Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.11.2020, Síða 17
keppnisskákirnar, þá eru allmargar slíkar til. Síðari
tíma menn geta svo farið yfir þær og kinkað kolli
með skýrandanum, þegar hann segir að Fischer eða
Kasparov hefðu betur leikið þessum leik en ekki
þeim sem annar hvor þeirra lék í tímahrakinu. En
við gleymum því ekki að lítil von er til þess að nokk-
ur annar hefði leikið slíka skák gegn öflugum and-
stæðingi betur í hraðskákartíma.
Þótt bréfritari viti miklu minna um skák en hann
vildi og enn minna um þá nástöðu, framhjáhlaup og
uppnám sem veirur geta látið sakleysingja mann-
heims standa skyndilega frammi fyrir, þá fullyrðir
hann að miklu meira sé óþekkt í veröld veirunnar
en heimsmyndinni á 64 reita skákborði, þegar þeir
grúfa sig yfir það Fischer eða Kasparov og hafa
hliðsjón af öllum þeim kimum sem þeir hafa per-
sónulega kannað í dulheimum skákarinnar.
Og í hraðskákinni við veiruna var leikið um þús-
undir mannslífa, en ekki drottningar, kónga eða peð
útskorin í tré.
Og eftir því sem klukkan gengur á okkur sann-
færumst við flest um að oft þarf að láta skeika að
sköpuðu því að óþægilega algengt sé að aðeins einn
leikur sé sjáanlegur í stöðunni.
Vitum meira en áður, en þykjumst
vita margfalt það
Fyrir þúsundum ára lá kílómetraþykkur ís yfir öllu
landinu. Ekki vita menn með vissu hvers vegna, en
svo tók að hlýna. Þó vitum við að það voru ekki bíl-
arnir. En ef það hefðu verið bílarnir og allt hitt
bjástrið hefðum við sjálfsagt tekið ofan hattinn fyrir
því öllu. Maðurinn hefur þörf á að vita hvers vegna
eitthvað varð. Sú spurning hefur fleytt honum
áfram, þótt oft hafi hægt miðað. Gjarnan var byrjað
á að giska og gat þá næsti maður og helst spakari
en sá síðasti komið með aðra tilgátu. Af hverju
gjósa fjöll? Við vitum meira um það en áður. En
hvenær gjósa þau, hvar, hversu lengi? Og af hverju
gjósa þau ekki? Um það mætti spyrja Kötlu. Það er
fátt um slík svör. Mjög lengi var úrlausnin sú að
einhver var þar sem stóð á bak við stærstu atburði.
Stundum var þá hægt að nota slíkt til gagns í stöð-
unni sem þá var uppi. Minnir á þegar fróðustu
menn töldu einsýnt að þegar hraun tók að renna
suðvestur af þeim hafi það sýnt að goðum mislíkaði
að verið væri að fikta við stjórnskipun sem þeim var
sérstaklega þóknanleg. Þáverandi afneitunarmenn á
Þingvöllum árið þúsund vildu ekki kaupa þá fullyrð-
ingu og spurðu hverju goðin hefðu reiðst þegar
hraunið þar undir þeim og allt um kring tók að
renna forðum, fyrst þau tóku ergelsi sitt út svona
núna.
Þeir vissu að það mikla hraun rann löngu áður en
fyrstu menn stigu hér á land. Það þarf ekki jarð-
fræðing til að sjá að hraun eru ekki ný. Þeir heiðnu
urðu eiginlega heimaskítsmát.
Hrikalegustu eldsumbrot
og helgur staður
Okkur er flestum mjög hlýtt til sumra hrauna. Þau
á Þingvöllum eru í virðulegustu heiðurssætum.
En það tekur langan tíma að taka hvert og eitt
hraun í sátt og þau hraun eru til sem ná aldrei vin-
sældum.
Jónas sagði Skjaldbreið vera „fjallið, allra hæða
val“. Steinasafnarinn, náttúrufræðingurinn, skáldið
góða og umfram allt Íslandsvinurinn tryggi vissi
eins og þeir sem þögguðu niður í bábiljum fullyrð-
ingarmanna, að Logi reiður lauk við þessar steypu-
framkvæmdir. Spyrja má fræðimenn nánar út í það
og þeir upplýsa að fyrir svo sem 10.000 árum hafi
komið upp gos þar sem dyngjan fagra, Skjald-
breiður, er nú, og þeir merkja hraunin miklu sem þá
runnu inn á kort. En þeir bæta við að það hafi verið
gos um svipað leyti, í dyngju sunnan við Hrafna-
björg, sem Þingvallahraun rann frá, og hún mynd-
aði eldborgagígaröð og hafði mest áhrif á þær fegr-
unaraðgerðir sem taka flestum öðrum fram, í
augum okkar margra.
Þeir fróðu ljúka ágætum molum sínum með þess-
um orðum: „Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir
2.000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norð-
austan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi
og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvalla-
vatns. Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvalla-
svæðinu í meira en 2.000 ár, en ljóst er að einhvern
tímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.“
Og þrátt fyrir að bærilega trúgjarnir menn telji
sig vita með svo sem þriggja áratuga gamalli vissu,
að maðurinn stjórni nú orðið veðrinu, en geti enn
grátlega lítið átt við veirur, þá verðum við hinir að
láta á móti okkur að biðja þá sem mestu ráða í
mannheimum og stýra þar með veðrinu í ýmsum
efnum, að gera það fyrir okkur og næstu niðja að
bíða með það í nokkrar aldir að leyfa Loga að veita
reiði sinni útrás á ný, á fallegasta bletti jarðar.
Jónas segir
En þótt Jónas hefði fengið í vöggugjöf sína svo víð-
áttumikla skáldgáfu og tilfinningasýn, sem hann
varðveitti óskaddaða, þrátt fyrir veraldlega mót-
drægni sem bugað hefði flesta, þá átti vísindamað-
urinn einnig drjúgan skerf í þeirri blöndu. Það vafð-
ist ekki fyrir Jónasi að þótt Logi væri heltekinn
reiði sinni þá var hann í hæsta lagi verktaki í hinni
miklu umbyltingu.
Hver bar þá alla ábyrgð?:
Hver vann hér svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð!
Búinn er úr bálastorku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur;
vittu, barn! sú hönd er sterk;
gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.
Bréfritari veit svo sem ekki mikið um þetta frekar
en svo margt annað.
En ef þessi niðurstaða dugar Jónasi, því þá ekki
okkur hinum?
Og svo bað hann að heilsa
Það var árið 1844 sem Jónas „bað að heilsa“, í raun-
inni öllu því sem íslenskt er. En hann nefndi við
fuglinn góða, sem treysta mátti fyrir svona kveðju,
að bæri fyrir hann engil, í peysu, með húfu og rauð-
an skúf, að þá myndi hann heilsa henni sérstaklega
frá sér.
Nákvæmlega 100 árum síðar, 1944, kom fámenna
þjóðin hans Jónasar loks saman sem frjáls þjóð og
lýsti yfir, í bergkastalanum fagra, að Lýðveldið Ís-
land hefði verið stofnað á ný, á þessum stað.
Það má mikið vera ef ekki einmitt þá hafi svip
„stúlkunnar minnar“ brugðið fyrir augu þeirra sem
njóta slíkrar náðar.
Jónas dó 1845, árið eftir að hann bað að heilsa.
Morgunblaðið/Eggert
1.11. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17