Morgunblaðið - 02.07.2020, Blaðsíða 64
64 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. JÚLÍ 2020
Ljósmyndir Rutar og Silju
Skipholti 31 | 105 Reykjavík | Sími 568 0150 | www.rut.is |
Opið alla virka daga kl. 10-17
Passamyndir
Tímapantanir
í síma 568 0150
eða á rut@rut.is
Tryggjum
tveggja metra fjarlægð
og gætum ítrustu
ráðstafana.
VIÐTAL
Magnús Guðmundsson
magnusg@mbl.is
„Upp á síðkastið hef ég verið að
snúa mér að tónlist fyrir kvikmynd-
ir og sjónvarp,“ segir Högni Eg-
ilsson, tónlistarmaður og söngvari í
hljómsveitinni Hjaltalín sem í viku-
lokin sendir frá sér fjórðu breið-
skífu sína. Högni bætir við að það
séu algjör forréttindi að fá tækifæri
til þess að kafa ofan í sögur og ná
innsýn í einhverja merkingu sem er
hægt að færa hverri sögu eða at-
burðarás fyrir sig.
„Núna er ég til að mynda að
vinna að sjónvarpsseríunni Katla,
dansverki og fleira sem er talsvert
öðruvísi en það sem ég er vanari að
gera, þar sem maður getur gleymt
sér í hljóðinu, í tóninum, og fundið
einhvern frið með því að láta tónlist-
ina flæða. Það þarf auðvitað alltaf
að vera í samhengi við söguna sem
er verið að fást við hverju sinni. En
tónlistinni eru engin takmörk sett,
hún getur sagt allar heimsins
sögur.“
Tónlistin er orka
Högni segir að tónlistin sé á ein-
hvern hátt afsprengi alls sem við
skiljum ekki. „Hún dregur okkur of-
ar því sem við erum að takast á við
frá degi til dags og endurómar í til-
finningalífinu. Hjálpar hjartanu,
ástríðunni og hugrekkinu.
Við leitum í tónlistina í gleði og
sorg. Hún er eitthvað sem er til
staðar en við skiljum aldrei til fulls.
Tónlistin er eins og draumur, öll
dreymir okkur eitthvað en aldrei
skiljum við það til fulls. Hún er
þessi óáþreifanlega vídd eða veröld
sem við getum tengst eftir því sem
við þurfum á að halda hverju sinni
og það er auðvitað alveg dásamlegt.
Frá upphafi mannsins hefur verið
til staðar þessi þörf fyrir að takast á
við þessa orku því það er það sem
tónlistin er fyrst og fremst; hún er
orka.“
Þetta eru goðsögur
Högni bendir á að það breyti auð-
vitað ýmsu að takast á við að taka
upp tónlist eins og á nýju plötunni
svo dæmi sé tekið. Þá þurfi að finna
leið til þess að beisla þessa orku og í
raun sé ekki fjarri að líta á það sem
skúlptúra í tíðni. „Lag er saga sem
er vandlega smíðuð í tíðni.“
Þegar hlustað er á nýju plötuna
er einmitt áþreifanleg þessi sterka
þörf Hjaltalíns fyrir að segja sögur í
sköpun sinni og Högni tekur undir
það. „Tónlist Hjaltalíns er þannig að
það er ákveðið ævintýri í hverri
plötu. Hvert lag er grafið inn í texta
sem er persónuleg frásögn, en
stundum er hún skáldleg eins og í
laginu Mad Lady of Lizard Skin, þá
er sjónarhornið manneskja sem lít-
ur yfir farin veg. Veltir fyrir sér lífi
sínu, horfnum ástum og öllu sem
hún hefur orðið fyrir á lífsleiðinni.
Þetta eru goðsögur.“
Annað gott dæmi um þetta er að
finna væri í laginu Wolf’s Cry og
Högni kannast vel við þá tengingu.
„Þarna er hann varúlfurinn sem býr
innra með okkur og kemur fram
þegar við öskrum að tunglinu og
umbreytumst í allt sem býr innra
með okkur. Við erum samansafn af
fornu tungumáli sem við skiljum
ekki alveg en hefur samt fylgt
manninum alla tíð. Þessi þörf
mannsins til þess að eiga þessi ham-
skipti og segja ég er þetta í dag,
vegna þess að þetta er orkan sem
ég þarf á að halda. Taka á okkur
form tilfinninganna og segja: Í dag
er ég eldur, í nótt er ég úlfur, á
morgun er ég ljón.
Þetta eru einhverjir andans heim-
ar sem eru að hrella okkur frá degi
til dags og tónlistin er leið til þess
að takast á við það.“
Jaðrar við þráhyggju
Nýja platan hefur verið lengi á
leiðinni en síðasta plata Hjaltalíns,
Days of Gray, kom út 2014. Spurður
um tímann og vinnuferlið segir
Högni að það ráðist af ýmsu. „Þegar
við erum að vinna efni þarf auðvitað
að huga að tæknilegum atriðum en
svo þarf líka að hafa í huga hvar
orkan liggur hverju sinni við laga-
smíðar. Hvaða manneskja er með
orkuna og sköpunarkraftinn hverju
sinni. Í laginu Year of the Rose, svo
dæmi sé tekið, sprettur Viktor fram
og þá eltir maður það. Af því sprett-
ur svo eitthvað annað og þannig koll
af kolli. Þetta er lífrænt flæði og
það er tónlistin sem sameinar okkur
sem manneskjur.“
Spurður hvað valdi því hvað þessi
plata hefur verið lengi á leiðinni
segir Högni að einfaldlega þurfi
verkin að fá að taka sinn tíma. „Við
fórum í gegnum heilmikið ferli og
vönduðum okkur rosalega mikið.
Allir fóru afsíðis í sína heima og
sneru svo aftur með sínar eigin
sögur. En við hefðum alveg getað
gefið út plötu fyrir mörgum árum
vegna þess að við áttum nóg af efni
en við vorum bara ekki ánægð. Það
er eins einfalt og það verður.
Maður verður ekki góður í tónlist
nema með því að vanda sig og
leggja allt sitt í það sem maður er
að gera. Þetta kemur ekki af sjálfu
sér. Þetta er endalaus athygli sem
jaðrar við að vera þráhyggja.“
Elsta sagan í bókinni
Högni segir að innan Hjaltalín sé
til staðar bæði þessi sterka trú á
tónlistina sem og einlægur vilji til
þess að rækta það sem þau eiga sín
á milli sem tónlistarmenn og mann-
eskjur.
„Auðvitað er það flókið á stund-
um enda mörg egó sem koma sam-
an í einni hljómsveit á borð við okk-
ar. Kannski er egóið alltaf
vandamálið í öllu; hver á hvað og
hver vill hvað og ég á þetta og ég vil
hitt. Kannski er það ástæðan fyrir
því að hlutirnir taka langan tíma.
Ég hef hugsað talsvert um þetta
með egóið. Þú vilt og þarft hitt og
þetta í lífinu og það getur hjálpað
þér til þess að ná árangri, ná frama.
En á sama tíma er það líka endalaus
eltileikur við þjáninguna því þú ert
alltaf að takast á við svo mikinn
skort. Þetta er elsta sagan í bókinni
en hún er alltaf jafn gild því á end-
anum ferðu og kastar frá þér auðn-
um og hugleiðir undir tré.“
Fjórði gítarleikari
Eins og margar íslenskar hljóm-
sveitir á Hjaltalín rætur að rekja til
Menntaskólans við Hamrahlíð.
Högni segir að kórinn sé ótvírætt
hryggjarstykkið í þessu og að það
sé vart hægt að tala um Hjaltalín án
þess að nefna kórinn.
„Hljómsveitin myndaðist sem
ákveðið samfélag. Viktor, Hjörtur
og Guðmundur eru aðeins yngri en
ég og fyrir mér byrjar þetta þegar
þeir koma í kórinn. Einhverju sinni
sá ég Guðmund og Hjört sitja við
píanóið fyrir kóræfingu að spila
fjórhent einhverja slagara. Það
leiftraði allt af leikgleði og mig lang-
aði um leið til þess að stofna hljóm-
sveit með þessum gæjum.
Það var lífið á þessum árum þeg-
ar maður var í hverri hljómsveitinni
á fætur annarri og þegar ég sá þá
spila saman tók ég mig til við að
nota öll mín tæki og tól til þess að
verða hluti af þessu magnaða efna-
sambandi.
Það er rétt að hafa það í huga að
ég var ekkert með í að stofna
Hjaltalín. Ég var bara fjórði gít-
arleikari þegar hljómsveitin kom
fram í fyrsta skipti og það var allt
annað form, en nafnið var til. En
þegar ég sá þessa stráka spila á
bæði gítar og píanó heillaðist ég af
gleðinni. Heillaðist af því hvað það
var mikill fögnuður í því sem þeir
voru að gera. Og það er tónlistin;
hún er fögnuður yfir lífinu. Fögn-
uður yfir hamingjunni og meira að
segja í sorginni er tilveru mannsins
fagnað í tónlist.
Það er guðdómur í tónlistinni. Við
förum á hnén og við grátum og
þökkum. Það eru allar heimsins til-
finningar í tónlist.“
Ég þekki sæta stelpu í Keflavík
Högni hefur á orði að það séu
margar skemmtilegar minningar
tengdar fyrstu skrefum Hjaltalíns
og að hann og Guðmundur Óskar
hafi fljótlega náð mjög vel saman og
lagt mikla rækt í hljómsveitina.
„Árið 2004 var farið í kórferðalag til
Eistlands og þar urðum við Guð-
mundur mikil samloka. Við stungum
af til þess kíkja á rússneska fata-
markaði í úthverfum og eltumst við
táningsstelpur frá Finnlandi og
annað skemmtilegt í þeim dúr.
Í svona ævintýrum verður til ein-
hvers konar bræðralag og eftir að
við komum heim gerðum við fátt
annað en að hanga í skúrnum sem
hann bjó í á Flókagötunni. Þar var
verið að semja, spila demó og leika
sér í tónlist alla daga. Þangað komu
krakkarnir og þar tókum við líka til
við að plana hvernig við gætum
skapað okkar sérstöðu.
Við vorum undir miklum áhrifum
frá Arcade Fire, sem er stór hljóm-
sveit og okkur vantaði eitthvað sem
hljómaði öðruvísi. Eitthvað sem
gæfi Hjaltalín karakter. Þá sagðist
Guðmundur þekkja sæta stelpu í
Keflavík, þaðan sem hann er, sem
spilaði á fagott. „Náðu í hana,“
sagði ég en vissi varla hvernig fa-
gott leit út en þó að það hljómar
eins og afinn í Pétri og Úlfinum og
að það er geggjað sánd. Hún kom á
æfingu og svo fengum við líka klar-
ínett og selló og við bjuggum til
fyrstu plötu okkar. Þar með vorum
við komin áleiðis á vegferð okkar.“
Ball í Brautartungu
Nú eru mörg ár liðin og fjórða
platan orðin að veruleika. Þegar
hlustað er á hana og borið saman
við fyrri plötur á borð við Terminal
er auðheyrilegt að heilmikill þroski
hefur átt sér stað. Högni tekur und-
ir að þarna sé heildaryfirbragðið
meira og undirtónninn þyngri. „Já,
Terminal er óneitanlega meira
svona ung og gröð plata og svona að
gamni var ég einmitt að hlusta á
hana um daginn. Ég er sérstaklega
ánægður með fyrstu fjögur lögin og
svo er lokalagið mjög kröftugt. En
þarna erum við ung og vöðum svo-
lítið úr einu í annað. Vildum prófa
allt.
Núna, með meiri íhugun í tónlist-
inni og aukinni vigt í gegnum til-
finningalífið, er eðlilegt að tónlistin
endurspegli það.“
Högni bætir við að þótt ein-
hverjum þyki kannski heildar-
yfirbragðið meira hafi það alls ekki
verið áherslan. „Við lögðum áherslu
á að hvert lag væri sjálfstæð saga.
Þess vegna er úlfastyttan framan á
plötunni, vegna þess að við töluðum
um að við værum eins og mynd-
höggvarar að gera skúlptúra úr
hljóði.
Það er alltaf þessi umræða um
hvaða lög passa saman á plötu og
hvaða lög fá að vera með, það voru
ein 20 lög sem komust ekki inn. Við
erum öll að semja og öll með okkar
framlag og ekkert eitt er mikilvæg-
ara en annað. Þetta eru bara gjafir
og þetta hefur okkur lærst með
aldrinum. Þannig að við sköpuðum
mikið og svona hljómsveit er full af
róttækum einstaklingum og það er
ekkert auðvelt að stjórna slíkum
hópi enda höfum við varla stjórn á
okkur sjálf.
En til þess að ná utan um þetta
tókum við ákvörðun um að líta á
hvert og eitt lag sem styttu og að
markmiðið væri að búa til styttu-
garð. Þegar við fórum að stilla
styttunum okkar upp í garðinum í
samhengi hverri við aðra varð verk-
efnið viðráðanlegra.
Og núna er platan komin út og
við erum að plana sveitaball til þess
að fagna þessum áfanga. Það verður
sem sagt sveitaball í Brautartungu
og vonandi förum við eitthvað meira
um landið og kannski verða svo
stórir tónleikar í haust. Hver veit?
Þetta eru óvissutímar.“
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ný breiðskífa „Það eru allar heimsins tilfinningar í tónlist,“ segir Högni Egilsson, tónskáld og söngvari Hjaltalín.
Tónlistin er fögnuður yfir lífinu
Hljómsveitin Hjaltalín sendir á morgun frá sér nýja plötu sem hefur verið tæp átta ár í vinnslu
Högni Egilsson, söngvari hljómsveitarinnar, segir að þar leitist þau við að segja sögur í tíðni