Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 31
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20 31
We understand that the parties to the transaction will realize
a tax benefit in Denmark which probably consists in a double
refund of dividend witholding tax (but we have not seen a
structure papaer). Maybe you are aware of these structures?
Brot BechBruun á siðareglum lögmanna í tengslum
við stóra skattsvikamálið
Í lok ársins 2015 fengu dönsk skattayfirvöld vitneskju um
stóra skattsvikamálið og í kjölfar útboðs skattayfirvalda
í ársbyrjun 2017 var Bech-Bruun falið að rannsaka
skattsvikin. Rúmu ári síðar kærðu skattayfirvöld
Bech-Bruun til úrskurðarnefndar lögmanna fyrir
að hafa brotið siðareglur lögmanna með rannsókn
skattsvikanna þar sem Bech-Bruun hafi gefið North
Channel Bank ráð áður og á meðan rannsókn
málsins stóð yfir. Úrskurðarnefnd lögmanna ákvað
sumarið 2018 að Bech-Bruun þyrfti að endurgreiða
þá þóknun sem lögmannsstofan hefði fengið greidda
frá skattayfirvöldum að upphæð 3,5 milljónir danskra
króna eða u.þ.b. 71 milljónir íslenskra króna. Þar að
auki var fjórum lögmönnum Bech-Bruun, sem unnu
við rannsóknina, gert að greiða fjársekt. Var það mat
úrskurðarnefndarinnar að augljós hagmunaárekstur
hafi verið til staðar enda geti aðilarnir ekki rannsakað
meint skattabrot og á sama tíma veitt öðrum ráðgjöf
varðandi sömu viðskipti. Bech-Bruun hefur kært báðar
ákvarðanir úrskurðarnefndar til Austur Landsréttar
(d. Østre Landsret), en það er ekki búið að dæma í
málunum.
Þá hefur málið fengið gagnrýni út frá samkeppnisréttarlegum
sjónarmiðum og vegna mögulegra hagsmunaárekstra.
Lögmannsstofan Kammeradvokaten, sem er og hefur
verið lögmaður ríkisins til margra ára, hefur ráðlagt
skattayfirvöldum að stefna Bech-Bruun vitandi að Kammer-
advokaten muni flytja málið fyrir hönd ríkisins. Með
málsókninni hafi því Kammeradvokaten möguleika á að
fjarlægja einn helsta keppinaut sinn af markaði en miðað
við hagnað síðasta árs myndi það taka Bech-Bruun heil 60 ár
að safna nógu miklu fjármagni til að greiða skaðabæturnar.
Gagnrýni lögmanna hefur verið sú að sami aðili og flytur
mál fyrir hönd ríkisins í þessu sérstaka tilviki eigi ekki einnig
að ákveða hvort mál verði höfðað, sem og að verkefnið eigi
að fara í útboð. Samkeppniseftirlitið hefur sett á fót nefnd
sem á að rannsaka lögmannsstéttina í heild sinni, þar á
meðal hvort það sé í samræmi við lög að Kammeradvokaten
flytji fyrir dómi að meginstefnu öll mál ríkisins.