Morgunblaðið - 22.08.2020, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 22.08.2020, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. ÁGÚST 2020 Dóra kom í heim- sókn til okkar á Ak- ureyri í kringum af- mælið sitt, hinn 20. júlí. Hún hlakkaði til þess að koma og hvíla sig í nokkra daga frá langri sjálf- skipaðri Covid-einangrun. Við hlökkuðum til þess að dekra við hana. Einn morguninn sátum við lengur en venjulega við morgun- verðarborðið. Af einhverjum ástæðum fórum við að tala um minningargreinar. Í gríni veltum við því fyrir okkur hvort hún myndi skrifa um mig eða ég um hana. Hún var á því að þetta myndi lenda á mér. Það liðu ekki nema örfáir dagar frá því hún kvaddi okkur brosandi og kát þar til ég var komin með verkefnið. Full sorgar náði ég í verkfæri og fór út í garð til þess að hreinsa blómabeð. Allt í einu blasti við mér lítið blóm með fagurblá örsmá krónublöð. Gleym mér ei, vel falin á bak við gróf laufblöð grann- plöntu. Ég þurrkaði burtu tárin í anda Dóru sem sagði einhvern tím- ann að við ættum alls ekki að gráta því við yrðum bæði bólgnar og ófríðar af þeirri athöfn. Blómið bláa var kveðja frá vinkonu minni. Það er ekki hægt að gleyma þess- ari stóru konu, víðsýnu, víðreistu og víðlesnu baráttukonunni með stóra hjartað og óendanlega mikla þrautseigju. Ég ætla öðrum það hlutverk að skrifa um fræðimanninn dr. Dóru. Það gera aðrir betur. Ég ætla að skrifa um einstakan vin. Við kynnt- umst í gegnum sjónvarpsverkefni um fatlaða fyrir um 35 árum. Halt- ur ríður hrossi hét þáttaröðin. Við Dóra vorum eins og austur og vest- ur, en einhver þráður myndaðist á milli okkar sem aldrei slitnaði og varð að einlægri vináttu og sam- kennd. Dóra var góð vinum sínum, börnum vina og vinum vina. Faðm- urinn var alltaf opinn og umhyggj- an takmarkalaus fyrir þeim sem voru í kringum hana. Oft voru vandamálin hennar miklu stærri Dóra Sigríður Bjarnason ✝ Dóra SigríðurBjarnason fæddist 20. júlí 1947. Hún varð bráðkvödd 5. ágúst 2020. Útför Dóru Siggu fór fram 21. ágúst 2020. en okkar en það skipti engu máli. Dóra hafði ekki alltaf mikið á milli handanna enda var henni ætlað stórt hlutverk við að byggja upp heimili og sjálfstæða tilveru fyr- ir Benna, fatlaðan son. En það var alltaf veisla þegar hún bauð heim. Hún var heimsborgari og þeir spara ekki veitingar. Stundum var það tómat- súpa, en hún var borin fram með stíl. Þegar betur stóð á var á borð- um humar og besta nautasteik, krydduð með kímni og skemmti- legum sögum. Dóra var mannvinur og hafði gaman af börnum. Hún sagði mér að það eina sem hún öfundaði aðra af væri að eiga barnabörn. Hún lað- aði börn að sér og átti að börn sem kölluðu hana ömmu og fóru með henni í leikhús. Hún mat það mikils og sagði mér oft frá skemmtiferð- unum með þessum litlu vinum. Litla bláa blómið í garðinum mínum kom við mig. Ég tók mynd af því á símann og ætla að horfa á það í hvert skipti sem ég dett niður í þungar hugsanir. Dóra mín, þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér og gerðir með mér og fjöl- skyldunni í gegnum öll þessi ár sem við áttum saman. Þér gleymi ég ei. Minning um einstakan vin mun lifa. Innilegar samúðarkveðjur til Benedikts Hákonar. Sigrún Stefánsdóttir og fjölskylda. Á sólbjörtum laugardagseftir- miðdegi um miðjan júlí í sumar rakst ég á Dóru Bjarnason á Tjarn- argötunni í Reykjavík. Við vorum báðar á leið Jómfrúartorgið til að hlusta á Björn Thoroddsen og sveit hans spila jazz. Við gengum saman áfram meðfram illgresinu við Reykjavíkurtjörn og Dóra sagði mér að hún væri að lesa bréf Ingi- bjargar H. Bjarnason, frænku sinnar, í þeirri von að finna mann- eskjuna Ingibjörgu. Gallinn væri að bréfin hefðu verið ritskoðuð og því væri þessi leit ekki auðveld. Við komum við hjá styttunni af Ingi- björgu við Alþingishúsið, heilsuð- um upp á hana og héldum svo á jazzinn. Þetta var síðasti fundur okkar Dóru og mér var brugðið við andlátsfregn hennar stuttu síðar. Við kynntumst upp úr 1980 þeg- ar við vorum báðar stundakennar- ar við Háskóla Íslands og völdumst í stjórn stundakennarafélagsins. Kjör stundakennara voru ömurleg og aðgangur að rannsóknafé innan skólans enginn. Við fórum í verk- fall, óheyrt þá, og náðum út úr því að stofnaður var Rannsóknasjóður Háskóla Íslands. Sjálfsagt vita ekki margir háskólamenn af því. Í fé- lagsvísindadeild vorum við Dóra eins og hvítir hrafnar, dúfur vorum við tæpast, deildinni var stjórnað af körlum og allir fastir kennarar í fræðigreinum okkar voru karlar. Við vorum báðar með ólokna dokt- orsritgerð í farteskinu og verk- fallsveturinn gekk Dóra með Benna. Með tíð og tíma lukum við báðar doktorsritgerðinni, klifruð- um upp þann karllæga metorða- stiga sem allar akademíur byggj- ast á og urðum báðar prófessorar. Við áttum samleið. Ég vil að lokum þakka Dóru fyr- ir samfylgdina, fyrir að hvetja mig til að kenna námskeið í kvenna- mannfræði fyrir meira en þremur áraugum og fyrir spjallið á Tjarn- argötunni fyrir svo örstuttu síðan. Farðu í friði kæra vinkona. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Dóra var stórbrotin kona og hún var vinkona mín. Saman gátum við hlegið og grátið, þagað og spjallað. Umræðuefnin skorti aldrei, hvort sem það voru knýjandi baráttumál hennar fyrir mannréttindum, bæk- ur sem við vorum að lesa eða uppá- tæki, þrautir og sigrar barna okk- ar. Við kynntumst í menntaskóla, en vinskapurinn hófst ekki fyrr en nokkrum árum síðar þegar við vor- um kornungir framhaldsskóla- kennarar í Reykjavík. Sú trausta og innilega vinátta, sem varð okkur báðum haldreipi í lífinu, var samt endanlega innsigluð þegar við eignuðumst báðar frumburði okk- ar, Ellu og Benedikt, í desem- bermánuði 1980. Meðan gamlir skólafélagar undirbjuggu ferming- arveislur, spásseruðum við stoltar með barnavagnana og dáðumst að fallegu börnunum okkar. Það urðu kaflaskil í lífi Dóru þegar fötlun elsku Benna varð ljós. Þá upphófst nýtt skeið, líf stöðugr- ar baráttu fyrir réttindum hans og annarra sem voru í svipaðri stöðu, til að lifa sínu lífi til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Við vinir Dóru áttum oft erfitt með að skilja þrjóskuna, harðfylgnina og bráttu- þrekið, þar sem hún vílaði ekki fyr- ir sér að troða á viðkvæmar tær eða berja niður hvern þann sem stóð í vegi fyrir málstaðnum. En hún hélt sínu striki, þrátt fyrir stöðugar hindranir sem hefðu bug- að flest venjulegt fólk. Dóra var ekkert venjulegt fólk. Fyrir um 15 árum ákvað Dóra, þá fremur illa á sig komin líkam- lega eftir slímusetur við tölvu og keðjureykingar til margra ára, að hún skyldi ganga á eitt hæsta fjall Afríku, Mount Kenya. Ekki gafst nokkur tími til þjálfunar, og því vorum við sem höfðum stundað einhverja útivist heldur vantrúuð á þessa fyrirætlan – rétt eins og margt það sem Dóra tók sér fyrir hendur. En á tindinn fór hún, þvert á allar spár, það var einfaldlega ekkert fjall of hátt og enginn tind- ur of brattur þegar Dóra setti stefnuna á sigur. Og sigrar hennar urðu ófáir, bæði á sviði fræða, rit- starfa og mannréttinda. Hvernig henni gafst tími til að sinna fræða- störfum, semja bækur og greinar, ásamt því að vinna allt sitt braut- ryðjandastarf, það er mér með öllu óskiljanlegt. En líf hennar var ekki bara strit og barátta. Það var líka gaman, og Dóra kunni að njóta lífsins með góðum vinum – og ekki síst með Benna sínum. Hún ferðaðist um- hverfis hnöttinn með Benna og að- stoðarmanni, bjó og starfaði í ótal löndum, hvergi bangin, og eignað- ist þar trygga vini sem hún hélt sambandi við. Dóra var ekki bara vinur minn, hún var fjölskylduvinur, og í hug- um barna minna var hún sem ein af fjölskyldunni. Hún fylgdist með þeim í námi og starfi af einlægum áhuga eins og ástríkt foreldri. Í hennar augum var allt gott, fallegt og rétt sem frá þeim kom. Fyrir tæpu ári kom út bók Dóru, Brot – Konur sem þorðu, um ævintýralegt líf þriggja kvenna. Sjálf var Dóra sannarlega kona sem þorði. Hennar ævintýralegu ævi mætti ekki síður gera skil í bók með þessum sama titli. Við fjöl- skyldan söknum Dóru sárt. Lífið verður fátæklegra og litlausara án hennar. Elsku Benna sendum við innilegar samúðarkveðjur. Laufey Steingrímsdóttir. Það var tekið eftir henni Dóru Siggu þar sem hún kom, hvort sem var í orði eða verki. Ekki af því að hún léti á sér bera eða færi með bægslagangi heldur af því að hún hafði þannig nærveru, það skipti máli sem hún sagði og gerði, það voru ekki neinar skyndilausnir heldur að vel íhuguðu máli. Sumar ákvarðanirnar voru kannski frekar óvenjulegar en það var ekki hægt að kvarta yfir hinu rökræna sam- hengi enda hætti maður sér ekkert út í slíkar diskússjónir. Hún var traust og góð vinkona okkar Ólafar alla tíð frá skólaárunum, ræða hennar í brúðkaupsveislu okkar var lengi í minnum höfð enda skemmtileg og skörulega flutt í bogasal Þjóðminjasafnsins. Ég ætla mér ekki þá dul að fjalla um starf hennar, kennslu og fræði- skrif, það voru ekki tengifletir okk- ar. Við höfðum í litlum vinahópi mest gaman af að ferðast svolítið saman, borða saman, fara saman á tónleika, hlæja töluvert saman og yfirhöfuð að hittast, þar sem tak- markið var kannski frekar ferðin sjálf en áfangastaðurinn. Auk fræðigreina og rita skrifaði hún nokkrar aðrar bækur, nú síðast um frænkur sínar og örlög þeirra í þrjá ættliði, mjög vel skrifuð saga um vandmeðfarið efni sem hafði kostað mikið grúsk og ferðalög í aðrar álfur áður en hægt var að hnýta endana eins vel saman og nokkur kostur var. Hún skrifaði einnig bók um Benna sem öllum er holl lesning fyrir þá ást og jafn- framt virðingu sem bókin ber með sér í garð sonar hennar. Megi sá arfur fylgja honum og okkur öllum sem kveðjum hana í dag með sökn- uði. Stefán Örn Stefánsson. Dóru Siggu skaut upp í götu- myndinni á Öldugötunni þegar við vorum börn. Afi hennar var Jón í Verðanda, en Verðandi var aðal- veiðarfæraverslun bæjarins í þann tíð, staðsett í miðbæ Reykjavíkur, og verslaði líka með dólka og vasa- hnífa og bambusstangir sem voru uppistaðan í götubardögum hverf- isins, að ógleymdum rakettum þegar nær dró áramótum. Við kölluðum hana „Dóru stóru“, enda bar hún höfuð og herðar yfir okkur hin, hávaxin eins og hún átti kyn til, en móðir hennar Steinunn og móðurbróðir, Guð- mundur Jónsson óperusöngvari, voru bæði í hærra lagi. Hún hafði ung að árum misst föður sinn af slysförum og hefur vísast snemma þurft að axla ábyrgð, elst sinna systkina. Við tóku skólaárin hér heima og ytra og að þeim loknum voru vin- áttuböndin treyst. Dóra var mikill vinur vina sinna og höfðingi heim að sækja, fyrst á Bollagötu og síðar Tjarnargötu 41 og var þar komin á upphafsreit, en í húsinu númer 20 hafði hún fyrst litið dagsins ljós sumarið 1947. Dóra var það sem á erlendum málum kallast „intellektuel“ og skortir eiginlega heiti á íslensku, menntakona nær því engan veg- inn, orðið er of meinlaust saman- ber skilgreiningu Jean-Paul Sartre: „Intellektúel er einstak- lingur sem lætur sig allt varða, líka það sem honum kemur ekki við.“ Árið 1980 urðu mikil umskipti í lífi Dóru þegar hún eignaðist son- inn Benedikt, fjölfatlaðan dreng sem segir frá í bókinni Undir hul- iðshjálmi frá árinu 1996 og fjallar um harðdræga baráttu Dóru fyrir að fá drenginn viðurkenndan sem fullgildan samfélagsþegn, þar með talið skólaskyldan, en þar lagði hún á svo brött klif að leiðir hlaut ósjálfrátt að skilja með henni og mörgu samferðafólki. Það var engu líkara en hún sækti í æ stærri áskoranir, samanber þegar hún fór með Benna í hjólastól í námsferðir um Evrópu, Ameríku, Nýja-Sjáland og Ástralíu! Satt að segja fór fram hjá þess- um lesanda hér hvað Undir huliðs- hjálmi er í raun magnað verk, efn- ið var svo sárt og sér á parti, plús auðvitað slæm samviska yfir að hafa reynst Dóru svo slæleg hjálp- arhella. Það var svo í fyrra að Dóra sendi frá sér bókina Brot sem tók af allan vafa um hve hugkvæmur og útsmoginn höfundur hér var á ferð. Sagan greinir frá fyrri konu afa hennar, Adeline, og Ingibjörgu Stein H. Bjarnason, hálfsystur föður hennar og dóttur hennar Veru Zilser, en tvær þær síðar- nefndu bjuggu víðs vegar um Evr- ópu, en lengst af í Argentínu. Það er ekki laust við að þær frænkur minni á Dóru sjálfa, viljasterkar með afbrigðum og létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna í fórnfúsu hjálparstarfi fyrir þá sem höllum fæti standa, eða eins og Dóra segir um Ingibjörgu: „Hún fékk aðstæð- ur lítilmagnans nánast á heilann.“ Púslin eru í byrjun fá, en með hugkvæmni tekst Dóru að búa til heildstæða mynd, sem jafnframt er menningar- og stjórnmálasaga aldarinnar. Og Dóra gerir það sem alla höfunda dreymir um – en láta þar við sitja – hún heimsækir nán- ast hvern þann stað sem persónur hennar höfðu gist: í Evrópu, Suð- ur- og Norður-Ameríku. Það gekk kraftaverki næst að Dóru skyldi lánast að ljúka þessu verki þegar haft er í huga hve skammt hún átti ólifað. Í Brotum er Dóra lifandi komin, full af húm- or og hlýju og svo gripið sé til ein- kunnar sem hún sæmdi þær frænkur sínar: kona sem þorði. Við Hrafnhildur vottum Benna og öðrum ástvinum okkar innileg- ustu samúð. Pétur Gunnarsson. Daginn sem við giftumst kynnti brúðurin verðandi eiginmann sinn fyrir Dóru trúnaðarvinkonu sinni. Þær höfðu þekkst um árabil og var Dóra því sett í að lagfæra gifting- arbuxur brúðgumans sem reynd- ust of síðar. Dóra var að vísu engin sérstök handverkskona en bux- urnar styttust. Þetta var bæði framhald og upphaf ævarandi vin- áttu. Frá þessum tíma var Dóra Sigríður tíður gestur á Bræðró og hélt því áfram til enda, þótt barn- eignir, kröfuhörð launavinna og aðrar annir drægju úr tíðni eftir því sem árin liðu. Börnum okkar var hún sem önnur móðir, fylgdist með framgangi þeirra og lét sér annt um þau, var með mynd af þeim á vinnustofu sinni. Vinátta okkar þoldi bæði mótlæti og and- byr. Samtalið yfir kaffibolla og ánægjan á gleðistundum auðgaði lífið og stækkaði sjóndeildarhring- inn. En Dóra var vissulega ekki allra. Því kynntumst við líka. Það er ekki auðvelt að gera persónu- leika Dóru Sigríðar þau skil sem hann verðskuldar, til þess var hún of flókin manneskja; lék sér að of mörgum boltum samtímis jafn- framt því að vera þétt setin já- kvæðum metnaði um að brjóta blað. Skilja eftir sig spor. Á stund- um var hún of viðkvæm og sær- anleg til að auðvelt væri að ræða saman af hreinskilni. Þegar saman fór einbeittur vilji og sannfæring fyrir málstað sínum héldu henni engin bönd. Á sviði fötlunarmála voru sporin sem hún skyldi eftir sig stór. Frá því hún eignaðist son sinn Benedikt helgaði hún líf sitt baráttu fyrir fatlaða. Skoðanir hennar og kröfur voru nýlunda, róttækar og ýmsir andmæltu þeim, en hún náði þeim fram að lokum. Hún kynnti þær við erlenda háskóla og aflaði þeim stuðnings. Okkur er til efs að nokkur annar einstaklingur íslenskur hafi mark- að dýpri og varanlegri spor og mótað afstöðu fleiri gagnvart fötl- uðu fólki og réttindabaráttu þess en Dóra. Henni tókst það sem erf- iðast er – að breyta viðhorfi. Það var ekki lítið afrek, því mörg okkar höfðu þar þrönga sýn og forn- eskjulega. Dóra gat haft unun af að ögra og ganga fram af fólki. Eink- um var þetta áberandi meðan hún var enn ung. Þótt ung hafi hún misst föður sinn var hún ekki farin að horfast í augu við þá alvöru sem seinna kom. Margar sögur eru til frá þeim tíma þegar hún var er- lendis við nám og lífið var uppá- tækjasamur dans á rósum. Alvar- an, blönduð gleði, hófst þegar hún eignaðist Benedikt, einkabarn sitt. Fljótlega kom í ljós að hann var al- varlega fatlaður. Um ást þeirra, baráttu og samskipti skrifaði hún fallega bók. Það var hennar leið til að milda mikinn og djúpan sárs- auka. Hún skrifaði aðra bráð- skemmtilega bók um tvær frænk- ur sem voru ekki allra. Dóra var okkur hjónum mikið tryggðatröll. Við munum eiga eftir að ræða um hana og vitna til margs sameigin- legs sem mun gleðja lund okkar og hug. Við söknum hennar mjög og finnum til þakklætis fyrir að hafa verið svo heppin að fá að kynnast henni og eiga hana fyrir vin. Bless- uð sé minning hennar. Benna og öðrum ástvinum vottum við inni- lega samúð. Þröstur Ólafsson, Þórunn Klemenzdóttir. Ég vil með þessum orðum minn- ast látinnar samstarfskonu minnar Dóru Sigríðar Bjarnason, prófess- ors emerita, og votta henni dýpstu virðingu. Við vissum að Dóra átti við veikindi að stríða en samt kom skyndilegt fráfall hennar á óvart. Leiðir okkar Dóru lágu fyrst sam- an um 1980 í gegnum móður henn- ar frú Steinunni Á. Bjarnason sem ég vann þá með. Síðast í júlí á þessu ári drukkum við saman kaffi í fallegum lundi í Mosfellssveit með Benna og fleira fólki. Eflaust munu aðrir rekja lífsferil og starf Dóru náið og ræða þær mörgu viður- kenningar sem hún hlaut fyrir sitt mikilsverða framlag. Dóra var ótrúleg, frumkvöðull og eldhugi sem fylgdi málefnum eftir af ein- urð. Þetta birtist meðal annars í málum sonar hennar Benedikts þar sem hún var óþreytandi við að skapa honum réttlátt líf og um- hverfi; nokkuð sem kemur öðrum í sömu stöðu sannarlega til góða. Dóra var ötul við fræðastörf og hafði þegar hún féll frá ýmis rit- verk á prjónunum og hugðist með- al annars fylgja eftir nýlegum skrifum sínum um ættarsögu kvenna í eigin fjölskyldu. Eins og títt er um baráttufólk var mála- fylgja Dóru umdeild, mér liggur við að segja afar umdeild. Dóra var einlægur femínisti. Í samræmi við það bar tvö málefni hæst í baráttu hennar; virðing, við- urkenning og jafnstaða þess fólks sem við nefnum gjarnan fatlaða og stefna sem kennd er við skóla án aðgreiningar. Skerfur Dóru í þágu sanngjarns skólasamfélags, virkr- ar þátttöku og réttar allra til menntunar var bæði mikilvægur og umtalsverður. Félagslegt rétt- læti var hin þunga undiralda. Dóra var góð í að virkja fólk í kringum sig til að fylgja málum eftir þegar aðrir viku sér undan eða snerust gegn hennar málatil- búnaði. Hún var sterk persóna. Ýmsum þótti hún ef til vill of fylgin sér en hún var jafnframt þakklát þeim sem veittu henni aðstoð þeg- ar á þurfti að halda. Þrátt fyrir þá miklu alvöru sem í baráttu Dóru lá var hún oft létt í skapi, skemmtileg og örlát. Dóra markaði djúp spor í samfélaginu og hennar verður sannarlega minnst sem brautryðj- anda. Ég votta syni hennar Bene- Vesturhlíð 2 | Fossvogi | s. 551 1266 | utfor@utfor.is | utfor.is VIÐ ÞJÓNUM ALLAN SÓLARHRINGINN Útfararþjónusta í yfir 70 ár Sálm. 10.14 biblian.is Þú gefur gaum að mæðu og böli og tekur það í hönd þér. Hinn bágstaddi felur þér málefni sitt, þér sem hjálpar munaðarlausum. HJARTAVERND Minningarkort 535 1800 www.hjarta.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.