Börn og menning - 01.04.2007, Qupperneq 41
IBBY fréttir
39
Dagur barnabókarinnar
Fæðingardagur H.C. Andersens, 2. aprfl,
er hinn alþjóðlegi Dagur barnabókarinnar
sem víða um lönd er notaður til að vekja
sérstaka athygli á barnabókum og mikilvægi
lesturs. Stjórn IBBY á íslandi ákvað á fyrsta
fundi sínum nú í haust að beita sér fyrir því
að koma Degi barnabókarinnar á almanakið
hér á landi. Síðustu mánuði hefur verið
unnið að því að hvetja þá aðila sem koma
að útgáfu og útbreiðslu barnabóka til að
standa fyrir einhvers konar viðburðum í
tilefni dagsins. Nú þegar þetta er ritað
er Ijóst að barnabókahöfundar verða með
dagskrá í aðalútibúi Borgarbókasafnsins
við Tryggvagötu, myndskreytar verða með
sýningu í Ásmundarsal og ekki er ólíklegt að
einhverjar bókabúðir hampi barnabókunum
sérstaklega. Menningarmiðstöð Hornafjarðar
og Hafnarskóli hafa boðið Guðrúnu
Helgadóttur í heimsókn og ætla að sýna
leikgerð úr verkum hennar auk þess sem
nemendur verða með bókmenntakynningar
úr bókum Guðrúnar. Vonandi verða viðlíka
viðburðir sem víðast um landið. IBBY fagnar
deginum með því að veita í fyrsta skipti
barnabókaverðlaunin Sögustein eins og
fram kemur á öðrum stað hér í blaðinu.
Stjórn IBBY bindur miklar vonir við að Dagur
barnabókarinnar sé kominn til að vera hér á
landi og að sem flestir sem málið varðar noti
tækifærið til að koma barnabókum rækilega
á framfæri.
Heimsþing IBBY 2008
Þrítugasta og fyrsta heimsþing IBBY verður
haldið í Kaupmannahöfn 7.-10. september
2008. Yfirskrift þingsins er: Stories in history
- history in stories. Heimsþing IBBY eru
öllum opin og eru venjulega sótt af fimm til
sex hundruð manns frá öllum heimshornum
sem deila áhuga á hugsjónum IBBY,
barnabókum og útbreiðslu þeirra. Boðið
er upp á fyrirlestra í hæsta gæðaflokki,
málstofur og sýningar auk ýmiss konar
skemmtunar. Nú þegar þingið verður haldið
í okkar gömlu höfuðborg er kjörið tækifæri
fyrir áhugasama íslenska IBBY-félaga að
kynnast betur starfsemi þessara merku
samtaka og því góða fólki sem starfar í
nafni þeirra. Bent skal á að þinggjaldið
er venjulega lægra fyrir þá sem skrá sig
snemma. Lesendur eru hvattir til að skoða
sérstakan vef Kaupmannahafnarþingsins,
www.ibby2008.dk þar sem lesa má um
dagskrána, fyrirkomulag og fleira.
Guðrún Helgadóttir tilnefnd
Stjórn IBBY á íslandi hefur ákveðið að tilnefna
Guðrúnu Helgadóttur til H.C. Andersen
verðlaunanna sem afhent verða á heimsþingi
IBBY í Kaupmannahöfn í september 2008.
Þetta er ekkí í fyrsta sinn sem við
tilnefnum Guðrúnu enda er það svo að
þeir höfundar og myndskreytar sem hafa
hlotið verðlaunin hafa jafnan verið tilnefndir
mörgum sinnum.
Oft hefur verið kvartað yfir því að
höfundar frá litlum málsvæðum eins og
Norðurlöndunum eigi mjög takmarkaða
möguleika á því að hljóta H.C. Andersen
verðlaunin einfaldlega vegna þess að
dómnefndin hafi ekki tök á að meta þá sem
skyldi.
Einnig hefur verið gagnrýnt hve mikill
kostnaður fylgi tilnefningunum. Það skal þó
tekið fram að reynt er að skipa í dómnefndina
fólk með mjög breiða tungumálakunnáttu og
oft hefur setið í henni fulltrúi með þekkingu
á að minnsta kosti einu Norðurlandamáli.
H.C. Andersen verðlaunin hafa verið veitt
annað hvert ár allt frá 1956 og í hópi
þeirra 27 höfunda sem þau hafa hlotið eru
5 Norðurlandabúar, Astrid Lindgren 1958,
Tove Janson 1966, Maria Gripe 1974, Cecil
Bödker 1976 og Tormod Haugen 1990.
Sannast að segja mega Norðurlöndin því una
vel við sinn hlut.
í ár verður tilnefningarferlinu og
dómnefndarstörfunum breytt nokkuð til að
reyna að auka jafnræði þeirra höfunda sem
tilnefndir eru. Stærsta breytingin felst í því
að lengja allt ferlið um nokkra mánuði svo
dómnefndarmenn hafi betri tíma til að kynna
sér verk höfundanna. Verður spennandi að
fylgjast með hvort þessar breytingar leiði
til þess að örtunguþjóðir eins og (sland eigi
einhverja möguleika.
Vilt þú starfa fyrir IBBY?
í stjórn IBBY á (slandi sitja sex konur
auk þess sem ritnefnd Barna og
menningar er skipuð þremur konum.
Nokkrar stjórnarkonur hafa unnið fyrir
IBBY árum saman en aðrar skemur. Allar
vinnum við fulla vinnu auk þess að sinna
þessu skemmtilega áhugamáli. Nú er
fyrirséð að allavega eitt sæti losnar í
stjórninni í vor og því er tækifæri fyrir
áhugasama að koma í hópinn. Ef þú
hefur áhuga á að taka þátt í gefandi starfi
í fljúgandi uppsveiflu skaltu endilega
senda tölvupóst til Guðlaugar formanns,
gudlaugri@simnet.is