilisins í Safamýri og seinna íþróttahúss Fram. Þeir sem kynnast félagsstörf- um vita að oft er starfið borið uppi af eldhugum. Alfreð var einn þeirra; framsýnn hugsjóna- maður, sem samfélag hans, borg- in hans, naut ávaxtanna af. Fyrir hönd Framsóknar votta ég eftirlifandi eiginkonu Alfreðs, Guðnýju Kristjánsdóttur, og dætrunum Lilju Dögg og Lindu Rós og fjölskyldum þeirra inni- lega samúð. Við Elsa óskum þess að góður guð styrki ykkur í sorginni en minning um góðan dreng lifir. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar- flokksins. Þeir voru bjartir, hlýir og sól- ríkir dagarnir vorið 1994 þegar Reykjavíkurlista-ævintýrið hófst. Þessa daga hófust líka kynni okkar Alfreðs Þorsteins- sonar sem ég þekkti ekkert fyrir. Vissi það eitt að hann var fram- sóknarmaður og Frammari og í sjálfu sér var sú blanda býsna áhugaverð. Samstarf okkar Al- freðs átti eftir að verða gott og farsælt öll þau ár sem Reykjavík- urlistinn stjórnaði borginni, í samtals tólf ár. Við sátum saman í stjórn veitustofnana, síðar Orkuveitu Reykjavíkur og borg- arráði. Hann hafði ávallt mikinn áhuga á íþrótta- og tómstunda- málum og tók hanskann upp fyrir mig í byrjun samstarfsins þegar ég varð formaður ÍTR, ungu kvennalistakonuna sem margir innan íþróttahreyfingarinnar höfðu áhyggjur af að vissi ekkert, kynni ekkert og hefði ekkert vit á íþrótta- og æskulýðsmálum. En Alfreð hafði tröllatrú á mér og bakkaði mig upp í mínu. Hann var óspar á gagnrýni þegar þess þurfti en hrósaði líka þegar vel var gert. Öll ár Reykjavíkurlist- ans var Alfreð formaður Orku- veitu Reykjavíkur og sem slíkur stóð hann oft í ströngu, var fylginn sér innan meirihlutans og afar pragmatískur í því hvernig hann nálgaðist mál. Þegar ég varð borgarstjóri í lok árs 2004 stóð Alfreð þétt við hliðina á mér og var alltaf gott að eiga hann að í flóknum úrlausnarefnum. Það er ekki hægt að minnast á Alfreð öðruvísi en að nefna Guðnýju sem var Alfreð mikils virði þótt hann væri alla jafna dulur á sín prívatmál. Þegar Guðnýju og dæturnar bar á góma birti yfir Alfreð og hann var alltaf stoltur af sínum. Á endurfundum kjör- inna fulltrúa Reykjavíkurlistans fyrir ári á björtum og fallegum vordegi, 25 árum eftir að við hitt- umst fyrst, var Alfreð kátur þótt nokkuð væri af honum dregið. Þar var Alfreð eins og ég man hann, spurði frétta af litla Þrótt- aranum og hvatti mig til dáða í mínum verkefnum. Að leiðarlokum viljum við Óli þakka Alfreð Þorsteinssyni sam- fylgdina og votta Guðnýju konu hans, dætrunum Lilju Dögg og Lindu Rós og fjölskyldunni okk- ar dýpstu samúð. Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Þar fornar súlur flutu á land við fjarðarsund og eyjaband, Þeir reistu Reykjavík. Hún óx um tíu aldabil, naut alls, sem þjóðin hafði til. (E. Ben.) Einn af bestu sonum Reykja- víkur, Alfreð Þorsteinsson, er horfinn yfir móðuna miklu. Al- freð var Reykvíkingur, alinn upp í borginni og átti þar sitt líf, frama og frægð. Hann var klár á því í allri sinni vinnu að málefn- um Reykjavíkur og Reykvíkinga að Reykjavík á að vera efnahags- leg, menningarleg og stjórnmála- leg þungamiðja landsins. Á blómatíma Framsóknarflokksins um 1970, þegar þeir Einar Ágústsson og Kristján Bene- diktsson fóru fyrir framboði flokksins hér í borginni, komu fram m.a. tveir ungir menn, þeir Guðmundur G. Þórarinsson og Alfreð Þorsteinsson. Guðmundur skipaði þriðja sætið, baráttusæt- ið, og vann það. En Alfreð fylgdi í kjölfarið og tók við sæti Einars þegar hann varð utanríkisráð- herra. Það varð svo samkomulag þeirra félaga að Guðmundur myndi verja þriðja sætið í kosn- ingunum 1974 en Alfreð yrði í öðru sæti, og munaði örfáum at- kvæðum að Guðmundi tækist ætlunarverk sitt. Alfreð var góður knattspyrnu- maður og lék með Knattspyrnu- félaginu Fram og þjálfaði yngri flokka félagsins. Hann var mikill áhugamaður um íþróttir, hans heimahöfn var Fram og þar óx hann að vexti og visku og íþrótta- hreyfingin mat hann mikils. Hann hlaut æðsta heiður ÍSÍ og Fram. Alfreð varð ungur íþrótta- fréttamaður Tímans og naut sín þar og drakk í sig pólitíkina með, hjá þeim Þórarni Þórarinssyni ritstjóra og Eysteini Jónssyni, formanni flokksins. Framsókn- arflokkurinn var þverklofinn á þessum árum í herstöðvarmálinu og mikil átök áttu sér stað um stöðu og stefnu flokksins. Glaumbær varð frægur átaka- staður framsóknarmanna og Al- freð skipaði sér í sveit með þeim sem vildu fara hægar í sakirnar og að vestræn samvinna væri mikilvægari en roðinn í austri. Hinir rótæku vinstrisinnuðu framsóknarmenn töldu Alfreð hægrisinna, en það var þá skammaryrði í flokknum. Hinir róttæku vildu ganga það langt að sumir þeirra vildu leggja Fram- sóknarflokkinn óbættan til að sameina vinstrimenn í einum flokki. Alfreð varð einn af harð- snúnustu andstæðingum þess að horfa í austrið og leggja fram- sókn í púkkið. Alfreð var mikill áhrifamaður í flokknum og hafði pólitískt nef og með rólegheitum leysti hann hin flóknustu mál. Vinir og sam- herjar leituðu oft í smiðju hans, því hann kunni að tímasetja, bíða af sér orrustur eða ganga fram af einurð. Og sá sem þeir töldu hægrimanninn varð lykilmaður í R-listasamstarfinu. Enginn var Sjálfstæðisflokknum jafn erfiður ljár í þúfu. Það var þá Alfreð eftir allt saman sem með samvinnu dró vinstrimenn saman í bæri- lega borgarstjórn. Sigrún Magn- úsdóttir var límið í R-listasam- starfinu en Alfreð mikilvirkur og Valdimar K. Jónsson höfuðsmið- ur framsóknarmegin. Alfreð skein eins og sól í heiði og oft féll skuggi á rauðan kjól borgarstjór- ans þegar hann lýsti áformum Reykjavíkurborgar í orkumál- um. Alfreð sneri sér nefnilega að veitumálum Reykvíkinga og þar lét athafnamaðurinn verkin tala, hann varð nokkurs konar borg- arstjóri orkumálanna. Alfreð skildi hlutverk höfuð- borgarinnar. Flugvöllur og stór- skipahöfn voru lykilatriði og þjónustan við landið allt. Nú byggja menn hallir þvert á flug- völl allra landsmanna og blikna ekki. Hvergi leið Alfreð betur en austur í Biskups-tungum í bústað fjölskyldunnar. Þar lék náttúru- barnið við hvern sinn fingur. Kæra Lilja Dögg, ég þakka síðasta samfundinn með föður þínum sem þú bauðst mér til heima hjá þeim. Ógleymanleg stund þar sem heilræði og hug- sjónir bar á góma. Hugur pabba þíns var þá enn eins og gróand- inn að vori, lagði þér margt gott til af reynslu hins vitra manns. Kæra Guðný og fjölskylda, ég votta ykkur öllum innilega sam- úð. Góður maður er genginn. Að lokum gríp ég enn í lýsandi setn- ingu um lífssýn Alfreðs Þor- steinssonar í ljóði Einars Bene- diktssonar; Reykjavík. Við byggjum nýja sveit og ver, en munum vel, hvað íslenskt er, um alla vora tíð. Guðni Ágústsson. Ég kynntist Alfreð Þorsteins- syni í Reykjavíkurlistanum þar sem við m.a. störfuðum saman í stjórn Orkuveitunnar þar sem hann var Formaður með stóru F-i. Mér þótti og þykir mjög vænt um hann Alfreð, hann var framsýnn hugsjónamaður og frumkvöðull. Einn fárra sem ég hef kynnst sem dreymir stóra drauma fyrir heildina, ekki fyrir sjálfan sig eða viðhlæjendur heldur fyrir okkur öll. Stundum eru stórir draumar eins og ljósleiðaravæðing, virkj- anaframkvæmdir og atvinnuupp- bygging eitthvað sem fólk slær um sig með í kosningabaráttu og lætur svo tala sig ofanaf í róleg- heitum eftir kosningar en það talaði Alfreð enginn ofan af einu eða neinu. Hann var fram- kvæmdamaður og framkvæmdi það sem hann ætlaði sér okkur öllum til heilla. Jú jú það lukkast ekki allt full- komlega mygla kemur upp í glæsilegustu húsum og sjallarnir slátruðu risarækjunni (en bara eftir að þeir komust til valda) en þegar upp er staðið búum við í Reykjavík og fleiri við eitt lægsta raforkuverð sem þekkist á byggðu bóli, erum flest kyrfilega tengd við ljósleiðara og njótum þannig framsýnis og elju Alfreðs og starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur. Nú þegar við kveðjum Alfreð Þorsteinsson er mér samt fyrst og fremst hugsað til dætra hans og eiginkonu því þær hafa misst ljúfan og góðan mann samherja í leik og starfi sem var endalaust stoltur af þeim. Sigrún Elsa Smáradótt- ir, fv. borgarfulltrúi og fv. varaformaður Orku- veitu Reykjavíkur. Nú þegar vinur okkar Alfreð Þorsteinsson blaðamaður er horfinn yfir móðuna miklu er margs að minnast frá því vorum saman á ritstjórn Tímans í Eddu- húsinu við Skuggasund í Reykja- vík. Við vorum eiginlega hvor á sínum vettvangi á ritstjórninni, við ljósmyndun, fréttaskrif og íþróttaumfjöllun. Alfreð var auð- vitað íþróttafréttaritari fyrst og fremst í byrjun, en það breyttist svo nokkuð síðar meir, þegar hann fékk umbrotið, pistlaskrif og fleira í fangið. Hann var mjög fylginn sér í íþróttaskrifum, og það átti raunar eftir að fylgja honum síðar meir á öðrum vett- vangi, bæði hinum pólitíska og ekki síður í íþróttahreyfingunni. Það má eiginlega segja að hann hafi virkilega slegið í gegn fyrir hönd Tímans þegar hann hóf að birta skrif um knattleiki gærdagsins í blaðinu daginn eft- ir. Þetta þykir að vísu sjálfsagt í dag, en ekki á sjöunda áratugn- um. Svo notaði hann gjarnan stórar og krassandi fyrirsagnir og rauða eða svarta nonpar- ramma ef svo bar undir. Hann merkti skrif sín alltaf annaðhvort með Alf. eða alf. ólíkt öllum öðr- um á ritstjórninni sem merktu skrif sín með einkennisstöfum sínum. Alfreð veitti íþróttaforystunni oft rækilegt aðhald, með gagn- rýni og aðfinnslum, og var oft ekki þakkað fyrir það af forystu- mönnum á sínum tíma, en þeir urðu svo margir hverjir mestu mátar þegar fram liðu stundir. Á ungdómsárum sínum hóf hann fljótt að þjálfa yngri flokka knattspyrnumanna hjá Fram. Hann gegndi þar í fyrstu ýmsum trúnaðarstöðum, og var svo í tví- gang kosinn formaður félagsins og átti sinn þátt í uppbyggingu þess t.d. í Safamýri, þar sem bæði félagsheimili og íþróttahús félagsins voru reist. Þá kom hann víða við sögu á vettvangi íþrótta- hreyfingarinnar. Á þeim tíma sem við unnum saman á Tímanum voru oft um- brot á vettvangi ungra framsókn- armanna í Reykjavík. Þegar hann var eitt sinn spurður hvort hann vildi ekki leggja annarri hvorri fylkingunni lið var hann fljótur til svars. Hann kæmi sko ekki nálægt pólitík, hans vett- vangur væri blaðið, íþróttir og umbrot. Þetta átti svo sannarlega eftir að breytast, því eftir því sem árin liðu varð Alfreð einn sá stjórn- málamaður í Reykjavík sem mest var tekið eftir og mest lá eftir á sínum tíma. Hann var vissulega umdeildur enda hafði hann við orð eitt sinn, að ef menn sem væru í pólitík væru ekki um- deildir væri hreint ekkert varið í þá! Hann var óhræddur við að segja sína meiningu og stuðaði kannski suma af og til, en svo var hann líka lunkinn við að ljúka málum og ná niðurstöðu, þótt um vandmeðfarin og erfið mál væri að ræða. Alfreð átti við heilsubrest að stríða á seinni árum, svo mikinn að hann átti bágt með að fara á milli staða án aðstoðar. Hann vann sig reyndar úr þeim erfið- leikum, en síðar ágerðist heilsu- bresturinn nú í vetur þangað til yfir lauk. Baráttuandinn og pólitíkin var þó aldrei langt undan, og því gleymum við aldrei sem áttum með honum þriggja manna tal öðru hverju. Hann var í góðu sambandi við mann og annan, og hafði sínar skoðanir á mönnum og málefnum, þótt hann væri horfinn úr fremstu víglínu stjórnmálanna á vegum Framsóknarflokksins í Reykja- vík. Við sendum Guðnýju og fjöl- skyldu hans innilegar samúðar- kveðjur. Gunnar V. Andrésson og Kári Jónasson.  Fleiri minningargreinar um Alfreð Þorsteinsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.