Lögmannablaðið - 2020, Síða 12
12 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
viti byggist fyrst og fremst bara á slöku taumhaldi. Svo ættu
þeir nú að reyna að læra eitthvað á þessu og gæta kannski
örlítið hófs núna. Ég vona það að niðurstaðan af þessu
geti verið lærdómur. Ég held að fyrir Lögmannafélagið sé
heilmikill lærdómur í þessu máli.“
Hressilegar umræður
Jón Steinar Gunnlaugsson tók aftur til máls og sagði
að það væri verið að gefa það í skyn að hann hefði átt
upptökin í málinu. Upphafið hafi verið kæra stjórnar til
úrskurðarnefndar og þegar hann hafi verið áminntur hefðu
málaferlin verið liður í því að ómerkja ólögmæta gjörð:
„Svo er það nú frekar þungbært að hlusta hér á fyrrverandi
formanninn, kannski aðalþrjótinn í málinu, flytja málið
aftur sem að var flutt í Hæstarétti,“ sagði hann og fór yfir
upphaf samskipta sinna við dómstjórann í Reykjavík.
Jón Magnússon tók því næst aftur til máls og benti á að verið
væri að leggja til að hækka félagsgjöld vegna tapreksturs
síðustu fjögurra ára, en það væri um það bil sama upphæð
og herkostnaðurinn af þessu dómsmáli.
Hjörtur Torfason sagðist hafa komið á fundinn til að
fræðast um það hvort einhverjar hressilegar umræður
væru í gangi og var alsæll með að vera kominn á þennan
vettvang. Hann bað fundarmenn um að tala sem lengst.
Hjörtur benti síðan á að Hæstiréttur hefði klofnað í málinu:
„Ég fór nú og las þennan dóm og niðurstaða mín um
hæstaréttardóminn er það sem minnihlutinn sagði, að
það ætti að staðfesta héraðsdóm að öllu leyti,“ sagði hann.
Hjörtur vitnaði að því búnu í fyrrverandi utanríkisráðherra
sem sagði eitt sinn um dóm að minnihlutinn hefði oft rétt
fyrir sér þótt að meirihlutinn fengi að ráða.
Sævar Þór Jónsson var síðastur á mælendaskrá og sagði
Lögmanna félagið hafa gert það sem þurfti til að eyða
ákveðinni réttaróvissu í mikilvægu máli. „Ég tel það ekki
heldur sæmandi að stilla þessu þannig upp að þetta sé
einhver persónuleg óvild gagnvart mönnum. Það er nú svo
hjá okkur í Lögmannafélaginu og þeir sem eru félagsmenn
Lögmannafélagsins, við þurfum að hlíta eftirliti og sitja
undir því að fylgst sé með okkar störfum. Það hefur ekkert
með okkar persónulegu skoðanir að gera,“ sagði hann.
Lauk þar með fjörugum umræðum um þetta mál á aðalfundi
Lögmannafélagsins árið 2020.
EI
Hjörtur Torfason
Sævar Þór Jónsson