Morgunblaðið - 17.12.2020, Side 74
74 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. DESEMBER 2020
Ljósaskiptin eru töfrandistund sem kemur tvisvará sólarhring. Þá tekurmyrkur við af ljósi eða
ljós við af myrkri og litur himins-
ins er gjarnan blár og bleikur. Ég
gekk um iðnaðarsvæði á mörkum
borgar og út-
hverfis einn dag
í desember. Þar
voru fáir á ferli
nema vinnuvélar
og stórir flutn-
ingabílar, enda
klukkan orðin
fjögur eftir hádegi. Þetta var
fjórða hlustun mín á plötu sem ég
hafði haft í jafnmarga daga til
hlustunar. Fyrri hlustanir höfðu
átt sér stað í löngu baði, við tiltekt
og árla dags með kertaljós og
morgunmat. En í þetta sinn kallaði
tónlistin á gönguferð og ég hlýddi
henni. Það var logn og kalt, pollar
frosnir en snjóa hafði leyst. Ég
ákvað að stilla gönguferðinni í hóf
og ganga nákvæmlega jafnlengi og
platan myndi endast í heyrnartól-
unum. Ég hafði reyndar ekki hug-
mynd um hvort það var hálftími
eða tæpir tveir tímar, því fyrri
hlustanir höfðu allar haft sömu
undarlegu áhrifin á mig. Mér
fannst eins og tíminn bæði hægði
og hraðaði á sér og áður en ég
vissi voru lögin upp urin og þögnin
ein eftir.
Það eru andstæður sem ríkja og
takast á á þessari göróttu plötu,
sem er samvinnuverkefni nokkurra
töfra- og galdramanna. Hilmar
Örn hefur galdrað fram tónseið á
fjölda útgefinna platna, fyrir kvik-
myndir og fyrir heiðinn sið hjá
Ásatrúarfélaginu í gegn um tíðina,
og ég vissi fyrir víst að hann
myndi setja mark sitt á þessa
plötu. Steindór Andersen kvæða-
maður er í sínum heimi þarna;
heimi hins óræða og ósnertanlega
og það er rödd hans og túlkun sem
gefur hinn rammíslenska tón.
María Huld Markan Sigfúsdóttir
er ein af liðsmönnum Amiinu og
hefur svo sannarlega galdrað þar,
ásamt því að hafa sent frá sér dul-
arfulla tónlist um árabil. Það eru
svo meðlimir Sigur Rósar sem eru
líklega þekktustu seiðmenn Ís-
lands á síðari árum, þótt hér stígi
þeir stórt skref inn í veröld þess
sem er hulið og birtist, eða er til
staðar og hverfur.
Það eru mótsagnir og átök í öll-
um lögunum átta sem finna má á
Hrafnagaldri Óðins. Í inngangslag-
inu „Prologus“ er enginn söngur
og þar er verið að laða hlustendur
og lokka inn í heim sem verður til
á milli tóna og skynfæra. Í „Alföð-
ur orkar“ byrjar Steindór að kveða
og tónn hans er dulur og kynngi-
magnaður. Þá birtist Jón Þór
Birgisson söngvari Sigur Rósar í
„Stendur æva“ með sína háu, tæru
og björtu röddu sem er full af von,
og enn er stillt upp andstæðum.
Nær öll lögin notast við stein-
hörpu Páls Guðmundssonar með
sínum hola en bjarta tóni. Tromm-
ur gefa rytma sem hjálpa til við að
koma hlustendum í transkennt
ástand þegar á það kallar.
Strengjasveit, lúðrar, kór, allt er
hárnákvæmt og vel valið, og þegar
það dugar ekki er seiðurinn færð-
ur í tilraunakennda tölvutakta sem
einmitt er hin mesta andstæða sem
hægt væri að velja mót lífrænum
röddum, blæstri, strokum og högg-
um. Andstæðukenndar mótsagnir,
og mótsagnakenndar andstæður.
Ljós sem vinnur myrkur og myrk-
ur sem vinnur ljós. Pollar sem
frjósa og þiðna. Stúlka sem grætur
og hlær.
Þegar öllu er lokið, á eftir hinum
tæplega 12 mínútna lágstemmda
hápunkti „Dagrenningu“, heyrist
dynjandi lófaklapp og hlustandinn
áttar sig á því að öll platan var
tekin upp á tónleikum fyrir fullum
sal af áhorfendum. Það virðist
næstum óhugsandi að slíkan seið
sé hægt að spila bara sísvona og
útkoman sé svo hrein og tær, svo
drungaleg og dularfull. Þetta eru
galdrar, eins og galdrar eiga að
vera. Þeir skilja mann eftir með
vissu um að maður viti ekki neitt.
Sextán árum eftir að þessi galdur
var fluttur á sviði er hann svo
þrykktur á vínilplötur og hann er
hægt að leika í sinni eigin stofu.
Svona plötur koma sjaldan út.
Galdraseiður ljósaskiptanna
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Seiður Á plötunni sem hér er fjallað um eru upptökur frá flutningi Hrafna-
galdurs í París haustið 2004. Flytjendum var vel fagnað í lok tónleikanna.
Tilraunakennd klassísk
þjóðlagatónlist
Sigur Rós/Hilmar Örn Hilmarsson/
María Huld Markan Sigfúsdóttir/
Steindór Andersen – Hrafnagaldur
Óðins bbbbb
Upptaka af tónleikum sem haldnir voru
árið 2004 í París. Aðrir flytjendur eru
Páll Guðmundsson, Conservatoire de
Paris Orchestra og Schola Cantorum-
kórinn. Tónlist eftir Jónsa, Kjartan
Sveinsson, Orra Dýrason, Georg Holm,
Steindór Andersen, Maríu Huld Markan
Sigfúsdóttur og Hilmar Örn Hilmarsson.
Hljómsveitarstjórn í höndum Árna
Harðarsonar. Upptöku stjórnaði Kjartan
Sveinsson.
Útgáfudagur 4. desember 2020.
RAGNHEIÐUR
EIRÍKSDÓTTIR
TÓNLIST
Jarðskjálftar skekja Reykja-nesskaga og eldfjallafræð-ingurinn Anna Arnarsdóttirstendur í stórræðum við
stjórn almannavarna þegar hætta á
náttúruhamförum vofir yfir. Auk
ólgu í iðrum jarð-
ar er einhver
innri ólga hjá
Önnu og full-
komið fjöl-
skyldulíf hennar
virðist á svipaðri
leið og Reykja-
nesskaginn; það
stefnir í hamfarir.
Þannig mætti á
afar einfaldan hátt lýsa bókinni Eld-
arnir – ástin og aðrar hamfarir eftir
Sigríði Hagalín. Sigríður, sem er
landsmönnum líklega kunnust fyrir
fréttir og fréttalestur, er að gefa út
þriðju bók sína og ef fram heldur
sem horfir hlýtur hún að hverfa af
skjám landsmanna. Ekki það að hún
sé slæm í starfi þar, heldur er þessi
bók í það minnsta það góð, jafnvel
frábær, að meira hlýtur að sjást frá
henni á ritvellinum og þar af leiðandi
minna á skjánum.
Sigríði tekst einstaklega vel að
tvinna saman æsispennandi jarðvís-
indasöguna og ástarsögu Önnu sem
virðist, eftir rúmlega 20 ára samband
með sama manninum, loks ástfangin
og það af öðrum manni. Á sama tíma
og Anna situr fundi almannavarna
um jarðskjálfta og eldgos á Reykja-
nesi leikur hún tveimur skjöldum í
einkalífinu. Annars vegar er það hús-
móðirin sem sinnir börnum og manni
og hins vegar konan sem upplifir eld-
heita ást í fyrsta skipti.
Hamfarirnar í vinnunni og einka-
lífinu tvinnast saman á einkar áhuga-
verðan hátt svo úr verður sprenging
á báðum stöðum. Anna reynir sitt
besta til að berjast gegn ástinni en
rökfesta hennar virðist mega sín lít-
ils gegn bálinu sem kviknað hefur.
Fróðlegt er að fylgjast með starfi
almannavarna í bókinni en oft þurfa
vísindamennirnir, Anna þeirra á
meðal, að standa í stappi við hags-
munaaðila sem hafa annað sjónar-
horn á það sem rætt er.
Persónusköpun og heimspekilegar
pælingar höfundar eru gríðarlega
sterkar. Öll púslin virðast falla á
rétta staði í skrifum Sigríðar en sag-
an sjálf er þannig að ekki er hægt að
leggja bókina frá sér en samt vill
maður á sama tíma stundum ekki
lesa lengra því ljóst er að ekki mun
allt enda vel.
Eldarnir er spennusaga, ástarsaga
og harmsaga. Hún er algjörlega frá-
bær þótt óskandi sé að Reykjanesið
fari ekki að hristast og skjálfa af jafn
miklum krafti og í bókinni. Oft er
sagt „þessa bók ættirðu ekki að láta
framhjá þér fara“ og þá fussar und-
irritaður en þarf nú að éta ofan í sig
allt fuss því það má nánast segja að
Eldarnir séu skyldulesning. Nema
kannski fyrir þá sem eru mjög jarð-
hræringahræddir.
Ólga í einkalífi
og iðrum jarðar
Skáldsaga
Eldarnir bbbbb
Eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur.
Benedikt 2020. Innb., 288 bls.
JÓHANN
ÓLAFSSON
BÆKUR
Höfundurinn „Eldarnir er spennusaga,
ástarsaga og harmsaga. Hún er algjörlega
frábær,“ skrifar gagnrýnandi um skáld-
sögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur.
Engin jogging jól í ár
STOFNAÐ 1953
Við hreinsum sparifötin
Háaleitisbraut 58–60 • 108 Reykjavík • Sími: 553 1380
Hin árlegu bókmenntaverðlaun
starfsfólks bókaverslana voru af-
hent í Kiljunni á RÚV í gærkvöldi.
Íslensk skáldverk
1. Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafss.
2. Herbergi í öðrum heimi eftir
Maríu Elísabetu Bragadóttur
3. Dauði skógar eftir Jónas Reyni
Gunnarsson
Ljóðabækur
1. Sonur grafarans eftir Brynjólf
Þorsteinsson
2. Taugaboð á háspennulínu eftir
Arndísi Lóu Magnúsdóttur
3. Við skjótum títuprjónum eftir
Hallgrím Helgason
Ævisögur
1. Berskjaldaður eftir Gunnhildi
Örnu Gunnarsdóttur
2. Herra Hnetusmjör eftir Sóla Hólm
3. Káinn eftir Jón Hjaltason
Íslenskar ungmennabækur
1. Skógurinn eftir Hildi Knútsdóttur
2. Vampírur, vesen og annað tilfall-
andi eftir Rut Guðnadóttur
3. Dóttir hafsins eftir Kristínu
Björgu Sigurvinsdóttur
Íslenskar barnabækur
1. Grísafjörður eftir Lóu Hlín Hjálm-
týsdóttur
2. Íslandsdætur eftir Nínu Björk
Jónsdóttur
3. Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin
eftir Yrsu Sigurðardóttur
Fræðibækur/Handbækur
1. Konur sem kjósa eftir Erlu Huldu
Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tóm-
asdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur
og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur
2. Spænska veikin eftir Gunnar Þór
Bjarnason
3. Fuglinn sem gat ekki flogið eftir
Gísla Pálsson
Þýdd skáldverk
1. Beðið eftir barbörum eftir J.M.
Coetzee
2. Litla land eftir Gäel Faye
3. Sumarbókin eftir Tove Jansson
Þýddar barnabækur
1. Múmínálfarnir stórbók 3 eftir
Tove Jansson
2. Ísskrímslið eftir David Walliams
3. Þar sem óhemjurnar eru eftir
Maurice Sendak
Besta bókarkápan
1. Blóðberg eftir Alexöndru Buhl
2. Konur sem kjósa eftir Snæfríði
Þorsteins
3. Herbergi í öðrum heimi eftir Halla
Civelek
Snerting besta íslenska skáldverkið