Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.10.2020, Side 22
Til að geta með réttu mótað okkur upp-lýsta afstöðu til málefnis dánarað-stoðar er nauðsynlegt að huga að því
sérstaklega hverja dánaraðstoð snertir og
hvaða þýðingu lögleiðing hennar kann að hafa
fyrir þá. Þar ber helst að nefna sjúklinginn
sjálfan sem aðstoðarinnar leitar og heilbrigð-
isstarfsmenn þá sem hana þurfa að veita.
Sá sem aðstoðarinnar leitar
Ef við horfum til sjúklings sem óskar dán-
araðstoðar, þá er þar almennt um að ræða
þann sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi og oft
banvænum. Aðstöðu sjúk-
linga sem eru hrjáðir af
slíkum sjúkdómum hefur
verið lýst sem svo að þeir
upplifi sig sérstaklega við-
kvæma, varnarlausa og að
þeir finni oft fyrir stans-
lausri ógn gegn sjálfsvirð-
ingu sinni. Þannig mun
sjúklingur sem er upp á
nákomna og umönnunar-
aðila kominn, vegna alvarlegra veikinda, oft
upplifa niðurlægingu og hjálparleysi. Hafa
gagnrýnendur dánaraðstoðar því bent á að
með lögleiðingu skapist sú hætta að sjúkling-
ar í slíkum aðstæðum kunni að óska dánar-
aðstoðar, jafnvel þegar þeir vilja hana í raun
síður, til að vera ekki byrði sínum nákomnu.
Kjarninn í röksemdum þeirra sem tala fyr-
ir lögleiðingu dánaraðstoðar byggist á virð-
ingu fyrir persónufrelsi og sjálfsákvörð-
unarrétti sjúklings. Á Íslandi er nú þegar
mikil áhersla lögð á virðingu gagnvart sjúk-
lingum sem eru dauðvona og með ólæknandi
sjúkdóma. Birtist það til að mynda skýrt í því
að skyldan til að sýna sjúklingum virðingu er
sérstaklega lögfest í lögum um réttindi sjúk-
linga. Því miður er raunin sú að skilningsrík
viðleitni aðstandenda og umönnunaraðila
dugar ekki alltaf til að koma í veg fyrir að al-
varlega veikur sjúklingur upplifi hjálparleysi
og niðurlægingu. Auk þessa er lögfestur í
sömu lögum réttur sjúklings til að deyja með
reisn. Er sjúklingi þannig frjálst að hafna eða
hætta meðferð, jafnvel þegar hún er honum
lífsnauðsynleg, svo fremi sem hann hafi
óskerta dómgreind eins og nánar er vikið að
hér á eftir, og þá geta dauðvona sjúklingar
einnig óskað líknandi meðferðar. Þau úrræði
geta í vissum tilfellum talist ófullnægjandi til
að ná því markmiði að tryggja að sjúklingur
fái að deyja með reisn, eins og talsmenn lög-
leiðingar dánaraðstoðar benda gjarnan á.
Vaxandi stuðningur
Lögleiðing dánaraðstoðar sjúklinga virðist
njóta síaukins stuðnings meðal almennings ef
marka má niðurstöður skoðanakannana. Árið
2001 birti PWC skoðanakönnun þar sem
46,4% þátttakenda kváðust fylgjandi lögleið-
ingu dánaraðstoðar og þriðjungur andvígur. Í
skoðanakönnun Maskínu frá árinu 2019 sögð-
ust aftur á móti 77,7% þátttakenda hlynnt því
að einstaklingur gæti fengið dánaraðstoð ef
hann væri haldinn sjúkdómi eða ástandi sem
hann upplifði óbærilegt og metið hefði verið
ólæknandi. Andvígir voru hins vegar 6,8%.
Þess verður þó að geta að dánaraðstoð,
eins og hún er skilgreind í spurningunni frá
2019, býður upp á afar rúman rétt til að óska
dánaraðstoðar, en víðfeðmi lögleiðingar er
eitt helsta álitaefnið sem horfa verður til í
umræðunni um lögleiðingu hennar, þ.e. hvort
hún skuli einungis veitt þeim sem haldnir eru
ólæknandi sjúkdómum, sem munu leiða til
dauða viðkomandi innan fyrirsjáanlegrar
framtíðar. Þannig væri rétturinn takmark-
aður við tiltölulega þröngan hóp sjúklinga
sem flestir hverjir falla nú þegar undir lífs-
lokameðferð á líknardeild LSH, eða þá hvort
rétturinn skuli vera rýmri, t.a.m. að sérhver
sjúklingur með ólæknandi sjúkdóm, sem
veldur honum ólinandi þjáningum, geti hlotið
dánaraðstoð, en þannig væri fallið frá skilyrð-
inu um að andlát sjúklings þurfi að vera innan
fyrirsjáanlegrar framtíðar. Með slíkri lög-
festingu gætu aðilar með sjúkdóma á borð við
alzheimer, sem þó hafa enn getu til að taka
upplýsta ákvörðun e.t.v. hlotið dánaraðstoð,
en að sama skapi gætu sjúklingar með alvar-
legt þunglyndi sótt um dánaraðstoð, enda þar
oft um ólæknandi sjúkdóm að ræða, sem veld-
ur miklum þjáningum. Báðar nálganir þekkj-
ast og má sem dæmi nefna að þeirri fyrri
svipar til lagaumhverfisins í Kanada sem
fjallað hefur verið um nýlega, en þar er jafn-
framt nú til umræðu að rýmka dánar-
aðstoðarréttinn. Þá skal það nefnt að bæði
fyrrnefnd dæmi um alzheimer og þunglyndi
eru raundæmi frá löndum sem heimila dánar-
aðstoð. Má í dæmaskyni nefna, líkt og Eti-
enne Montero lagaprófessor fjallar um í grein
síðan 2017, eru á bilinu 60-70 beiðnir um dán-
araðstoð samþykktar í Belgíu á ári hverju
vegna geðraskana (e. Neuropsyciatric dis-
orders), þeirra á meðal alvarlegs þunglyndis
og að alvarlegur skortur á eftirliti með dán-
araðstoð valdi því að erfitt sé að vita með ná-
kvæmni hvort allir þeir sem hana hljóti upp-
fylli kröfur laga.
Það er ljóst að aðstæður þeirra sem dánar-
aðstoðar leita geta verið margbreytilegar og
þarf að hafa það í huga, ef til lögleiðingar
kemur.
Rétt er að víkja einnig stuttlega að stöðu
nákominna sem lítið hefur verið fjallað um í
tengslum við dánaraðstoð. Það má einna helst
rekja til þess að ósk dómgreindarbærs sjúk-
lings er ríkjandi, óháð vilja nákominna. Vafa-
mál kunna þó að rísa, einkum í þeim að-
stæðum þegar sjúkling skortir dómgreind
eða getu til ákvörðunartöku. Skýrt dæmi þess
eru sjúklingar sem liggja í djúpu dái og
læknar meta frekari meðferð gagnslausa.
Reynir þá almennt fyrst á hvort nokkrum að-
ila hafi verið falið umboð til að taka ákvörðun
fyrir sjúklinginn. Annars hefur gjarnan verið
horft til þess að þeir nákomnu aðilar, sem
ekki hafa gefið upp alla batavon, geti átt
hagsmuna að gæta, enda megi telja að óskir
þeirra samrýmist hagsmunum sjúklingsins
sjálfs.
Sá sem aðstoðina þarf að veita
Auk þess sem þiggur aðstoðina er nauðsyn-
legt að huga að þeim lækni eða heilbrigðis-
starfsmanni öðrum sem hana þarf að veita.
Dánaraðstoð veltur þannig ekki einungis á
ákvörðun sjúklings heldur þarf jafnframt að
vera fyrir hendi læknir sem er reiðubúinn að
veita þá aðstoð. Ber læknir sá sem tekur slíkt
að sér ábyrgð á því að sjúklingur deyi skjótt
og þjáningarlaust. Spyrja verður sig hvort
hægt sé að leggja þá lagaskyldu á heilbrigð-
isstarfsmenn að veita sjúklingi dánaraðstoð.
Helstu gagnrýnisraddir dánaraðstoðar í
gegnum árin hafa komið úr röðum lækna og
skal engan undra. Sem dæmi má nefna grein
Björns Einarssonar, öldrunarlæknis og heim-
spekings, síðan 2016 þar sem hann taldi ekki
hægt að krefja lækni eða annan heilbrigðis-
starfsmann þess að framkvæma líknardráp,
stríði það gegn samvisku hans, enda andstætt
eðli læknisstarfsins og læknaeiðsins, að virða
mannslíf, mannúð og mannhelgi.
Það hefur lengi verið grundvallarregla að
lækni er frjálst að hafna því að veita meðferð
sem brýtur gegn samvisku hans. Er þannig
réttur læknis, bæði í Hollandi og Belgíu, um
að verða ekki við beiðni um dánaraðstoð virt-
ur. Var sú regla sérstaklega lögfest í Belgíu
og ber læknum þar ekki skylda til að vísa
sjúklingi sem dánaraðstoðar óskar til annars
læknis sem aðstoðina getur veitt. Þrátt fyrir
það kom til skoðunar að lögfesta slíka skyldu
árið 2013 en ekki varð úr því. Þá hefur verið
lögð aukin áhersla á að allar heilbrigðisstofn-
anir veiti dánaraðstoð, jafnvel þær sem eru
opinberlega Kaþólskar, eins og gagnrýn-
endur dánaraðstoðar hafa gjarnan bent á og
að samviskufrelsi lækna lúti þannig sífellt í
lægra hald fyrir rétti sjúklings til að fá að-
stoðina. Það er alvarlegt mál að nokkrum
heilbrigðisstarfsmanni sé, gegn samvisku
sinni, gert að deyða sjúkling, enda er þar oft
um að ræða afstöðu sem byggist á grundvall-
ar lífsviðhorfum viðkomandi.
Afstaða heilbrigðisstarfsmanna
Það er því nauðsynlegt, komi til lögleiðingar,
að afstaða heilbrigðisstarfsmanna liggi skýrt
fyrir. Síðasta skoðanakönnun um afstöðu
heilbrigðisstarfsfólks á Íslandi til dánarað-
stoðar var birt árið 1997. Þar sögðust ein-
ungis 2-3% þeirra reiðubúin að verða við
þeirri beiðni sjúklings. Þrátt fyrir að stuðn-
ingur meðal almennings hafi aukist er með
öllu óljóst hvort hið sama gildi um heilbrigð-
isstéttirnar. Mikilvægt er að það sé kannað
áður en lengra er haldið með umræðuna af
hálfu stjórnvalda.
Flestir sérfræðingar eru sammála um mik-
ilvægi þess að umræðan um lögleiðingu dán-
araðstoðar eigi sér stað í samráði við fulltrúa
lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna
vegna augljósra tengsla verksins við störf
þeirra. Margir hafa lýst yfir efasemdum sín-
um um að hægt sé að regluvæða dánaraðstoð,
á fullnægjandi hátt, án aðkomu lækna. Ljóst
er að fjöldi álitamála kann að rísa, sé dánar-
aðstoð lögfest þvert gegn vilja heilbrigðis-
stéttanna. Sem dæmi má nefna að leggist þær
gegn dánaraðstoðinni, þrátt fyrir lögleiðingu,
er erfitt að sjá hvernig unnt væri að knýja
slíka skyldu fram. Ætti því lagasetning um
dánaraðstoð ávallt að vera unnin í sátt við
lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn að því
marki sem mögulegt er.
Fyrsta grein Arnars um dánaraðstoð birtist í
Sunnudagsmogganum fyrir viku.
Umfjölluninni verður haldið áfram í næsta
tölublaði Sunnudagsmoggans.
Höfundur er lögmaður.
Hverja snertir dánaraðstoð?
Dánaraðstoð er viðkvæmt mál.
Þar eru þeir sem eftir henni
leita í forgrunni, en ekki ber
síður að horfa til þeirra sem
veita þurfa slíka aðstoð. Arnar
Vilhjálmur Arnarsson fjallar
um ýmis álitamál og nauðsyn
þess að lögleiðing verði í sátt
við heilbrigðisstéttirnar.
„Lögleiðing dánaraðstoðar sjúklinga
virðist njóta síaukins stuðnings
meðal almennings ef marka má
niðurstöður skoðanakannana,“
skrifar Arnar Vilhjálmur Arnarsson.
Morgunblaðið/Eggert
’ Ljóst er að fjöldi álitamálakann að rísa, sé dánaraðstoðlögfest þvert gegn vilja heilbrigð-isstéttanna. Sem dæmi má nefna
að leggist þær gegn dánaraðstoð-
inni, þrátt fyrir lögleiðingu, er
erfitt að sjá hvernig unnt væri að
knýja slíka skyldu fram.
Arnar Vilhjálmur
Arnarsson
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.10. 2020
LÍFSLOK