Morgunblaðið - 26.08.2020, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 26.08.2020, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. ÁGÚST 2020 Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/ Greint var fráþví í gær,að svo- nefndri „villtri“ mænuveiki hefði verið útrýmt í Níg- eríu, en fjögur ár eru frá því að síðasta tilfellið greindist þar í landi. Þar með hefur mænuveikiveirunni verið alfarið útrýmt í Afríku á ein- ungis 25 árum, en áætlað er að bólusetningarherferð í álfunni, sem staðið hefur yfir frá árinu 1996, hafi forðað um 1,8 millj- ónum barna frá því að lamast, og bjargað um leið 180.000 mannslífum. Hafa ber í huga, að ekki eru nema rúmlega þrír áratugir frá því mænuveiki lamaði um 350.000 börn á hverju ári, og glíma enn fjölmargir við afleið- ingar þess að hafa fengið hana í æsku. Í ár hafa einungis 87 til- felli greinst, en „villta“ veiran finnst nú eingöngu í tveimur ríkjum, Afganistan og Pak- istan. Mun sjaldgæfara af- brigði veirunnar, sem varð til út frá bólusetningarefninu, fyrirfinnst þó enn í Afríku og víðar. Þetta dregur þó ekki úr því, að hér er um heilmikið afrek að ræða. Mænuveiki hefur löngum verið einn af helstu skaðvöld- um mannkynsins, og lagðist sóttin þungt á jafnt þróuð sem vanþróuð ríki allt þar til banda- ríski læknirinn Jonas Salk þró- aði fyrsta bóluefnið gegn henni árið 1952. Fram að þeim tíma höfðu mænuveikifaraldrar reglulega skotið upp kollinum með hræðilegum afleiðingum, en nú var loks hægt að vinna bug á veirunni. Það segir sitt um hversu hræðilegur sjúkdómurinn var, að Salk neitaði al- farið að sækja um einkaleyfi fyrir bóluefninu, og taldi það í raun tilheyra öllu mannkyninu. „Myndi maður sækja um einkaleyfi fyrir sólinni?“ mun Salk hafa spurt þegar sú ákvörðun að hagnast ekki per- sónulega var borin undir hann. Á þeim áratugum sem síðan eru liðnir hefur mannkynið stefnt að því að útrýma mænu- veikiveirunni, líkt og bólusótt var áður útrýmt eftir að hafa plagað mannkynið frá örófi alda. Það markmið er loks inn- an seilingar, nú þegar þriðja og síðasta „villta“ afbrigði mænu- veikiveirunnar hefur verið kró- að af. Það, sem er helst til fyrir- stöðu að þetta markmið náist, er að aðstæður í ríkjunum tveimur sem nú glíma við mænuveikiveiruna eru ekki auðveldar. Átök og ófriður hamla tilraunum til þess að bólusetja sem flest börn fyrir veirunni. Áþekkar aðstæður voru reyndar uppi í Nígeríu, þar sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram litu bólusetn- inguna hornauga, og þurfti að færa ýmsar fórnir til þess að yfirvinna þann þröskuld. Náist viðlíka árangur í Afg- anistan og Pakistan og náðst hefur í Nígeríu er þó fátt sem stendur í vegi fyrir því að inn- an örfárra ára heyri þessi skelfilegi sjúkdómur sögunni til. Útrýming mænu- veikiveirunnar yrði mikill sigur fyrir mannkynið} Mikilvægur áfangi Flokksþingstóru flokk- anna í Bandaríkj- unum eru nú um garð gengin, en þau voru ekki svip- ur hjá sjón vegna kórónuveirunnar, en þó tókst allt framar vonum að mati beggja. Demókratar voru á undan með sitt þinghald og voru mjög sáttir við sitt við framgang þess, sem hafi gert miklu betur en að vera stór- slysalaust og fengið ágæta ein- kunn fréttamiðla. Og þá ekki aðeins þeira sem fylgja þeim að málum heldur einnig frá Fox-stöðinni sem er sú eina af þeim stóru sem ekki er í taumi. Oft hefur fylgi við flokk vax- ið nokkuð í kjölfar flokksþings. Það hefur ekki gerst í tilviki demókrata, en þeir halda öllu sínu. Repúblikanar voru einnig ánægðir með sitt þing og fylgið við frambjóðanda þeirra hefur aukist nokkuð í kjölfar þess. Það er reyndar það sem oftast gerist í kjölfar þessara þinga, en hefur ekki endilega haft varanleg áhrif inn í baráttu síðustu mánaða. Hefði annað hvort þingið misheppnast þá sýnir sagan að það hefði hugs- anlega valdið varanlegu tjóni fyrir lokabaráttu frambjóð- anda þess. Liðsmenn Trump forseta benda hins vegar á að í kjölfar þeirra þings hafi staðan hjá veðbönkunum breyst, svo að marktækt sé, frambjóðanda þeirra í hag. Og því megi ekki gleyma að þar séu beinharðir dollarar á ferð og dollarinn sé það vogarafl og sá mælikvarði sem iðulega ráði ferðinni þegar mest liggi við í „guðs eigin landi“. Það er ekki verra en hvað annað til að hugga sig við. Forystumenn stóru flokkanna í Banda- ríkjunum eru sáttir við sín flokksþing} Að loknum flokksþingum Á Íslandi höldum við kosningar á fjögurra ára fresti. Þá keppast stjórnmálasamtök um atkvæði kjósenda með því að leggja lín- urnar fyrir næstu fjögur árin. Þannig virkar lýðræðið okkar, lýðveldi með þingbundinni stjórn. Inn á milli kosninga er lýðræðið svo í ákveðnum dvala á meðan nokkrir flokkar hópa sig saman um meirihluta atkvæða á þingi og ráða þannig bókstaflega öllu sem sá meirihluti kemur sér saman um. Í vor gerðist hins vegar nokkuð sem fáir sáu fyrir. Heimsfaraldur að umfangi sem hefur ekki sést í hundrað ár. Allir voru beðnir um að setja sér takmörk, jafnvel í jarðarförum. Forð- ist að hitta annað fólk. Haldið ykkur í tveggja metra fjarlægð. Ekki ferðast. Stjórnvöld settu okkur þessi takmörk og báðu okkur um þolin- mæði og skilning sem fólk almennt virti. Óvissan var mikil og því eðlilegt að fara varlega. Það eru hins vegar takmörk fyrir þolinmæði. Það eru takmörk fyrir óvissu. Takmörk sem stjórnvöld hafa geng- ið á að undanförnu. Ég tel óþarfa að rekja hvaða vandræði stjórnvöld hafa komið sér í að undanförnu en langar að minnast á þau fyrstu. Það var tækifæri stjórnvalda til þess að leggja fram sína stefnu í vor. Í vor átti að leggja fram fjármálaáætlun þar sem stjórnin leggur fram stefnu sína til næstu ára. Þar á að koma fram hvernig stjórnvöld hyggjast tryggja festu, stöðugleika og sjálfbærni. Hvernig varfærni og gagnsæi á að ráða för í aðgerðum stjórnvalda. En í stað þess að leggja fram sína stefnu í vor, þegar óvissan var sem mest – í stað þess að mæta óvissu með stefnumörkuðum aðgerðum, þá hafa stjórnvöld hins vegar verið í stöðugri íhlaupavinnu við að hlaupa á milli einstakra hagsmunaaðila sem kalla „úlfur, úlfur“. Að mínu mati hafa þetta verið ein helstu mistök stjórnvalda, að mæta ekki Kófinu með skýrri stefnu út úr því. Þetta eru mistök sem ég gagnrýndi harðlega í vor og afleiðingin er augljós. Stjórnvöld hafa valið fálmkenndar að- gerðir þar sem óljóst var hvernig hagsmunir almennings væru öruggir. Varfærni var ekki leiðarljós. Gagnsæi ekki heldur því þrátt fyrir allt sem gengið hefur á þá hafa nákvæmlega engar upplýsingar komið frá stjórnvöldum um áform og aðgerðir þeirra til þingsins fyrr en þær birtast í fjölmiðlum. Samt er lýðræðið okkar skilgreint sem þingbundin stjórn. Það var mín skoðun í vor að það hefði verið eðlilegast að setja á þjóðstjórn á meðan Kófið varir. Ég er enn á þeirri skoðun en held að það sé farið að verða of seint. Þeir flokk- ar sem eru í ríkisstjórn hafa algerlega klúðrað trúverð- ugleika sínum um samstarf á þingi. Stjórnvöld buðu upp á samráðsvettvang vegna Kófsins en höfðu ekki samband við flokka á þingi sem eru utan ríkisstjórnar. Samt erum við með þingbundna stjórn eða eins og Stuðmenn sungu „bara ef það hentar mér“. bjornlevi@althingi.is Björn Leví Gunnarsson Pistill Umboð þjóðar ef það hentar mér Höfundur er þingmaður Pírata. STOFNAÐ 1913 Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík. Ritstjóri: Davíð Oddsson Aðstoðarritstjóri: Karl Blöndal Ritstjóri og framkvæmdastjóri: Haraldur Johannessen BAKSVIÐ Sighvatur Bjarnason sighvaturb@mbl.is Fjölmargt verður í boði fyrirþá Íslendinga sem vanireru að ferðast erlendis tilað stytta sér veturinn og hrista af sér skammdegisdrungann. Blaðamaður ræddi við fólk í ferða- þjónustu sem er nú í óða önn að undirbúa komandi vetur. Skíði, jöklaferð og bað Aðsókn að skíðasvæðum hefur jafnan verið góð en búast má við aukningu þegar engir eru Alparnir. Hjá Sigló hótel fengust þær upplýs- ingar að þar hafi alltaf verið mikið bókað af skíðafólki og bjartsýni ríki fyrir komandi vetur. Sömu sögu sagði Páll L. Sigurjónsson, fram- kvæmdastjóri KEA-hótela, sem ger- ir ráð fyrir því að endurbætt skíða- svæði í Hlíðarfjalli verði mikið aðdráttarafl. Hjá fyrirtækjunum Mountain- eers of Iceland og Arctic adventures eru menn í óða önn að sníða þjón- ustuna að þörfum Íslendinga og hyggjast bjóða upp á spennandi vetrarferðir fyrir fjölskyldur og minni hópa. Vélsleðaferðir á Lang- jökul og ferðalag um íshelli, með sér- stökum uppákomum, verða í boði auk þess sem ferðalag um Raufar- hólshelli og köfun í Silfru verður áfram á boðstólum. Heimsókn á fínni baðstaði þykir mörgum ómissandi þáttur í hverri ferð. Sjóböðin á Húsavík verða opin í vetur sem og Jarðböðin á Mývatni og í Kraumu er stefnt á a.m.k. opnun um helgar. Hjá baðhúsinu Vök nærri Egilsstöðum segir Heiða Vigfús- dóttir framkvæmdastjóri að þar verði opið í vetur og upplifunin tvinnuð saman í samstarfi við aðra ferðaþjónustubændur í héraðinu. Hún segir það flöskuháls að fólki finnist dýrt að fljúga innanlands en bendir á að stuttur flugtími sé mikil búbót fyrir þá sem vilja njóta stuttra helgarferða. Rómantískar helgarferðir Hótelrekendur segjast einmitt vonast til þess að landinn muni renna hýru auga til þess að skipta út hefðbundnum helgarferðum til út- landa og noti tækifærið til þess að heimsækja landsbygggðina. Davíð Torfi Ólafsson, fram- kvæmdastjóri Íslandshótela, segir að áfram verði boðin hagstæð kjör fyrir margar nætur og tilboð sem leggja áherslu á „rómantík og huggulegheit“. Páll hjá KEA segir að þar verði lögð áhersla á að tengja gistingu við afþreyingu á hverju svæði fyrir sig sem ætti að henta fjölskyldufólki vel, auk þess sem boðið verði upp á lúxuspakka fyrir pör. Sömu þjónustu segja þeir í boði fyrir landsbyggðarfólk sem vill gera sér glaðan dag í borginni, sem nú geti bætt leikhúsum á óskalistann. Þroskuð ferðaþjónusta Ljóst er að innlend ferðaþjón- usta verður með öðruvísi sniði í vet- ur. Fjölmargir þjónustuaðilar verða með skerta starfsemi eða algera lok- un en víða er unnið að því að stilla strengi og fínpússa spennandi framboð. Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja landið í sumar og hafa þar kynnst eigin ferðaþjónustu á nýjan hátt. Dav- íð segir að hún hafi slitið barns- skónum og sé nú mun bet- ur í stakk búin að uppfylla meiri kröfur en áður og það hafi „komið Íslendingum töluvert mik- ið á óvart hvert ferðaþjón- ustan á Íslandi er komin í dag“. Stilla strengina fyrir Íslendinga „Fólk mun ekki hætta að ferðast,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferða- málastjóri um komandi ferða- vetur hér á landi. Hann segist gera ráð fyrir því að borg- arferðir erlendis leggist að mestu af en Íslendingar muni horfa til þess að ferðast innan- lands í staðinn. Skarphéðinn segir landann duglegan að gera vel við sig á ferðalögum og gerir ráð fyrir því að innlend eftirspurn muni vega á móti hruni á erlendri en þó ekki nema að takmörkuðu leyti. Bú- ast megi við skertri þjón- ustu að einhverju leyti en hótel og og önnur þjón- usta í kringum þéttbýli muni njóta góðs af því. Gerir ráð fyrir aðsókn FERÐAMÁLASTJÓRI Skarphéðinn Berg Steinarsson Ljósmynd/Vök Baths Vök Þar verður opið í vetur og upplifunin tvinnuð saman við aðra kosti.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.