Morgunblaðið - Sunnudagur - 20.12.2020, Blaðsíða 8
VIÐAL
8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20.12. 2020
É
g er á Hringbrautinni á
leið vestur á Bræðra-
borgarstíg til fundar við
Einar Þór Jónsson.
Kveikt er á útvarpinu í
bílnum og gömlu eitís-tröllin í
Frankie Goes to Hollywood eru næst
á mælendaskrá, The Power of Love
eða Máttur ástarinnar. „Love is the
light, scaring darkness away,“ syng-
ur hinn samkynhneigði og HIV-
jákvæði Holly Johnson fullum hálsi
árið 1984. Og enn fremur: „Purge the
soul, make love your goal.“ Gerðu
ástina að þínu leiðarljósi. Eru þær
ekki alveg makalausar tilviljanirnar í
þessu lífi? Alltént verður mér strax
hugsað til væntanlegs viðmælanda
míns og endurminninga hans, Ber-
skjaldaður. Saga Einars Þórs er öðru
fremur barátta fyrir ást; hann þráði
ekkert heitar en að elska og verða
elskaður. Og varð að ósk sinni.
Einar Þór rekur upp stór augu
þegar ég hef orð á þessu við komuna
til hans. „Tengi ég við þetta lag?
Hvort ég geri. Þessi bók er öll um
ást. Allt sem við erum að brasa í
þessu lífi helgast af ástarþrá. Við eig-
um að lifa og tala þannig. Í því er
seiglan fólgin.“
Hann hefur lagað kaffi og tekið til
brakandi nýtt bakkelsi. „Þú skalt
drekka úr þessum,“ segir hann og
réttir mér bolla sem merktur er Jóni
Friðgeiri Einarssyni. „Þetta er boll-
inn hans pabba. Kannski verður hann
þá með okkur í anda meðan við spjöll-
um saman?“ segir Einar Þór en faðir
hans lést fyrir réttum fimm árum.
Átta Einarar grípa kistuna
Í bókinni dregur höfundurinn, Gunn-
hildur Arna Gunnarsdóttir, upp
sterka mynd af því þegar Einar, ný-
kominn út úr skápnum, kom aftur
heim til Bolungarvíkur til að vera við-
staddur útför afa síns, Einars Krist-
ins Guðfinnssonar útgerðarmanns,
veturinn 1985.
„Átta Einarar grípa í kistuna og
lyfta henni upp. Hann lítur yfir hóp-
inn. Burðarmennirnir, systkinasyn-
irnir, eru ekki endilega líkir þótt allir
beri þeir sama nafnið. Hann horfir á
Einar Benediktsson, sem verður for-
stjóri Olís. Lítur yfir til Einars Krist-
ins Guðfinnssonar, sem á eftir að
verða bæði ráðherra og forseti Al-
þingis og um langt skeið þingmaður
Sjálfstæðisflokksins.
Í kistuna heldur einnig Einar
Garðar Hjaltason sem lengst af er
viðloðandi útgerð og býr á Ísafirði.
Einar Jónatansson fær einnig sinn
sess með frændum sínum. Hann kýs
að búa í Bolungarvík. Þarna eru líka
Einar Guðmundsson, verkstjóri í
frystihúsinu og sonur Guðmundar
Páls Einarssonar, sem býr í næsta
húsi við bróður sinn Jón Friðgeir.
Átta Einarar. Einar K. Haraldsson
byggingartæknifræðingur stendur
meðal nafnanna. Hann hefur haft
umsjón með ríkiseignum og er
dóttursonur afa síns. Þeir standa allir
í kringum kistuna. Með þeim er Ein-
ar Pétursson, sem var um tíma
bæjarstjóri í Bolungarvík og hefur
verið framkvæmdastjóri Samskipa á
Ísafirði. Einar Þór heldur föstum
tökum í höldur kistunnar. Hommi.“
Við erum að tala um sjávarpláss
vestur á fjörðum, íhaldssamt og á
margan hátt gamaldags samfélag, á
allt öðrum tímum en við lifum nú
enda þótt aðeins 35 ár séu liðin.
„Mér leið ekki eins og ég væri að
brotna eða að ég væri undirlagður af
kvíða en þetta var vissulega erfitt.
Það er ekki hægt að segja annað.
Augu margra hvíldu á mér. Fátt var
sagt en karlar og konur gáfu í skyn
að eitthvað amaði að mér – ég hlyti að
hafa klikkast,“ segir Einar Þór.
Þetta gengur yfir, drengur!
Móðir hans, Ásgerður Hauksdóttir,
var látin á þessum tíma en samkyn-
hneigð sonarins lagðist illa í föður
hans enda slíkar kenndir almennt
ekki vel séðar á þeim tíma. „Þetta
gengur yfir, drengur. Þú hefur átt
svo sætar kærustur,“ fullyrti hann
við son sinn.
– Var það stærsti þröskuldurinn?
„Já, pabbi og nánasta fjölskyldan.
Bolungarvík var mjög karllægt og
íhaldssamt samfélag á þessum tíma.
Fjölskyldan stóð með mér þegar á
reyndi en pabbi hafði aðrar vænt-
ingar til mín og skildi þetta hreinlega
ekki. Ég fór heldur ekkert fínt í
þetta, henti bara sprengju og ögraði.
Mætti til dæmis í leðurbuxum og með
eyrnarlokk í útförina hans afa. Sveifl-
aði mér öllum.“
Hann hlær.
Þá dirfsku kveðst hann hafa frá
móður sinni sem var af Miðdalsætt-
inni. „Hún var úr Reykjavík, list-
hneigð og frjálslynd að upplagi. Ég
er ekki bara af árabátaættinni.“
Viðhorf Jóns Friðgeirs átti eftir að
breytast. „Hann þurfti bara tíma.
Pabbi fylltist engu ógeði, heldur
snerist afstaða hans meira um það að
hann óttaðist að líf mitt yrði erfitt.“
Fleiri hváðu við tíðindin. „Við
Gunnhildur heimsóttum æskuvin
minn á Bolungarvík meðan við unn-
um að bókinni og hann viðurkenndi
að hann hefði fengið áfall þegar hann
frétti að ég væri öfugur. Það var orð-
ið sem notað var á þeim tíma eða
hreinlega kynvillingur,“ segir Einar
Þór.
– Hvernig varð þér við?
„Auðvitað fór ég í vörn. En ég gaf
ekki eftir. Það er einhver eðlislæg
seigla í mér. Maður var mjög ber-
skjaldaður eftir að hafa komið út úr
skápnum og það þurfti sterk bein til
að standa með sjálfum sér. Þetta var
heilmikið álag og útilokað fyrir mig
að vera í Bolungarvík. Það var varla
hægt að vera hommi í Reykjavík
heldur. Ekkert mátti og allir voru í
felum, bæði hommar og lesbíur. Sam-
tökin ’78 reyndu af veikum mætti að
búa til einhvern vettvang en lítið
gekk. Sýnilegir hommar voru eins-
leitur hópur; kynlegir kvistir eins og
Gulli rakari sem sagðir voru mein-
lausir. Stereótýpur.“
Barinn fyrir að vera hommi
Á ýmsu gekk og í bókinni lýsir Einar
Þór grófu ofbeldi frá hendi bláókunn-
ugra manna sem fannst ekkert að því
að vinda sér upp að honum á götu og
berja hann til óbóta vegna þess að
hann væri hommi. „Mín kynslóð hef-
ur öll þá sögu að segja.“
Allt svona áreiti, eins erfitt og það
var, gerði Einar Þór bara ákveðnari
og sannfærðari um að hann hefði gert
rétt. Það var heldur enginn val-
kostur. „Ég efast um að ég hefði lifað
hitt af,“ segir hann og á þar við líf í
skápnum. „Ég kom til þess að gera
ungur út úr skápnum, alla vega með
hliðsjón af minni kynslóð, en menn
eru að koma út á öllum aldri. Það er
aldrei of seint að fara að lifa og
blómstra sem samkynhneigður mað-
ur. Því miður eru samt enn þá karlar
inni í skápnum sem sumir hverjir
munu aldrei koma út og öðlast frelsi.
Það er sorglegt.“
Sjálfur hafði Einar Þór verið með
konum áður en hann kom út úr
skápnum og meira að segja eignast
dóttur, Kolbrúnu Ýr, árið 1984 með
Kristjönu Hreinsdóttur. Sá það fjöl-
skyldumynstur þó aldrei fyrir sér.
„Ég man ekki nákvæmlega hvenær
þessar tilfinningar og hugsanir byrj-
uðu að læðast að mér – að ég hneigð-
ist til karlmanna. Meðan ég var að
vaxa úr grasi þekkti ég enga homma
„Maður var mjög berskjald-
aður eftir að hafa komið út úr
skápnum og það þurfti sterk
bein til að standa með sjálfum
sér,“ segir Einar Þór Jónsson.
Morgunblaðið/Eggert
Auðvitað var litla hjartað mitt kvíðið
Einar Þór Jónsson fetaði ekki þá braut sem ætlast var til af honum vestur í Bolungarvík á níunda áratugnum. Hann sleit sig frá rót-
grónu útgerðarsamfélaginu og sigldi út í heim. Samkynhneigður. Kom aftur og gerðist andlit hins hræðilega sjúkdóms alnæmis og
barðist af alefli gegn skilningsleysi og fordómum. Fann líka ástina og gleðina þrátt fyrir þung áföll. Nú er saga hans komin út á bók.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
’Mér leið ekki eins og égværi að brotna eða aðég væri undirlagður afkvíða en þetta var vissu-
lega erfitt. Það er ekki hægt
að segja annað. Augu
margra hvíldu á mér.