Morgunblaðið - 12.11.2020, Side 62
62 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. NÓVEMBER 2020
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Stafræna tónlistarhátíðin Live from
Reykjavík fer fram á morgun og
hinn, 13. og 14. nóvember, á vegum
tónlistarhátíðarinnar Iceland Air-
waves í samstarfi við Íslandsstofu,
RÚV, Reykjavíkurborg, Icelandair,
Einstaka ölgerð og Landsbankann.
Tónleikar hátíðarinnar verða sýndir á
miðlum RÚV og verður einnig seldur
aðgangur að streymi frá hátíðinni um
allan heim í gegnum vefinn Dice.fm.
Fjöldi íslenskra tónlistarmanna og
hljómsveita kemur fram: Ásgeir,
Auður, Bríet, Cell7, Daði Freyr,
Emilíana Torrini og vinir, GDRN,
Hatari, Hjaltalín, Júníus Meyvant,
Kælan mikla, Mammút, Mugison,
Ólafur Arnalds, Of Monsters and
Men og Vök. Samhliða hátíðinni mun
ÚTÓN, Útflutningsmiðstöð íslenskr-
ar tónlistar, standa fyrir stafrænni
ráðstefnu fyrir áhrifafólk úr tónlistar-
geiranum til að kynna íslenska tónlist
og listamenn. Eins og fram kom í til-
kynningu á dögunum er tilgangurinn
að styðja við sköpun og starf ís-
lenskra tónlistarmanna, búa til
reynslu og þekkingu í streymi sem
nýtast mun íslenska tónlistargeir-
anum til framtíðar og efla markaðs-
og kynningarstarf íslenskrar tón-
listar á erlendum vettvangi.
Lagar sig að aðstæðum
Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð
Jóhannesdóttir, betur þekkt undir
listamannsnafni sínu GDRN, er ein
þeirra sem koma fram sem fyrr segir
og er fyrirkomulagið þannig að upp-
tökum af tónleikum verður streymt á
netinu. Tónleikar Guðrúnar og hljóm-
sveitar hafa því þegar verið teknir
upp og bíða útsendingar.
„Það er allt öðruvísi að spila á fullu
blasti fyrir framan fjölda fólks en fyr-
ir framan myndavél þannig að við
ákváðum að það væri skemmtilegra
að hafa meiri „live“ fíling þannig að
við slepptum öllu „playback“-i, þetta
er bara bandið mitt og ég að syngja
og ekkert annað. Þannig að þetta
mun skila sér heim í stofu til fólks,
þetta er stuð en maður verður að laga
sig að aðstæðum,“ segir Guðrún.
Í hljómsveitinni sem hún nefnir
leikur Bergur Einar Dagbjartsson á
trommur, Arnar Ingi Ingason á
bassa, Rögnvaldur Borgþórsson á
gítar og Magnús Jóhann Ragnarsson
á píanó. Guðrún segist á tónleikunum
flytja lög af nýjustu plötu sinni,
GDRN, sem kom út 21. febrúar, rétt
áður en kófið skall á. Hún náði því
ekki að fylgja þeirri útgáfu eftir og
þurfti að aflýsa útgáfutónleikum.
Erfitt og leiðinlegt
– Hvernig er hljóðið í tónlistar-
mönnum sem þú hefur verið í sam-
skiptum við að undanförnu?
„Það er nú bara mismunandi,
margir eru neikvæðir, skiljanlega,
finnst þetta erfitt og aðrir sem henda
sér í aðra vinnu eða einbeita sér að
verkefnum meðan á þessu stendur.
Það er erfitt að tala fyrir heilan hóp af
fólki sem er svo mismunandi og hóp-
urinn stór en ég held að allir séu sam-
mála um að þetta er svolítið erfitt og
leiðinlegt, eins og að vera alltaf að
skrifa greinar fyrir blöð sem eru svo
aldrei gefnar út og þá er enginn að
fara að lesa þær. Það er erfitt að vera
alltaf að vinna að einhverju og vita
svo ekki hvað koma skal,“ svarar
Guðrún. Tónlistarfólk gefist ekki upp
þótt móti blási en nú sé að vísu ansi
hvasst.
Guðrún er spurð að því hvaða áhrif
hún haldi að kófið muni hafa á tón-
listarbransann í framtíðinni, að far-
sótt lokinni, og segir hún erfitt að spá
fyrir um það. „Ég held að margir fari
kannski að hugsa meira um réttindi
sín sem tónlistarmenn og þann hluta
að eiga tónlistina sína. Þú ert kannski
búinn að selja plötufyrirtæki öll rétt-
indi hvað varðar streymi og þú ert
bara að fá tekjur af því að túra um all-
an heim og svo er það tekið frá þér og
þá siturðu eftir með ekkert í hönd-
unum,“ segir hún.
– Tónlistarútgáfa virðist ekkert
minni núna en í venjulegu ári …
„Nei og örugglega margir að semja
meira en gengur og gerist því nú hef-
ur fólk tíma til að einbeita sér að því.
Ég held að núna og á næsta ári verði
mikið af nýju efni.“
Á eintali við sjálfa sig
Guðrún segist mjög ánægð með að
fá að taka þátt í Live from Reykjavík
en um leið þyki henni erfitt að geta
ekki farið á Iceland Airwaves og horft
á vini sína spila. Að geta ekki tekið
þátt í þeirri uppskeruhátíð sem
Airwaves sé. Hún segir tónleika í
raun vera samtal flytjenda og gesta
og skrítið að eiga slíkt samtal við
myndavélar. „Það er mjög fyndið að
vera á einverju eintali við sjálfan sig
fyrir framan myndavélar, það er
ákveðinn hæfileiki að geta komið því
á framfæri sem maður vill þegar
maður fær ekkert feedback, þegar
enginn tekur á móti eða gefur eitt-
hvað til baka,“ segir hún um tónleika-
formið sem er nú orðið hvað algeng-
ast, þ.e. án gesta.
Guðrún er að lokum spurð að því
hvort hún sé byrjuð að vinna að
næstu plötu. „Ég er alla vega farin að
vinna að einhverju nýju og það kemur
í ljós hvað það er. Þetta er á byrj-
unarstigi, komið eitthvað áleiðis,“
svarar hún. Frekari upplýsingar um
Live from Reykjavík má finna á ice-
landairwaves.is/live/.
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Vinsæl Tónleikar GDRN og hljómsveitar verða sýndir á Live from Reykjavík á laugardag, 14. nóvember.
Gefast ekki upp þótt á móti blási
GDRN flytur lög af nýjustu plötunni sinni á tónlistarhátíðinni Live from Reykjavík sem fram fer
13. og 14. nóvember Erfitt að vita ekki hvað koma skal, segir hún um stöðu tónlistarmanna í kófinu
Morgunblaðið/Eggert
OMAM Hljómsveitin Of Monsters and Men á Iceland Airwaves í fyrra.
Tilnefningar til EFA, Evrópsku
kvikmyndaverðlaunanna, hafa nú
allar verið kunngjörðar. Kvikmynd-
irnar sem tilnefndar eru sem besta
evrópska kvikmyndin eru Druk eftir
leikstjórann Thomas Vinterberg,
Berlin Alexanderplatz eftir Burhan
Qurbani, Corpus Christi eftir Jan
Komasa, Martin Eden eftir Pietro
Marcello, The Painted Bird eftir
Václav Marhoul og Undine eftir
Christian Petzold. Tilnefnd sem
besti leikstjóri eru Agniezka Holl-
and fyrir Charlatan, Jan Komasa
fyrir Corpus Christi, Pietro Mar-
cello fyrir Martin Eden, Francois
Ozon fyrir Summer of 85, Maria Sö-
dal fyrir Hope og Thomas Vinter-
berg fyrir Druk.
Viggo tilnefndur
Í flokki leikkvenna eru tilnefndar
Paula Beer fyrir Undine, Natasha
Berezhnaya fyrir Dau, Natasha,
Andrea Bræin Hovig fyrir Hope,
Ane Dahl Torp fyrir Charter, Nina
Hoss fyrir Schwesterlein og Marta
Nieto fyrir Madre. Í flokki karla eru
tilnefndir Bartosz Bielenia fyrir
Corpus Christi, Goran Bogdan fyrir
Otac, Elio Germano fyrir Volevo
nascondermi, Luca Marinelli fyrir
Martin Eden, Mads Mikkelsen fyrir
Druk og Viggo Mortensen fyrir Fall-
ing. Tilnefndir handritshöfundar eru
Martin Behnke og Burhan Qurbani
fyrir Berlin Alexanderplatz, Costa-
Gavras fyrir Adults in the room, Da-
miano og Fabio D’Innocenzo fyrir
Favolacce, Pietro Marcello og
Maurizio Braucci fyrir Martin Eden,
Mateusz Pacewicz fyrir Corpus
Christi og Thomas Vinterberg og
Tobias Lindholm fyrir Druk.
Tilnefndar í flokki gamanmynda
eru Ventajas de viajar en tren eftir
Aritz Moreno, Teräsleidit eftir Pam-
elu Tola og Un triomphe eftir Emm-
anuel Courcol. Tilnefndar í flokki
bestu heimildarmyndar eru Acasã
eftir Radu Ciorniciuc, Colectiv eftir
Alexander Nanau, Gunda eftir Vict-
or Kossakovsky, Petite fille eftir
Sébastien Lifshitz, Saudi runaway
eftir Susanne Regina Meures og The
Cave eftir Feras Fayyad.
Ónefndar eru stuttmyndir og má
finna lista yfir þær tilnefndu á
europeanfilmawards.eu.
Tilnefningar til EFA
2020 liggja nú fyrir
Drykkja Mads Mikkelsen í Druk.