Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.07.2020, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.07.2020, Blaðsíða 12
VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26.7. 2020 V el er tekið á móti mér á heimili Baltasars og Kristjönu Samper í Kópavogi. Tilefni heimsóknar minnar er ný myndlistarsýning Baltasars og dóttur hans, Mir- eyu, sem opnuð verður 1. ágúst í Hlöðunni á Litla-Kambi á Snæfellsnesi. Er þetta í fyrsta sinn sem feðginin sýna saman. Ég er leiddur niður í vinnustofu Baltasars þar sem mikilfengleg málverk blasa við mér. Stórar og drungalegar myndir af kerlingum fyrri tíma en einnig af fljúgandi verum; örn á einni, skuggar fugla á annarri. Frá vinnustofunni er útgengt í garð heim- ilisins. „Við vorum með hest hérna hjá okkur sem beit grasið,“ segir Baltasar mér. „Hest- urinn virkar miklu betur en sláttuvél á þessa hóla og hæðir sem við erum með.“ Mireya er með okkur Kristjönu og Baltasar og hún segir frá því hvernig verk hennar ríma við verkin sem hér eru. „Innsetningar, sambland af pappírsverkum og skartskúlptúr. Þau eru öll mjög hvít og í kontrast við það sem pabbi er að gera, þar sem ég er að vinna með ljósið og svona,“ segir hún. „Það er ár síðan þessi hugmynd kom upp. Þá voru ákveðin verk sem ég var að vinna að og hefði viljað sýna þarna en þau festust í Tókýó út af Covid. Þegar pabbi var byrjaður að mála og ég sá hvert hann var að fara end- urhugsaði ég minn part,“ segir Mireya en verk Baltasars hafa sterka skírskotun í ís- lenskar þjóðsögur um kvenskörunga og vætt- ir. „Þegar ég sá að pabbi var að gera þessi málverk með kerlingunum fannst mér tilvalið að gera skart sem tengist þeim,“ segir Mireya en skartið vinnur hún með Sigurði Inga Bjarnasyni gullsmiði í verslunni Sign. „Svo geri ég innsetningu út frá skartinu.“ Á síðasta ári sótti Mireya sýningu 72 lista- manna Akademíu skynjunarinnar á Snæfells- nesi, m.a. í Hlöðunni á Litla-Kambi og fannst byggingin heillandi. „Þetta er nýtt rými, göm- ul hlaða sem er nýbúið að gera upp,“ segir Mireya en hún spjallaði þar við Baldvinu Sverrisdóttur listfræðing, sem stakk upp á því að Mireya og Baltasar settu upp sýningu sam- an. „Hún vildi fá okkur bæði til að sýna og þá hugsuðum við: „Af hverju ekki? Þetta er góð hugmynd.““ „Engin leið út úr þessu“ Baltasar Samper fæddist árið 1938 á Spáni og nam við Listaháskólann í Barcelona áður en hann hélt í heimsreisu til að kynna sér lista- söfn og stunda rannsóknir. Hann kom við hér á Íslandi 1961 og heillaðist af landi og þjóð. Hingað kom hann aftur stuttu seinna, kynnt- ist eiginkonu sinni, Kristjönu, og hefur búið hér samfellt frá 1963, í 57 ár. Baltasar er af- kastamikill listamaður, hefur haldið tugi einkasýninga, og sýningar með Kristjönu víða. Hann er þekktastur fyrir sínar stóru veggmyndir, þar má nefna veggskreytingu í Flateyjarkirkju og fresku í Víðistaðakirkju. „Það sem hefur áhrif á það sem ég geri er bitran sem Ísland hefur og enginn annar stað- ur,“ segir Baltasar. „Þessi lága sól og þessir skuggar sem teygjast og teygjast. Um leið og ég kom hingað hugsaði ég: „Vá, hér er hægt að vinna.““ Mireya er elst barna Kristjönu og Baltas- ars, fædd 1964. „Það var eitt sem ég vissi, það var alveg á hreinu, að ég ætlaði ekki að verða myndlistarkona,“ segir hún spurð hvort hún hafi viljað feta í fótspor foreldra sinna. „Þann- ig að ég fór á stærð- og náttúrufræðibraut í menntaskóla og gerði allt sem ég gat til að komast frá þessu. Svo fattaði ég að ég var á flótta. Þá verður maður bara að gefast upp,“ segir Mireya og hlær. Hún hefur, eins og faðir hennar, sýnt víða um heim. Mikið í Japan, til að mynda. Öll börn Baltasars og Kristjönu hafa fetað listaveginn. „Ég kalla þetta vírus,“ segir Mir- eya. „Það var engin leið út úr þessu.“ Konan gleymist Við erum sest niður við borðstofuborðið á heimilinu og ræðum betur þema sýningar- innar. Baltasar hefur oft tengt íslenskar bók- menntir, þjóðsögur, goðsagnir, sögu þjóð- arinnar og trúarbrögð við nútímann. Það gerir hann einnig í þessari nýju sýningu. Hann talar inn í samtímann þar sem sam- félagsstaða kvenna er mikið til umræðu og tengir við kvenskörunga og vættir. Vættir þessa tíma fylgdu mönnum og pössuðu þá. Þær voru krafturinn á bak við mennina. Á listahátíðinni Ferskum vindum, sem haldin var í Suðurnesjabæ í fyrra, tengdi hann saman Matteusarguðspjall og framkomu gagnvart flóttafólki nú til dags. Í kringum hrunið tengdi hann fólksflutninga Íslendinga til Vesturheims við þann tíma. „Það eru alltaf svolítið pólitísk skilaboð líka,“ segir Mireya um verk föður síns. „Ég hef yfirleitt eitthvern stað eða eitthvað sem skeði í huga við verk mín,“ segir Baltas- ar. „Það hefur gefið mér mikið að hafa ferðast ríðandi á hverju sumri um landið. Ríðandi langar sumarnætur sérðu þessa löngu skugga.“ Þá segist Baltasar safna saman lauf- um á haustin sem hann svo speglar litina af í málverkum sínum. „Það eru svo skemmtilegir litir,“ bætir hann við. „Snæfellsnesið er þekkt fyrir mikla kven- orku. Það er alveg einstök orka og einstakt ljós á Snæfellsnesi, sérstaklega á suðurhluta þess,“ segir Mireya. Henni finnst merkilegt að hlutverk konunnar hafi í raun minnkað með tímanum. „Konurnar skiptu miklu meira máli hér fyrr á tíð. Svo er einhvern veginn gert út af við það. Núna er verið að reyna að laga það en við eigum langt í land.“ Hún nefnir dæmi um grein í Fréttablaðinu þar sem sýndar eru myndir af útilistaverkum. Þar er mynd af Fyssu, listaverki eftir lista- konuna Rúrí, en ekki minnst á nafn hennar en nöfn nokkurra karlmanna eru talin upp þegar listaverk þeirra eru nefnd. „Það er ekki minnst á hana. Konan gleymist svolítið oft.“ Aðlagaði sig að verkum pabba Mireya segir að þau feðginin hafi ákveðið að fara af stað með hugmynd að sameiginlegri sýningu fyrir um ári. Þá var hún að undirbúa sýningu í Japan sem aldrei varð úr vegna kór- ónuveirufaraldursins. „Þegar ég kom aftur var hann kominn af stað þannig að ég í raun og veru elti hann,“ segir hún. „Þegar hann var bú- inn að taka þá stefnu að vinna með þessar kerl- ingar þá lagaði ég mig að því. Af því pabbi var svo duglegur að mála hætti ég við að vera með myndir á veggjunum og ákvað að vinna eingöngu inn í rýmið,“ segir Mireya. „Ég vinn mikið með ljósið. Það er risa- stór gluggi þarna, einn gaflinn er bara gluggi. Ég fæ þannig ljósið inn í verkin mín.“ Mun léttara yfirbragð er yfir verkum hennar á sýn- ingunni en Baltasars. „Ég nota silfur, bæði blaðsilfur og 925-silfur.“ Ég spyr Mireyu út í skartið sem hún hyggst nota í sýningunni. „Ég verð með svolítið groddalegt hálsmen sem passar svona vætta- kerlingum. Ég ætla að hengja það upp í loftið og svo verð ég með innsetningu unna út frá því. Það er í raun og veru hálsmenið og þrír pappírsflekar. Einn flekinn er skuggamynd af meninu án þess að vera skuggamynd. Ljósið kemur inn í gegnum pappírinn og ég teikna með ljósinu í raun og veru. Nota birtuna sem kemur inn um gluggann en enga liti,“ segir Mireya. Sjón verður sögu ríkari. Sameiginlegur krafur Nálgun þeirra feðgina er því mjög ólík. „Við erum náttúrlega mjög ólíkir listamenn,“ segir Mireya. „Það sem við eigum sameiginlegt í list okkar er skalinn sem við vinnum á. Mireya getur unnið á stóru svæði og ég líka,“ segir Baltasar en hann hefur eins og áður segir málað freskur inn í kirkjur á Íslandi sem er verk sem getur tekið mánuði að ljúka. „Sameiginlegt er einhver kraftur,“ segir Mireya. „Mér hefur stundum verið sagt að ég sé með strokur sem eru kraftmiklar eins og hans eru þegar ég mála. En hann er auðvitað málari og ég menntaður skúlptúristi þótt ég vinni jöfnum höndum í tvívídd og þrívídd. Mér finnst gaman að vinna á mörkunum. Hvenær erum við í tvívídd og hvenær í þrívídd? Vera svolítið óræð í því.“ Hún tekur undir að henni þyki gaman að vinna stór verk. „Þegar maður er við þær að- stæður. Auðvitað getur maður ekki verið að hrúga upp stórum verkum heima hjá sér á vinnustofunni.“ Mireya vann 35 metra langt verk í Litháen og 10 metra langt útiverk í Mexíkó. „Þetta hef- ur hún í blóðinu,“ segir Baltasar og hlær. Þau segja bæði spennandi að sjá hvernig sýningin þeirra komi út. „Þetta er svolítið eins og að opna jólapakka,“ segir Mireya. „Ég er mjög spennt fyrir því að sjá hvernig þetta passar saman.“ Þau hafa ekki séð verk sín saman. „En ég er alveg með þetta klárt í hausnum,“ segir Mireya og hlær. „Konurnar skiptu meira máli“ Feðginin Baltasar og Mireya Samper munu opna sameiginlega sýningu í fyrsta sinn 1. ágúst. Sýningin fer fram á Snæfellsnesi og eru kvenskörungar og vættir viðfangsefni listamannanna. Mireya segir stöðuna erfiða fyrir marga í myndlistarheiminum vegna kórónuveirunnar. Böðvar Páll Ásgeirsson bodvarpall@mbl.is Það var eitt sem ég vissi; það var alveg á hreinu, að ég ætlaði ekki að verða myndlistarkona,“ segir Mireya Samper spurð hvort hún hafi alltaf ætlað að feta í fótspor föður síns, Baltasars. ’ Það sem hefur áhrif á þaðsem ég geri er birtan semÍsland hefur og enginn annarstaður. Þessi lága sól og þessir skuggar sem teygjast og teygjast. Um leið og ég kom hingað hugsaði ég: „Vá, hér er hægt að vinna.“

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.