Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2007, Page 36

Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2007, Page 36
Þ o r v A l d u r K r i S T i N S S o N Sjaldan á ævinni hef ég orðið eins undrandi og laugardaginn 12. ágúst árið 2000. Við Rauðarárstíg í Reykjavík vorum við, rúmlega 150 manns, að stilla upp göngu. Gleðiganga Hinsegin daga var í startholunum og brátt skyldi haldið af stað fyrir hornið á Hlemmi, niður Laugaveg. Hvergi sást kvíði á nokkrum manni, samt var þetta uppátæki litað slíkum kvíða vikurnar og dagana á undan að mér þótti stundum nóg um. En nú skyldi bitið á jaxl- inn. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hópur lesbía og homma hafði lagt upp í göngu um miðborgina. Árið 1993 höfðum við farið um Laugaveginn 70 saman, og það gerði okkur gott. Árið eftir tókst að telja 74 í hópnum. Þá gáfumst við upp og spurðum hvert annað: Erum við ekki bara að afhjúpa smæð okkar og umkomuleysi? Mikið hafði verið deilt um réttmæti göngunnar sumarið 2000 og úrtöluraddirnar háværar. Hvernig færi þetta allt saman? Samt þóttumst við viss um að tíminn hefði unnið með okkur frá því um árið, að við gætum treyst á að 200–300 manns úr hópi vina og stuðningsfólks myndu mæta og fagna. En var það nóg? Yrðum við ekki enn sem fyrr að athlægi þeirra sem töldu okkur smánarblett á fríðu samfélagi? Yrði þessi dagur ekki enn einu sinni til að sanna það sem við áttum að vita, að okkur væri ætlað að lifa öllu okkar lífi á jaðrinum? Að það væru nú einu sinni aðrir sem ættu Laugaveginn og eins gott að horfast í augu við það? Hvaðan kom þetta fólk? Ég var staðsettur með þrjátíu metra langan blöðrusnák í miðri fylkingu og þegar ég náði loks fyrir hornið á Hlemmi sá ég það sem haft hefur meiri áhrif á mig en nokkuð annað þau tuttugu ár sem ég hafði lagt hreyfingu homma og lesbía lið. Þúsundir stóðu á gangstéttunum til að fagna, vera með, bíða eftir að komast í gönguna og mynda halann. Og það sem meira var, ég þekkti varla eitt einasta andlit. Hvaðan kom þetta fólk? Ég þekkti ekki þjóð mína, en þarna var hún komin og hafði ákveðið að upplifa það að vera hinsegin í einn dag og mæta okkar reynslu á jafnréttisgrundvelli. Svo sannarlega munar um hvern þann dag sem heimurinn gengur inn í heim okkar, gengur í okkar spor, fylgir okkar nótum. Með árunum vandist maður þessari sýn, fór að líta á hana sem sjálfsagða. En þá birtist gestur síðasta sumar. Séra Pat Bumgardner, prestur úr söfnuði hinsegin fólks í New York, Metropolitan Community Church, kom til landsins í boði Hinsegin daga í Reykjavík og predikaði yfir þéttsetnum bekkjum í Hallgrímskirkju. Þar gerði hún meðal annars sérstöðu Íslands að umræðu efni. Hún sagði frá því að í Jerúsalem, þar sem hún var gestur vikuna áður, hefði orðið að aflýsa Gay Pride göngu á síðustu stundu til að stofna ekki lífi göngufólks í hættu. Hún minnti okkur líka á það að í heimaborg hennar, New York, er hliðstæð gleðiganga vandlega umkringd girðingum í tilefni dagsins. Alls staðar þar sem ganga fer um borg- ina sér lögregla ástæðu til að reisa virki við gangstétt- arnar, halda almenningi frá þátttakendum – einfaldlega til að verja líf þeirra og limi. „En í göngunni í gær,“ sagði séra Pat þegar við settumst niður um kvöldið til að spjalla saman, „var fólkið á gangstéttinni beinlínis ofan í okkur, fjölskyldufólk, gamalt fólk, unglingar og smábörn sem veifuðu og biðu þess að vera með. Engin lína var dregin milli manna, allir voru ein fjöl- skylda. Hugsið nú um það sem ykkur er gefið,“ sagði séra Pat, „hugsið um hvað það þýðir að þurfa ekki að draga línu milli ykkar og annarra. Sjáið vináttu- vottinn og segið heiminum frá sérstöðu ykkar svo hann geti lært.“ Okkar stærsta áskorun Einmitt þetta held ég að sé ein okkar stærsta áskorun í næstu framtíð. Að hugsa um það hvað okkur er gefið og reyna að nýta það til góðs. Ísland hefur margvíslega sérstöðu hvað varðar stöðu samkynhneigðra, en eitt er þar merkilegra en annað – fjölskylduböndin. Stór hluti af veruleika hverrar manneskju snýst um tengsl- in við ætt og fjölskyldu, við getum ekki kvatt uppruna okkar svo glatt, eins og svo margir gera annars staðar í heiminum til að gera samkynhneigt líf sitt að veruleika. Nútímamenning Íslendinga er barnung, fyrsti vísir að vestrænu borgar- samfélagi hefur orðið til hér á landi í manna minnum. Við stöndum ennþá öðrum fæti í samfélagi sveitarinnar og ættarinnar, og eftir ýmsum leiðum og með ýmsum tákn- um staðfestum við skyldleikann hvert við annað. Samstaða ættar og fjölskyldu sem svo margri ungri manneskju finnst stundum fjötur um fót, jafnvel aulaleg tímaskekkja, varð þrátt fyrir allt helsti styrkur hinsegin fólks á Íslandi við aldamót. Hver skyldi nú hafa trúað því?

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.